Stór dagur
Í dag fer fram atkvæðagreiðsla á Alþingi um þingsályktunartillögu ríkisstjórnarflokkanna um Rammaáætlun. Í tillögunni er vikið í veigamiklum atriðum frá niðurstöðu Verkefnisstjórnar um Rammaáætlun.
Rammaáætlun var sett af stað í þeim tilgangi að skapa sátt á grundvelli faglegrar vinnu um það hvar á að vernda og hvar að virkja. Ætlunin var að með hinni faglegu nálgun tækist að hefja mikilvægar ákvarðanir um orkuauðlindir landsins upp yfir pólitískt þras, tilfinningasemi og kjördæmapot. Stjórnmálamenn úr öllum flokkum hafa lýst yfir stuðningi við þessa aðferðafræði. Ef fram fer sem horfir er ljóst að engin sátt skapast með Rammáaætlun heldur verður líftími hennar einungis jafn langur líftíma núverandi ríkisstjórnar.
Þingflokkur Sjálfstæðisflokksins hefur lagt fram tillögu að annari leið. Leið þar sem tryggt er að faglegri niðurstöðu verði fylgt allt til enda.
Niðurstaða atkvæðagreiðslunnar í dag skiptir okkur öll máli. Verði tillaga ríkisstjórnarflokkanna samþykkt óbreytt er ljóst að orð og efndir um fagleg vinnubrögð fara ekki saman.
Unnur Brá Konráðsdóttir
Höfundur er þingmaður Sjálfstæðisflokksins í Suðurkjördæmi