Stækkum skattstofninn í stað þess að hækka skatta
Í stað þess að stækka skattstofninn hefur ofuráhersla verið lögð á að hækka skatta til að mæta halla ríkissjóðs, sem þó er enn rekinn með verulegu tapi.
Þessu er hægt að snúa við með því að stækka skattstofninn og skapa atvinnu fyrir fólk sem nú er á atvinnuleysisbótum. Samkvæmt fjárlögum síðustu fjögurra ára var ríkissjóður að eyða um 88 milljörðum í atvinnuleysistryggingasjóð. Ef sköpuð væru störf fyrir þetta fólk og því gefinn kostur á að bjarga sér í stað þess að fá skammtað úr hnefa bætur sem varla er hægt að lifa af, þá væri hægt að snúa gjöldum í skatttekjur fyrir ríkissjóð.
Af þessu má sjá að eftir miklu er að slægjast, ekki bara bættum aðstæðum atvinnulausra, enda atvinnuleysi eitt mesta böl sem fyrir nokkurn getur komið, heldur tvöföldum fjárhagslegum ávinningi ríkissjóðs, minni útgjöldum og meiri tekjum á sama tíma. Fátt annað gefur jafn vel af sér fyrir ríkissjóð og einmitt þetta.
Til að koma þessu í framkvæmd þarf að eyða pólitískri óvissu sem ríkt hefur undanfarin ár sem einkennst hefur af stöðugum árásum stjórnvalda á atvinnulífið í formi skattahækkana og umbyltinga í rekstrarumhverfi fyrirtækja. Hagnaður fyrirtækja er tortryggður og skoðanir stjórnvalda virðast vera á þá leið að hagnað verði að uppræta. Ekki er óeðlilegt að stjórnendur fyrirtækjanna bregðist við slíku með því að halda að sér höndum, segi upp fólki til að bregðast við væntum niðurskurði í efnahagslífinu eða geymi það að ráða nýtt fólk til starfa þar til hlutirnir fara að skýrast. Án hagnaðar munu fyrirtæki ekki skapa ný störf.
Nýta þarf tækifærin betur en gert hefur verið undanfarin ár. Öfgaumhverfisverndarsinnar hafa komið því til leiðar að skynsamleg nýting orkuauðlinda er bönnuð sem annars myndi skapa störf og hagsæld í landinu. Borið er fyrir sig rökum eins og að geyma skuli auðlindina fyrir komandi kynslóðir. Á meðan renna allar ár landsins til sjávar, margar þeirra vel til þess fallnar að nýta það afl sem nú fer til spillis.
Hækkun skatta er komin að þolmörkum. Á undanförnum árum hafa stjórnvöld keyrt í gegn um 22 meiriháttar skattkerfisbreytingar á meðan fjöldi skattahækkana er nálægt 100. Nú er svo komið að hærri skattar skila alls ekki þeim tekjum sem Excel skjalið reiknaði með enda fólk farið að bregðast við með því að spara við sig. Minna er t.d. keypt af bensíni en gert var ráð fyrir. Viðbrögð stjórnvalda eru að hækka skatta enn frekar þó líklegt sé að það muni ekki skila tilætluðum árangri.
Breyta verður áherslunum. Ekki dugar að kreista blóð úr steini með enn frekari skattheimtu heldur verður að beina öllum kröftum í að breikka skattstofninn með öflugri atvinnusköpun.
Magnús B. Jóhannesson
M.Sc. í rekstrarhagfræði og stjórnun.
Höfundur býður sig fram í 3. sæti í prófkjöri Sjálfstæðisflokksins í Suðurkjördæmi, 26. janúar 2013.