Sparnaðarhugmyndir aðför að velferðarkerfi
Stjórn Samfylkingarinnar í Reykjanesbæ getur ekki fallist á sparnaðarhugmyndir heibrigðisráðuneytisins sem reikna með lokun skurðstofa á Heilbrigðisstofnun Suðurnesja (HSS) og telur sparnaðarhugmyndirnar aðför að því velferðarkerfi sem áratugi hefur tekið að byggja upp.
Lokun nýopnaðra skurðstofa HSS felur í sér augljósa skerðingu á þjónustu HSS við íbúa svæðisins og öryggi þeirra er njóta er stefnt í voða.
Ljóst er að verði framkomnar tillögur til sparnaðar að veruleika við núverandi aðstæður mun starfsemi fæðingardeildar HSS lognast útaf og sú þjónusta sem nú þegar er þar veitt færast til Reykjavíkur með tilheyrandi áhættu fyrir verðandi mæður og nýbura og aukins kostnaðar fyrir ríkið.
Stjórn Samfylkingarinnar í Reykjanesbæ skorar á heilbrigðisráðherra að taka tillit til þeirrar staðreyndar að fjárveitingar til stofnunarinnar eru langt undir því sem eðlilegt getur talist með tilliti til umfangs starfsemi HSS og íbúafjölda á svæðinu en í ákvörðun ráðuneytisins um frestun á lokun síðdegisvaktar síðastliðið sumar fólst viðurkenning á þessari staðreynd. Auk þess hvetur stjórn Samfylkingarinnar í Reykjanesbæ heilbrigðisráðherra til þess að falla frá framkomnum sparnaðarhugmyndum hvað varðar HSS og til þess að leiðrétta þann halla sem stofnunin nú þegar stendur frammi vegna vanáætlaðra framlaga fyrri ára.
Stjórn Samfylkingarinnar í Reykjanesbæ lítur svo á að íbúar á Suðurnesjum sitji ekki við sama borð og aðrir landsmenn hvað varðar framlög til heilbrigðismála og að skerðing á núverandi þjónustu sé ekki í anda þeirrar stefnu ríkisstjórnarinnar að standa beri vörð um almenna heilbrigðisþjónustu.
Stjórn Samfylkingarinnar í Reykanesbæ lýsir yfir fullum stuðningi við starfsfólk HSS er nú berst fyrir framtíð skurðstofanna og mun veita þeim allan þann stuðning sem unnt er í þeirri baráttu sem framundan er.