Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Aðsent

Staðreyndir málsins um Hitaveitu Suðurnesja hf.
Föstudagur 5. október 2007 kl. 13:17

Staðreyndir málsins um Hitaveitu Suðurnesja hf.

Reykjanesbær á nú ríflega 34% hlut í Hitaveitu Suðurnesja. Þetta er ráðandi hlutur sem þýðir að ekki er hægt að breyta samþykktum félagsins án okkar atbeina. 34% eign er eðli málsins samkvæmt ekki meirihluti. Við höfum aldrei átt meirihlutann í Hitaveitu Suðurnesja. En ráðandi hlutur þýðir að enginn gerir breytingar á samþykktum Hitaveitu Suðurnesja án okkar stuðnings. Það er ekki hægt að selja hluti í HS án þess að við föllum frá forkaupsrétti.
Með þeim breytingum sem nú eru að verða í tengslum við sameinað útrásarfyrirtæki á orkumarkaði, eru tækifæri til breytinga í þágu Hitaveitunnar og Suðurnesja.
Við erum nú eina sveitarfélagið hér á Suðurnejsum sem enn stendur vörð um HS hf.. Við sleppum ekki okkar trompi af hendi nema sterkt samkomulag náist. Við sjálfstæðismenn setjum þar markmið um að vinnan skili sér í fimm aðalatriðum: 
 
1. Hitaveita Suðurnesja eflist enn frekar og starfsmönnum fjölgi hér á Suðurnesjum.
2. Tryggt verði  að þjónusta við almenning s.s. vatn, hiti, rafmagn og frárennsli verði að meirihluta í almannaeigu, bæði kerfin og salan.
3. Sú uppbygging sem Geysir Green Energy var að hefja hér í Reykjanesbæ haldi áfram, m.a. í samstarfi við Keili, þótt það verði væntanlega undir nafni sameinaðs fyrirtækis, REI.
4. Reykjanesbær eigi áfram í framleiðslukerfunum, virkjunum osfrv.
5. Að sú stórfellda virðisaukning á Hitaveitu Suðurnesja, sem Geysir Green skapaði með kaupum sínum nýtist í þágu íbúa bæjarins.
 
Þeir sem bölsótast út í vinnu okkar sjálfstæðismanna við að standa með Geysi Green og margfalda virði Hitaveitunnar, sem hefur gjörbylt fjárhag sveitarfélaga á Suðurnesjum, bölsótast nú yfir því að við höfum styrk til að semja um alla þessa fimm þætti sem hér að ofan greinir. Þeir telja leikinn tapaðan þótt hann líti út fyrir að enda 5-0 okkur í vil!
 
Staða okkar er svona sterk vegna þess að við erum einmitt með ráðandi hlut í Hitaveitu Suðurnesja og höfum því sterkan samningsgrundvöll. Með uppskiptingu verkefna breytast hlutföllin. Við þurfum því að velja. Á okkur er hlustað af samstarfsaðilum okkar, bæði Geysi Green og Orkuveitunni. Ég hef bjargfasta trú á að þeir samningar sem við vinnum nú að staðfesti eftirfarandi:
 
1. Hitaveita Suðurnesja eflist enn frekar, og ráðið verður fleira starfsfólk til hennar með starfstöð í nýjum höfuðstöðvum á Fitjum í Reykjanesbæ.
2. Reykjanesbær eignast meirihluta í veitukerfunum  og tryggir að vatn, hiti, rafmagn og frárennsli tengd heimilum okkar og vinnsutöðum verði í almannaeigu.
3. Reykjanesbær eigi áfram eignarhlut í virkjununum á Suðurnesjum, þótt í minnihluta sé.
4. Arftaki Geysis í útrásarverkefninu, REI, efli starfsemina hér á Suðurnesjum enn frekar með starfsstöð og auknu samstarfi við Keili um rannsóknar- og þróunarverkefni.
5. Að virðisaukningin skili sér meðal annars í stórauknum tekjum til Reykjanesbæjar, sem unnt er að nýta til að bæta hag bæjarsjóðs og bæta þjónustuna.
 
Margir hafa lagt áherslu á að þegar einkaaðilar komu að HS hf., með sölu ríkisins á hlut sínum, væri mikilvægt að tryggja að veitukerfin innan bæjarmarka og smásalan í kerfin, þ.e. rafmagn, vatn og hiti, væru að meirihlutaeign í höndum opinberra aðila. Þetta er m.a. í samræmi við umræður ráðherra orkumála um aðgreiningu á einkaleyfisþáttum og samkeppnisþáttum í orkugeiranum. Þetta skal tryggt.
 
Margir hafa talið að það sé ekki í verkahring sveitarfélaga að stunda samkeppnisrekstur á sviði orkumála, leita að virkjunarsvæðum, gera tilraunaborholur og setja upp virkjanir, m.a. í samkeppni um sölu á orku til stórfyrirtækja eða verja skattpeningum í áhætturekstur s.s. í Afríku. Sjálfstæðismenn í Reykjanesbæ telja það ekki vera í verkahring sveitarfélagsins að stunda samkeppnisrekstur. Við viljum samt tryggja framtíðarhagsmuni Hitaveitu Suðurnejsa og alls starfsfólks okkar þar.
 
Þar sem við erum með ráðandi hlut í Hitaveitunni, þarf að hlusta á okkar tillögur, ef breytingar skal gera. Við viljum því nota tækifærið við þessar breytingar og öðlast meirihlutaeign í veitukerfunum, amk.  því sem að okkur snýr, og tryggjum okkur áfram aðkomu að þeim hluta sem snýr að samkeppnisrekstri eins og veitumannvirkjunum, m.a. tveimur orkuverum. Það er mikilvægt að huga að vilja stjórnenda og starfsmanna varðandi tilhögun reksturs HS til framtíðar.  Nú erum við að ræða heppilegustu tilhögun með forsvarsmönnum HS.

Á næstu dögum kemur í ljós hvort þessi markmið okkar nást fram. Þeir sem venjulega hrópa um úlfa við hvert fótmál og hafa lýst yfir að þeir hafi haft rétt fyrir sér um algert skipbrot í málefnum Hitaveitunnar, munu þurfa að éta það ofan í sig. Það verður ekki í fyrsta sinn sem það gerist.
 
Árni Sigfússon,
bæjarstjóri

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024