Starfsskóli Sandgerðisbæjar
- Þekking og þjálfun - fyrir þig
Við hjá Sandgerðisbæ ætlum að setja tíma, fjármagn og þekkingu í að endurbyggja starfssemi og ímynd hins gamla og góða Vinnuskóla. Við ætlum að byrja á því að breyta heitinu á skólanum og kalla hann starfsskóla þar sem við leggjum áherslur á að undirbúa okkar starfsmenn/nemendur sérstaklega til þess að takast á við vinnumarkað framtíðar. Starfsskólinn hefur stjórnanda og síðan ráðum við verkefnisstjóra í stað flokkstjóra.
Þetta ætlum við að gera í samstarfi við ungt fólk í okkar umhverfi.
Til þess að vinna að þessu leitum að frábæru, skapandi og skipulögðu fólki sem er jákvætt og vill taka þátt í spennandi verkefni. Nú þegar er hafin þróunarvinna við að endurskipuleggja starfsskólann og gera hann metnaðarfullan og eftirsóknarverðan fyrir ungmenni og stjórnendur.
Starfsskólinn mun standa fyrir þekkingu, þjálfun - fyrir þig
Það þýðir að allt sem kennt og þjálfað á að nýtast okkar fólki vel inn í framtíðina. Stjórnandi og verkefnisstjórar fá þjálfun og reynslu í stjórnun, skipulagi og samskiptum við ungt fólk. Þeim er einnig leiðbeint hvernig taka skal á málum og eins hvernig hægt er að auka sjálfstæði og byggja upp jákvæða sjálfsmynd ungmenna. Verkefnisstjórar hafa aðgang að þjálfun allt sumartímabilið og þurfa að skila umsögum um sína starfsmenn.
Nemendur starfsskólans verða núna starfsmenn skólans sem selja sínar vinnustundir. Því fylgir bæði ábyrgð og væntingar. Þess vegna fá þeir þjálfun í því að skoða tilgang verkefna, þeim verður kennd almenn siðfræði á vinnumarkaði, mætingar, agi og virðing, farið í grunnatriði vinnuréttar og samstarf. Þau ræða, skoða og skilgreina ímynd bæjarfélagsins og leggja sitt af mörkum til þess að byggja upp og hafa áhrif á það samfélag sem við getum öll verið stolt af.
Þau eiga kost á því að velja sér sum verkefni eftir áhugasviði og eins gefst þeim tækifæri á því að skoða og kynnast annarri atvinnustarfssemi hér á svæðinu. Verkefnisstjórar munu síðan leggja mikla áhersla á félagsþroska og samskipti með því að kynna það sem efst er á baugi hverju sinni í samráði við Hitt Húsið og aðra þá sem eru að gera eitthvað áhugavert með ungu fólki.
Starfsskólinn mun síðan sjálfur sjá um að kynna verkefni sumarsins á lokahátið skólans þar sem verkefni og annað starf verður kynnt að sérstökum hætti starfsmanna skólans.
Með þessum ásamt fleiru viljum við búa til virkan skóla þar sem ungmenni og stjórnendur fá fjölbreytta og skemmtilega þjálfun og tækifæri til að taka þátt og fá kynningu á áhugaverðum verkefnum innan okkar samfélags.
Vinnuskólahugmyndin er einstök og það er okkur gríðarlegar mikilvægt að viðhalda þessu verkefni á eins jákvæðan og hvetjandi hátt og kostur er. Við viljum nýta sem best þetta góða tækifæri sem við höfum hér á Íslandi til að undirbúa ungt fólk fyrir vinnumarkað framtíðarinnar og gefa þeim tækifæri að vinna í uppbyggilegum sem og nauðsynlegum verkefnum um leið og þau taka sín fyrstu skref á vinnumarkaðinn.
f.h. Sandgerðisbæjar
Rut Sigurðardóttir, frístunda- og forvarnafulltrúi
Einar Friðrik Brynjarsson, umhverfis- og tæknifulltrúi