Stillum upp góðu liði
- Aðsend grein frá Ísaki Erni Kristinssyni
Ég, Ísak Ernir Kristinsson, hef ákveðið að gefa kost á mér í 4. sæti á lista Sjálfstæðisflokksins í prófkjöri flokksins sem fram fer 10. september næstkomandi. Ég er fæddur og uppalinn í Reykjanesbæ. Hef verið virkur í félagsmálum, stjórnmálum og samfélagsmálum. Nú nýverið hef ég lagt mitt af mörkum við að þrýsta á stjórnvöld að ljúka við tvöföldun Reykjanesbrautar. Fyrirséð er að helstu verk næsta kjörtímabils eru uppbygging innviða og aukin velferð. Grunnurinn að því er aukin verðmætasköpun.
Suðurkjördæmi er kjördæmi tækifæranna. Flest allir ferðamennirnir hefja dvöld sína, nota mikinn tíma ferðar sinnar og ljúka dvöl sinni í kjördæminu. Kjördæmið er ríkt af auðlyndum; hreint vatn, jarðvarmi, vatnsafl, hrein náttúra og margt fleira. Sjávarútvegurinn stendur föstum fótum í kjördæminu sem skapar mikil verðmæti. Svona mætti lengi telja. Ég tel hins vegar að enn séu mikil tækifæri á að gera betur.
Bættar samgöngur
Nú er svo komið að ráðast verður í margar brýnar framkvæmdir í samgöngumálum. Málaflokkurinn hefur verið fjársveltur frá efnahagshruni og hefur fjárfestingaþörfin byggst upp síðustu ár. Tvær megin ástæður fyrir þörfinni eru aukning ferðamanna og bætta samgöngur fyrir íbúa kjördæmisins til að auka atvinnu- og búsetumöguleika fólks. Brýnustu verkefni kjördæmisins eru tvöföldun Suðurlandsvegar, útrýma verður einbyggðum brúm á þvóðveginu, fjölga ferðum Herjólfs sem og ljúka við tvöföldun Reykjanesbrautar. Þessi upptalning er alls ekki tæmandi því fjárfestingaþörfin er gríðarleg.
Ungt fólk vill frelsi
Margir af minni kynslóð vilja aukið frelsi. Frelsismálin leynast víða, stór sem smá. Aðskilnaður ríkis og kirkju, staðgöngumæðrun í velgjörðaskyni, frjáls sala áfengis, blóðgjöf út frá heilsufarsjónarmiðum í stað kynhneigðar, leggja niður mannanafnanefndar og margt fleira. Þetta eru allt mál sem við verðum að ræða af mikilli alvöru. Sjálfstæðisflokkurinn hefur verið leiðandi í að auka frelsi einstaklingsins og nauðsynlegt er að svo verði áfram.
Lækkun skatta
Það er einlæg skoðun mín að sérhver einstaklingur er betur til þess fallinn að ráðstafa sínum tekjum en ríkissjóður. Ef við Sjálfstæðismenn tölum ekki fyrir skattalækkunum þá mun enginn flokkur gera það. Halda þarf áfram lækkun tekjuskatts til að auka ráðstöfunnartekjur fólks. Afnema á allar undanþágur í virðisaukaskattkerfinu og fækka þrepunum í eitt. Með því myndi virðisaukaskattkerfið vera gegnsærra, skilvirkara og undanskotum fækka.
Öflugur liðsmaður
Ég er reiðubúinn að axla þá ábyrgð sem fylgir því setjast á Alþingi sem fulltrú Sjálfstæðisflokksins. Ég er ekki reyndur í stjórnmálum en það sem ég kem með að borðinu er vinnusemi, dugnaður og gríðarlegur áhugi á að gera gott samfélag enn betra. Einnig er ég öflugur liðsmaður sem á gott með að vinna með fólki og eiga góð samskipti við fólk. Þess vegna gef ég kost á mér í 4. sæti í prófkjöri Sjálfstæðisflokksins í Suðurkjördæmi.
Ísak Ernir Kristinsson