Sorgleg staðreynd!
Lokaorð Margeirs Vilhjálmssonar
Í vikunni féll kvennalið Keflavíkur í knattspyrnu úr Pepsi Max-deildinni niður í Inkasso. Sama staða blasir við Grindavík karla megin. Kvennalið Grindavíkur er að falla úr Inkasso í aðra deild alveg eins og Njarðvík í karlaboltanum. Í 2. deildinni eru fyrir Víðir og Þróttur Vogum. Keflavík siglir lygnan sjó í Inkasso eins og Reynir Sandgerði gerir í 3. deild. Þetta er sorgleg staða. Ekkert Suðurnesjalið mun berjast í efstu deild i knattspyrnu á næsta ári.
Það má hugga sig við að í körfunni eigum Suðurnesjamenn þrjú karlalið og tvö kvennalið í efstu deild. Síðasti Íslandsmeistaratitill hjá körlunum var í Grindavík 2013 en karlabikarinn sást síðast í Reykjanesbæ fyrir hrun. Kvennalið Keflavíkur hefur haldið uppi heiðri Suðurnesjamanna en þær lönduðu titlinum síðast 2017 og hafa hampað Íslandsbikarnum alls sextán sinnum frá árinu 1988.
Það verður ekki annað sagt en íþróttalíf á Suðurnesjum sé blómlegt. Mikil og góð þátttaka í yngri flokka starfi í fjölda deilda. Íþróttastarf er gott forvarnarstarf og mikil heilsuefling. Knattspyrnan virðist hvert sem litið er hafa algera yfirburðastöðu gagnvart öðrum íþróttagreinum. Helst virðist þar vera að þakka gríðarlega öflugri markaðssetningu á enskum fótbolta sem fylgt hefur íslensku þjóðinni í gegnum tíðina. Vandinn er hinsvegar sá að nú er svo komið að Íslendingum finnst mun mikilvægara að þeirra liði í Englandi gangi vel heldur en að heimaliðið sé að gera einhverjar rósir. Það er meiri áhugi á enskum fótbolta á Íslandi en í Englandi.
Stóra spurningin er hinsvegar hvernig stendur á því að Suðurnesjaliðin eru ekki betri en raun ber vitni? Er það aðstöðuleysi? Metnaðarleysi? Peningaleysi? Hugarfarsvandamál? Á tyllidögum er því flaggað að Reykjanesbær sé íþróttabær. Íþróttabær án titla. Það er súrt.