Stöðva þarf sandbyl í Vogum - myndir
Þrátt fyrir kreppu var árið 2010 framkvæmdaár í Vogum. Sveitarfélagið lagði sitt af mörkum til að halda uppi atvinnu í von um lág tilboð í verk því nóg mun vera af verklitlum verktökum.
Lagt var í tvær stórar framkvæmdir auk nokkurra smærri. Stóru framkvæmdirnar voru annars vegar veglegur íþróttavöllur og hins vegar nýjar útrásir fyrir skólpið sem valda því að fjaran verður loksins heilnæmt útivistarsvæði. Hvor framkvæmd fyrir sig kostar nálægt 70 milljónum. Báðir verktakarnir eru af Suðurnesjum og urðu verkin því mótvægi við atvinnuleysið hér. Verkin voru boðin út í maí og átti að ljúka í lok september. Verkin fóru hægt af stað og var hvergi nærri lokið á umsömdum tíma og er hvorugu lokið enn þrátt fyrir sumarblíðu langt fram á vetur.
Loks í lok nóvember var vinnu við íþróttavöllin að mestu lokið, búið að brjóta niður klappir, slétta og keyra í kynnstur af sandi og þunnu moldalagi efst. Vandinn var þó sá að eftir var að þökuleggja litla 20.000 fermetra! Desember er ekki besti mánuðurinn til að leggja túnþökur á stór svæði og kom nú vetrarveður með stífri norðanátt og frosti. Skipti þá engum togum að í fyrsta norðanveðrinu skall á sandbylur og moldrok og í hríðunum var sem haglél byldi á rúðum húss okkar í Kirkjugerði. Við hjónin náðum að forða bílunum okkar annað og tókst að koma í veg fyrir lakk- og rúðuskemmdir en sandur og mold settist alls staðar. Þetta norðanáhlaup stóð stutt og kannski hafa einhverir haldið að hættan væri liðin hjá. Að minnsta kosti var lítið gert til að stöðva sandfokið en bíll frá verktakanum kom til að fjarlægja stærstu sandskaflana úr nálægum götum og görðum.
Staðreyndin er sú að norðanveður eru algeng á Íslandi, líka á Suðurnesjum. Næsta norðanáhlaup var um jólin. Það stóð lengur yfir og er ekki lokið enn. Frá jólum hefur verið meira eða minna mold- og sandrok og fólk farið að þreytast á að forða bílum í skjól og þrífa mold og sand úr íbúðunum. Askan sem við Vogabúar fengum frá Eyjafjallajökli var smámunir miðað við þetta.
Hættan er ekki liðin hjá. Það er langt til vors og úr þessu verða þökur ekki lagðar á völlinn fyrr en í maí. Fram að þeim tíma mun tugur bílhlassa af mold og sandi ergja íbúa Voga og safnast í skafla á lóðum þeirra og gluggakistum.
Hvað er til ráða?
Við í Vogum erum nú að kynnast böli því sem mörg byggðarlög hafa búið lengi við þar sem gróðureyðing og uppblástur hefur geisað. Þau vandamál hafa nú flest verið leyst með uppgræðslu og gerð varnargarða en síkar aðgerðir geta tekið áratugi. Þessu böli okkar Vogabúa lýkur vonandi strax í vor með því að nýji íþróttavöllurinn verður græddur upp. ? Eitthvað þarf að gera þangað til. Við sættum okkur ekki við að vera í sand- og moldroki í allan vetur í hvert sinn sem vindur blæs úr norðri.
Nú þarf að grípa til aðferða sem notaðar hafa verið til að draga úr sandfoki víða um land. Þar tel ég koma helst til greina að setja upp varnargarða eða girðingar þvert yfir ófullgerða völlinn, þvert á norðanáttina þannig að garðarnir snúi í austur-vestur. Að auki mætti setja einn eða fleiri garða nokkrum tugum metrum sunnan við völlinn til að hirða sand sem sleppur framhjá. Garðar þessir draga úr vindhraða við yfirborðið. Þannig fer minna af sandi og mold af stað og drjúgur hluti þess sem fer af stað stöðvast hlémegin við garðana. Þannig myndast sandskaflar meðfram görðunum en sá sandur tapast þó ekki af vellinum og gerir ekki óskunda í byggðinni.
Landgræðsla Íslands hefur notað ýmis efni í garða sem þessa, svo sem grjót, timbur, heybagga. Mér segir svo hugur að verktakinn gæti átt á lager grindur úr vírneti og rörum (notaðar til að girða af vinnusvæði), timburfleka og steypuklumpa. Til slíkra ráða þarf að grípa strax áður en skaðinn verður meiri. Ef verktakinn hefur enga döngun til að sinna þessu ætti tryggingarfélagið að sjá hag sinn í því.
Af stað nú, þó seint sé!
Þorvaldur Örn Árnason
Íbúi í Vogum. Uppalinn í sandfokssveit og hefur unnið við landgræðslurannsóknir.
Sandur og mold smýgur inn um allar rifur.
Limgerði mynda skjól og þar safnast drjúgur sandur í skafla.
Sandskafl á Hafnargötunni.
Heiti potturinn er ekki árennilegur.
Hálfgerði íþróttavöllurinn. Héðan kemur sandurinn og moldin.
Girðingin myndar skjól sem sandur og snjór sest í.
Stundum sáldrar fólk sandi yfir moldarbeðin í görðum sínum en þetta er of mikið!
Þetta er biðskyldumerki en það dugar ekki á sandfokið. Skiltið sem snýr mót norðri er hulið mold en skiltið sem snýr mót austri er hreint. Þessi staður er nær hálfan kílómetra frá upptökum áfoksins.
Þvottaklemmurnar gefa hugmynd um hvernig þvottur á snúrum myndi líta út.
Ragnheiður E. Jónsdóttir tók myndirnar 8. janúar 2011