Stefni á 2. – 4. sæti á lista Samfylkingarinnar
Við banka – og gjaldeyrishrunið fyrir rúmum fjórum árum var stærsta verkefni jafnaðarmanna að standa vörð um velferðarkerfið. Það varð að gera samhliða miklum niðurskurði í ríkisútgjöldum ásamt endurskipulagningu íslensks fjármálakerfis og því að marka trúverðuga stefnu til framtíðar í gjaldeyrismálum þjóðarinnar. Ríkisstjórn Jóhönnu Sigurðardóttur hefur á þessum erfiðu tímum tekist að standa vörð um velferðina í þjóðfélaginu þrátt fyrir harkalegan niðurskurð ríkisútgjalda.
Á næsta kjörtímabili verður mikilvægt að halda áfram á þessari braut. Hlúa verður að velferðarkerfinu og berja í þá bresti sem óhjákvæmilega hafa myndast í kjölfar hrunsins. Á sama tíma er mikilvægt að tryggja jafnvægi og stöðugleika í ríkisrekstrinum og að styrkja stoðir þjóðarbúskaparins til framtíðar.
Eitt stærsta verkefni næsta kjörtímabils verða atvinnumálin. Þau hafa eðlilega brunnið heitt á þjóðinni frá hruni enda varð atvinnuleysi mikið í kjölfar hrunsins. Á kjörtímabilinu hefur gengið vel að vinna á atvinnuleysinu. Það sýna tölur Hagstofunnar. Þrátt fyrir það er mikið verk óunnið í þeim efnum og mikilvægt að stjórnvöld skapi skilyrði fyrir frekari vöxt í atvinnulífinu.
Að þessum verkefnum er ég tilbúinn að vinna með ykkur á næsta kjörtímabili. Þess vegna hef ég ákveðið að bjóða mig fram í 2. – 4. sæti á lista Samfylkingarinnar í Suðurkjördæmi.
Frá árinu 2006 hef ég verið bæjarfulltrúi í Sveitarfélaginu Hornafirði og á síðasta kjörtímabili var ég formaður bæjarráðs og forseti bæjarstjórnar. Ég þekki því mjög vel til málefna og aðstæðna hjá sveitarfélögum í landinu. Ég er menntaður grunnskólakennari og hef starfað sem grunnskólakennari undanfarin ár. Einnig hef ég margvíslega reynslu af fjölbreyttum félagsstörfum, m.a. innan íþróttahreyfingarinnar og stéttarfélags kennara.
Ég óska eftir stuðningi ykkar í 2. – 4. sæti í rafrænu flokksvali skráðra félaga og stuðningsmanna 16. og 17. nóvember nk.
Árni Rúnar Þorvaldsson
Bæjarfulltrúi Hornafirði