SpKef - Landsbankinn neitar að svara Alþingi
Á Alþingi í vor lagði ég fram skýrslubeiðni til fjármála- og efnahagsráðherra. Skýrslan átti að svara því hvað varð um þá 25 milljarða sem ríkissjóður lagði til Landsbankans vegna yfirtöku bankans á SpKef sparisjóði. Skýrslan kom út 3. september sl.
SpKef sparisjóður var stofnaður árið 2010 eftir fall Sparisjóðsins í Keflavík, með aðkomu fjármálaráðuneytisins. Þær eignir sem fylgdu frá Sparisjóðnum inn í SpKef sparisjóð áttu að duga fyrir skuldbindingum hans. Það reyndist rangt og fór svo að stjórnvöld sömdu við Landsbankann um að taka hinn nýja Spkef sparisjóð yfir. Samningurinn um yfirtökuna reyndist ríkissjóði mjög kostnaðarsamur.
Var greitt fullt verð fyrir eignir SpKef ?
Skattgreiðendur eiga rétt á því að fá vitneskju um hvernig fjármunum ríkisins er ráðstafað hverju sinni. Jafnframt eiga þeir rétt á því að fá að vita hvernig eignum ríkisins sé ráðstafað, að ávallt sé greitt hæsta mögulega verð fyrir þær eignir sem ríkið selur og um eignasöluna ríki gagnsæi hverju sinni. Verðmætar eignir voru færðar frá SpKef sparisjóði til Landsbankans. Ekkert hefur verið gefið upp á hvaða verði Landsbankinn seldi þessar eignir, hvernig söluferlinu var háttað og hverjir keyptu þær.
Landsbankinn neitar að afhenda Alþingi upplýsingar um SpKef
Í skýrslunni kemur fram að Landsbankinn neitar að afhenda Alþingi þau gögn sem beðið er um og gætu varpað ljósi á lyktir málsins, sem hefur kostað skattgreiðendur verulegar fjárhæðir.
Í máli þessu gekkst ríkissjóður í tugi milljarða ábyrgðir. Ábyrgðaraðilar eiga alltaf rétt á að fá upplýsingar sem liggja til grundvallar greiðslu sem ábyrgðaraðili. Það er því með öllu óviðunandi að ríkissjóður njóti ekki þessa réttar. Ef það er niðurstaðan þá þarf að upplýsa hver gekk frá ábyrgðinni með þeim hætti. Hagsmunir skattgreiðenda eru fyrir borð bornir ef ríkissjóður ábyrgist fjárskuldbindingu án þess að fá ljósar upplýsingar um hvað liggur að baki ábyrgðarfjárhæðinni.
Ekki fær staðist að Landsbankinn geti neitað eiganda sínum ríkissjóði, sem á 100% hlutafjár í bankanum, um mikilvægar upplýsingar.
Í skýrslunni kemur einnig fram að Þjóðskjalasafn Íslands hafi ekki svarað beiðni um gögn sem lúta að svari við fyrirspurninni. Það mun því liggja beinast við að Stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd Alþingis óski eftir skýringum frá Þjóðskjalasafni, hvernig standi á því að erindum Alþingis sé ekki svarað. Mun ég fylgja því máli eftir.
Ríkisjóður tapaði 25 milljörðum
Skýrsla fjármála- og efnahagsráðherra er mikil vonbrigði. Fjármálaráðherra virðist ekki vera jafn áhugasamur nú að upplýsa um þetta mál og hann var árið 2012 þegar hann var í stjórnarandstöðu og ræddi málið á Alþingi. Athygli vakti að nokkrir þingmenn Sjálfstæðisflokksins voru á móti skýrslubeiðni minni.
Í ljósi niðurstöðu skýrslunnar mun ég leita eftir áliti Seðlabanka Íslands og Fjármálaeftirlitsins, hvort Landsbankanum sé stætt á því að neita að afhenda Alþingi umbeðin gögn. Ef það er raunin mun ég leggja fram lagafrumvarp á Alþingi þegar nýtt þing kemur saman, fái ég umboð til þess í komandi kosningum. Frumvarpið mun þá skylda Landsbankann til að veita allar upplýsingar um það fyrir hvað skattgreiðendur greiddu 25 milljarða vegna gjaldþrots SpKef sparisjóðs og hvort eðlilegir viðskiptahættir hafi ríkt við sölu eigna SpKef.
Hér má nálgast skýrsluna:
www.althingi.is/altext/pdf/151/s/1906.pdf
Birgir Þórarinsson
Höfundur er þingmaður og oddviti Miðflokksins í Suðurkjördæmi.