Söngvaka Sigurðar Þórarinssonar
- í Skátaheimilinu í Keflavík á föstudagskvöld
Sigurður Þórarinsson er okkur Íslendingum að góðu kunnur vegna ómetanlegs framlags hans til jarðfræði landsins og náttúruverndar, en ekki síður vegna allra skemmtilegu söngtextanna sem hann samdi. Hver kannast ekki við Þórsmerkurljóð, Vorkvöld í Reykjavík eða Að lífið sé skjálfandi lítið gras.
Á föstudagskvöldið kemur, 15. nóv., verða mörg þekktustu lögin við texta Sigurðar rifjuð upp á skemmtilegan hátt.
Þar kemur fram 9 manna hópur söngvara og hljóðfæraleikara sem þátt tók í upptökum vegna útgáfu albúmsins Kúnstir náttúrunnar sem út kom í byrjun þessa árs. Þar er að finna 32 sönglög á CD, bæði nýjar og eldri upptökur, og 3 sjónvarpsþætti á DVD þar sem einn fjallar um ævistarf Sigurðar og á hinum eru flutt sönglög við texta hans. Sjónvarpsþættirnir eru síðan á 8. og 9. áratugnum.
Þeir sömu og flytja nýjustu upptökurnar á CD-disknum koma nú til Keflavíkur og við fáum hluta af sönglögunum beint í æð. Tilefni útgáfunnar var að á árinu 2012 voru liðin 100 ár frá fæðingu Sigurðar Þórarinssonar jarðfræðings og vísnaskálds. Söngvarnir sem fluttir verða eru allir við texta eftir Sigurð.
Í hópnum eru m.a. hljóðfæraleikararnir Páll Einarsson, Björgvin Gíslason og Reynir Jónasson. Í hópi söngvaranna eru Árni Björnsson þjóðháttafræðingur og Halldór Ólafsson, sem lengi var aðstoðarmaður Sigurðar á ferðum hans um landið. Árni mun segja stuttlega frá útgáfu albúmsins, og ekki er ósennilegt að Halldór muni segja eitthvað frá kynnum sínum af Sigurði og kveðskap hans, en Halldór hefur lagt sig fram um að halda til haga frumsömdum vísum og þýðingum Sigurðar.
Auk þessara góðu gesta úr Reykjavík mun Söngfélagið Uppsigling syngja nokkur lög og taka undir í öðrum - og þá syngja vonandi allir með. Einnig er von á gestum frá Norrænu félögunum hér á Suðurnesjum, en Sigurður samdi og þýddi mikið af sænskum sönlögum eftir Bellmann o.fl.
Söngvakan verður í Skátaheimilinu, Hringbraut 101 í Keflavík föstudaginn 15. nóv. og hefst kl. 20. Kaffiveitingar í hléi.
F.h. söngfélagsins Uppsiglingar, Þorvaldur Örn