Stöndum vörð um HSS
Mörg tækifæri liggja í nýrri heilbrigðisstefnu
Nú þegar vindar blása um ganga Heilbrigðisstofnunar Suðurnesja skiptir mestu máli að þingmenn og sveitarstjórnarmenn standi vörð saman um framtíð stofnunarinnar sem hjartað í heilbrigðismálum íbúa á Suðurnesjum. Það er mikilvægast að við stöndum vörð um starfsfólkið og þá þjónustu og tækifæri sem stofnunin býður eftir að ný heilbrigðisstefna var samþykkt á Alþingi síðastliðið vor. Þar er opnað á ýmsa möguleika til samstarfs við Landsspítalann háskólasjúkrahús og við verðum að skoða hvert það tækifæri sem heilbrigðisstefnan felur í sér til að auka hér þjónustu og tækifæri með 1. og 2. stigs heilbrigðisþjónustu. Stefnumörkun stofnunarinnar þarf að liggja fyrir áður en nokkrar ákvarðanir eru teknar um breytingu á starfsemi, lokunum deilda eða skurðstofu. Stjórn stofnunarinnar þarf að leggja fram stefnumörkun og hefur þegar hafið þá vegferð. Þegar stefnumótun liggur fyrir verði tekin ákvörðun um framtíðina en á Suðurnesjum eru sérstakar aðstæður þar sem fjórðungur íbúa er af erlendu bergi brotinn, því fylgir eðlilega meiri vinna og kostnaður og stefnumótun verður að taka mið af því eins og rekstrarframlög. Einnig hafa lýðheilsuvísar verið hærri á Suðurnesjum en annarstaðar á landinu og það þarfnast skoðunar við.
Kröfur um fjárveitingar
Þingmenn kjördæmisins hafa legið lengi undir því að ekki fáist aukin framlög til HSS vegna fjölgunar íbúa og ferðamanna. Sú umræða hefur algjörlega átt rétt á sér og hvergi má slaka á þeim þrýstingi að tryggja nægjanleg framlög til HSS og nýta þau tækifæri sem heilbrigðisstefnan gefur. Samkvæmt upplýsingum um framlög til heilbrigðisstofnanna í frumvarpi til fjárlaga 2020 kemur fram að verulega hefur verið bætt í framlögin. Samkvæmt ríkisreikningi árið 2018 voru framlög til HSS rúmlega 1,3 milljarður króna (1.345.700 þús.kr.) og samkvæmt fjárlögum fyrir 2020 verða framlögin tæpir 2 milljarðar (1.976.700 þús.kr.) sem er veruleg aukning eða um 637 milljónir króna og þá er til viðbótar 40 milljónir króna vegna aukins atvinnuleysis og álags á HSS því samfara. Þá hefur stofnunin haft um 150 milljónir króna leigutekjur af skurðstofu undanfarin þrjú ár en að sjálfsögðu er kostnaður þar á móti.
Aukin þjónusta
Álagið er mikið á starfsfólki HSS og það er mikilvægt að bæta mönnun, fjölga læknum, hjúkrunarfólki og sjúkraliðum. Heilsugæslan er fyrsti viðkomustaður fólks í heilbrigðisþjónustunni og hana þarf að bæta stórlega á Suðurnesjum. Á stofnuninni vinnur gott starfsfólk sem oft glímir við erfiðar aðstæður. Það er því mikilvægt að standa vörð um stofnunina og bæta þjónustuna á öllum stigum.
Þess vegna hef ég í undirbúningi þingsályktunartillögu sem fram kemur á næstu dögum en þar segir m.a. í drögum:
„Alþingi ályktar að fela heilbrigðisráðherra að framkvæma úttekt á húsnæði Heilbrigðisstofnunar Suðurnesja og hvernig það nýtist fyrir starfsemi stofnunarinnar og þau tækifæri sem ný heilbrigðisstefna felur í sér til að bæta þjónustu stofnunarinnar við íbúa á Suðurnesjum. Sérstaklega skal horft til þess hvernig samstarf við Landsspítalann háskólasjúkrahús geti treyst stofnunina, þjónustu hennar og minnkað um leið álagið á LHS. Niðurstöðu úttektarinnar skal kynna með skýrslu ásamt tillögum að betri nýtingu og uppbyggingu stofnunarinnar. Skýrslan skal liggja fyrir eigi síðar en 1. maí 2020.“
Í lok greinagerðar með þingsályktuninni segir í drögunum:
„Fyrir liggur að húsnæðið er að mörgu leyti óhentugt undir starfsemi HSS og þarfnast töluverðs viðhalds og breytinga til að geta staðið undir þeim kröfum sem gerðar eru til þess. Flutningsmenn telja að skoða verði þá þjónustu sem stofnunin geti veitt og skoða hvernig ný heilbrigðisstefna getur eflt starfsemi HSS eins og t.d. með auknu samstarfi við Landspítalann háskólasjúkrahús. Þar kæmi til greina að nýta skurðstofu HSS til minniháttar aðgerða, ferilverk og hvernig aftur mætti veita bestu fæðingarhjálp með auknu samstarfi við LHS sem virðist hafa tekið yfir nær allar fæðingar landsbyggðarsjúkrahúsa. Á meðan ekki liggur fyrir stefnumótun til framtíðar og hvaða tækifæri og möguleika HSS hefur til að auka og bæta þjónustu við íbúa á Suðurnesjum með nýrri heilbrigðisstefnu sem leiðarljós leggja flutningsmenn til að engar ákvarðanir verði teknar sem skerða þá þjónustu sem HSS býður í dag eða deildum eða skurðstofu lokað. Framtíð HSS verði því lögð fram með úttekt og stefnumótun sem byggir á þeim kostum sem efla stofnunina fyrir samfélagið á Suðurnesjum og ákvarðanir um framhaldið teknar af yfirveguðu ráði og í fullu samráði, eins og það er mögulegt við sveitarstjórnir á Suðurnesjum.“
Ásmundur Friðriksson,
alþingismaður.