Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Aðsent

Laugardagur 2. október 2010 kl. 10:28

Stöðvum einelti

Stöðvum einelti er átak sem er farið af stað og verður fundað víðs vegar um landið. Þetta er mjög þarft framtak og mikilvægt að standa vel að málum. Mjög oft heyrist í umræðunni, Hvað gerir skólinn? Skólinn gerir ekkert? Afhverju gerir skólinn ekki eitthvað? En hvað með heimilin? Forvarnir byrja heima, það læra börnin sem fyrir þeim er haft. Ég tel að oft á tíðum sé vandinn upprunninn í nærumhverfi barnsins.

Ég er sjálf þolandi eineltis sem hófst strax í 7 ára bekk og fylgdi mér út nánast alla grunnskólagönguna, var orðið þolanlegt á síðasta árinu. Þetta voru strákar sem lögðu mikið á sig við að kalla á eftir manni ónöfnum, taka af manni tösku og eða húfu og leika með hana í kringum mig. Þessir strákar áttu til að hrinda manni og kaffæra í snjó. Stelpurnar voru öðruvísi, voru með augngotur og beittu hundsun, gerðu lítið úr klæðaburði og sérlega ef maður var ekki í merkjafatnaði. Þegar mín börn byrjuðu í skóla gekk allt ágætlega til að byrja með en svo fór að tvö barnanna urðu fyrir einelti til að byrja með og svo bættist það  þriðja í þann hóp. Ef til vill var ég einnig að einhverju leiti ofverndandi enda vildi ég ekki að börnin mín þyrftu að upplifa það sama og ég, ömurlega skólagöngu. En það vissu fáir ef nokkrir fullorðnir af eineltinu sem ég varð fyrir og móðir mín ekki fyrr en ég var sjálf orðin fullorðin vegna þess að maður sagði ekki frá því. Ég er alveg viss um að ef kennarar mínir hefðu fengið allar upplýsingar frá mér um þetta þá hefðu þeir örugglega reynt að laga hlutina.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Eineltið  á upptök sín hjá okkur, hinum fullorðnu. Stundum sitjum við yfir kaffibolla og ræðum málin, stundum berst talið  að náunganum en það virðist vera afskaplega ríkt í  þjóðarsálinni að tala um náungann. Í þessum samræðum geta fallið óvarleg orð sem börnin oft heyra á stangli, vita ekki alveg forsöguna og draga rangar ályktanir. Börnin mæta svo í skólann eða spjalla við skólafélaga á netinu og láta ýmislegt flakka sem veldur sárindum og er alloft á  misskilningi byggt. Þegar þetta gerist heima á netinu þá geta skólayfirvöld lítið gert í málum fyrr en slíkt berst inn í skólana en hinir fullorðnu, foreldrarnir heima geta hæglega tekið til sinna ráða og rætt við viðkomandi barn eða börn ásamt foreldrum þess eða þeirra.

Við heyrum alltof oft á tali fólks hversu flott það er, hversu vel því gengur miðað við „hina“, hvernig þessi eða hinn er „vel“ klæddur í merkjavöru og hversu flott húsgögn það á eða er að kaupa og oft er það  fólk sem svona talar að reyna að gera sig stærri í  augum annarra vegna eigin vanlíðunar. Við höfum alltof lengi metið fólk eftir stöðu, eignum eða ætt í stað þess að meta fólk fyrir hjartahlýju, umhyggju fyrir öðrum, náungakærleika, hæfni til góðra verka oþh. Við eigum að koma fram við fólk eins og við viljum láta koma fram við okkur, þurfum að muna það að enginn getur allt en allir geta eitthvað.

Að uppræta einelti er samfélagslegt verkefni þar sem foreldrar/heimilin, skólinn og frístundafélögin taka höndum saman en ekki að benda hvert á annað, forvarnir byrja ekki í skólanum heldur heima þegar börnin eru lítil, ekki komin á skólaaldur, skólinn og aðrir sem koma að uppeldi barnanna eiga svo að styðja við forvarnir heimilanna. Það þarf heilt þorp til þess að ala upp barn, reynum að standa undir því hvert og eitt, látum börn og fullorðna skipta okkur máli og styðjum hvert annað.

Virðingarfyllst,


Ragnhildur L. Guðmundsdóttir

Náms- og starfsráðgjafi og kennari.