Steinaldarmataræði!
Ég hélt satt að segja að toppi næringarvitleysunnar hefði verið náð hér á landi á árinu 1999 þegar út var gefin bók sem nefnist „Rétt mataræði fyrir þinn blóðflokk“. „Fræði“ þessi náðu miklum vinsældum og bókin seldist í þúsundum eintaka og reynslusögur fólks sem hafði náð undraverðum árangri í baráttunni við aukakílóin eða lækningu gagnvart hinum ýmsu líkamskvillum bárust víða. Blóðflokkakenningin byggir á þeirri staðhæfingu að 0-blóðflokkurinn hafi komið fyrstur fram á sjónarsviðið (um 50.000 árum fyrir Krist) og að þá hafi mannskepnan að upplagi verið „veiðimenn“ og þar sem „veiðimennirnir“ höfðu fyrst og fremst nærst á kjöti og fiski ættu menn í O-blóðflokki að halda sér aðallega við slíka fæðu. Hins vegar átti fólk í A-blóðflokki að sneiða hjá slíkum mat en neyta jurtafæðis en samkvæmt kenningunni á A-blóðflokkurinn að hafa komið fram 15.000 árum fyrir Krist! Hve margir ætli muni eftir þessari blóðfokkaþvælu í dag eða reyni að borða í anda síns blóðflokks? Þeir eru eflaust ekki margir. Ástæða þess að minnst er á þessa skrítnu kenningu er sú að um þessar mundir nýtur töluverðra vinsælda kenning þar sem einnig er leitað fanga aftur í gráa forneskju. Kenning sú sem um ræðir kallast „Steinaldarmataræði“ (Paleo diet) og verður nú nánar fjallað um út á hvað sú mataræðiskenning gengur.
SAGA
Steinaldarmataræðiskenningin er ekki ný af nálinni og líkast til er hægt að eigna hana meltingarfærafræðingnum Walter L. Voegtlin sem árið 1975 gaf út bók sína “The Stone Age Diet”. Síðan þá hafa ýmsar „steinaldarnæringarbækur“ verið gefnar út og sú sem hefur náð hvað mestri útbreiðslu er vafalaust “The Paleo Diet: Lose Weight and Get Healthy by Eating the Foods You Were Designed to Eat“ eftir Dr. Loren Cordain. En þess má geta að sá sami gaf út steinaldarmataræðisbók ætlaða íþróttafólki sem nefnist „The Paleo Diet for Athletes: A Nutritional Formula for Peak Athletic Performance“ og á það er bent vegna þess að margir sem hafa mælt með steinaldarmataræðinu hér á landi tengjast íþróttum!
MÁ/ MÁ EKKI
Þeir sem fylgja eftir „mataræði steinaldarmannsins“ og eru forfeðrum sínum trúir leggja sér til munns magurt kjöt, fisk, egg, grænmeti, ávexti, ber, hnetur og fræ. Hins vegar mega þeir ekki neyta afurða eins og kornmeti (svo sem hrísgrjón, hveiti, maís og hafra), baunir, mjólk- og mjólkurafurðir, né verksmiðjuunninn mat af neinu tagi. Og að sjálfsögðu ættu „hellisbúar“ nútímans þar með að láta vera að leggja sér til munns fæðubótarefni í hvaða mynd sem er eins og próteinblöndur sem flestar samanstanda af forboðnum mjólkurpróteinum svo ekki sé nú minnst á verksmiðjuunnin vítamín og steinefni. Hér er minnst á fæðubótarefni vegna þess að þeir sem aðhyllast kenninguna um steinaldarmataræðið mæla oft með neyslu ýmisskonar fæðubótarefna sem er vægast sagt fáránlegt enda stóð steinaldarmönnum fortíðar aldrei slíkt “góðgæti” til boða!
HEILBRIGÐI/ OFFITA
Tvær fullyrðingar heyrast oft þegar verið er að mæla með “steinaldarmataræðinu”. Fyrri fullyrðingin snýst um aukið heilbrigði og sú seinni um það að rót offituvandans megi fyrst og síðast rekja til kolvetnaneyslu en ekki neyslu á fitu og próteinum. Þessar fullyrðingar eru vægast sagt hjákátlegar enda er ekkert sem hönd er á festandi sem segir að steinaldarmaðurinn hafi verið ímynd heilsu og heilbrigði eða óvenju langlífur eða að einstaklingar sem neyta hlutfallslega meira af kolvetnum verði frekar feitir. Einn mælikvarði á velgengni dýrategundar felst í þeim “hæfileika” að fjölga sér og þar hefur manninum heldur betur tekist vel til og þá sérstaklega síðustu 100 árin eða svo. Og í þessu tilliti er vert að hafa í huga að þeim samfélögum/þjóðum, þar sem kolvetnaneysla hefur í sögulegu tilliti verið ríkuleg, hefur tekist einstaklega vel upp hvað þetta varðar, samanber tveimur fjölmennustu þjóðum heims, Kína og Indlandi. Og þar fyrir utan að þrátt fyrir hlutfallslega háa kolvetnaneyslu íbúa þessarra tveggja fjölmennustu ríkja heims er offita þar mjög fátíð ef miðað er við víða annars staðar þar sem hlutfall kolvetna í fæði er lægra, svo sem í USA, Bretlandi og á Íslandi! Enda hljóta allir að gera sér grein fyrir því að fólk fitnar fyrst og fremst vegna ofneyslu hitaeininga og skiptir þá litlu hvort þær hitaeiningar sem umfram eru séu í formi kolvetna, fitu, próteina eða alkóhóls!
AÐ LOKUM
Þó að „steinaldarmataræðiskenningin“ haldi ekki vatni að þá er sá matur sem fylgjendur leggja sér til munns að sjálfsögðu hollur og góður. Hins vegar þykir mér sem næringarfræðingi bagalegt að margs konar hollmeti sé úthýst. Vitna hér að síðustu í http://health.usnews.com/best-diet/best-overall-diets þar sem 20 sérfræðingar mátu 25 tegundir mataræðiskúra svo sem Miðjarðarhafsmataræði, DASH-mataræði, Hráfæðismataræði og Atkinsmataræði út frá þáttum eins og hve heilsusamlegt það væri, áhrif þess á þyngdartap og hve auðvelt væri að fylgja því eftir. Niðurstaðan: Steinaldarmataræðið fékk verstu einkunn þeirra allra!
Ólafur Gunnar Sæmundsson, næringarfræðingur