Stór áfangi í höfn
Líklega var þetta einn skemmtilegasti dagur ársins fyrir okkur íbúa Suðurnesjanna. Eftir erfiðan vetur sjáum við loks fyrir endann á atvinnuleysinu og þeim almenna doða sem hefur dregið flest alla niður, en nú lengjast dagarnir hver á fætur öðrum og í fallegri vorblíðunni var gaman að vera viðstaddur undirritun samninga vegna kísilversins í Helguvík.
Vissulega er þetta ekki ein glansandi allsherjar lausn á öllum okkar vandamálum, en þetta er þó stórt skref í rétta átt. Ég hef lengi sagt að okkur vantaði eitthvað eitt, eitt gott verkefni til að sparka okkur af stað. Við erum ekki öll að fara að vinna við þessar framkvæmdir eða í verksmiðjunni að þeim loknum en þetta gefur okkur þó von um að nú sé að létta yfir og nú sé þorandi að fara að gera eitthvað.
Við megum ekki við því að sitja og bíða eftir álveri. Álverið kemur þegar það kemur, við eigum ekki að láta það aftra okkur í þessari miklu orustu. Við verðum að standa saman um að gera Suðurnesin að fjölbreyttu atvinnusvæði sem treystir ekki á eitthvað eitt, hvort sem það heitir Varnarliðið eða eitthvað annað.
Úti í samfélaginu er allt fullt af fólki með fjöldann allan af hugmyndum sem vel geta orðið að veruleika. Nýtum okkur t.a.m. vaxtasamning SSS og Iðnaðarráðuneytisins til að hrinda þessum hugmyndum í framkvæmd. Þær þurfa ekki allar að skapa 100 störf, sumt skapar 5 störf og það er hið besta mál. Margt smátt gerir eitt stórt.
Öll verkefni hefjast með einni lítilli hugmynd. Einhverjum þótti það örugglega glapræði að fara útí rekstur kísilvers í Helguvík, já eða kaffibrennslu í Njarðvík. Nú er kísilverið rétt handan við hornið og Kaffitár orðið eitt blómlegasta og flottasta dæmi um sprotafyrirtæki á Íslandi.
Hjörtur M Guðbjartsson
varaformaður atvinnu- og hafnaráðs Reykjanesbæjar