Sólblómaakrar Miðnesheiðar
Þeir eru mikil ólíkindatól forystumenn sjálfstæðismanna þegar kemur að umræðu um bæjarmálin, og virðast nú leita allra leiða til að ræða annað en það sem máli skiptir og snúa því á hvolf sem þeir raunverulega vita. Kveðja bæjarstjórans til Samfylkingarmanna í Reykjanesbæ í Mbl nú í morgun er gott dæmi um það. Helsta niðurstaða hans er að bæjarstjórnarmenn Samfylkingar séu að slá pólitískar keilur, hafi ekkert til málanna að leggja ,tali niður samfélag sitt og beiti ekki ítökum sínum innan stjórnsýslunnar. Því sé staðan nú sem hún er.
Þó Samfylkingarmenn sjái ekki þá sólblómaakra á Miðnesheiði sem meirihluti sjáfstæðismanna ætlar þeim að sjá, er ekki þar með sagt að þeir sitji aðgerðarlausir eða tali niður samfélag sitt. Þar get ég fullvissað forystumenn meirihlutans um að allir menn eru á dekki við að vinna þeim málum framgang sem stöðvast hafa sökum ýmist sökum kreppu eða ónógs undirbúnings. Þó hægt gangi, miðast þó áfram.
Skipaður hefur verið sérstakur verkefnastjóri hvað varðar málefni álvers í Helguvík, unnið er að málefnum Landhelgisgæslunnar og ekki er lengur nein fyrirstaða hvað varðar uppbyggingu Gagnavers og ástæða er til bjartsýni hvað varðar uppbyggingu kísilverksmiðju í Helguvík. Helsta vandamálið nú virðist vera að ekki hafa náðst samningar við HS Orku um orkuverð og afhendingu orku til álvers. Sú staða getur varla skrifast á reikning Samfylkingarmanna í Reykjanesbæ. Samfylkingunni hvort heldur á landsvísu og á bæjarmálaplani er jafnumhugað og bæjarstjóranum um vinna þeim atvinnuverkefnum framgang sem stöðvast hafa. Um það eigum við að sameinast frekar en að slá feilkeilur á síðum Morgunblaðsins.
Tilefni greinarinnar í mbl var umræða um fjárhagsáætlun Reykjanesbæjar, sem ekki sýnir sólblómaakra, heldur grafalvarlega stöðu bæjarsjóðs. Vandamálið þar er að bæjarsjóður og fyrirtæki hans eru nú svo skuldsett að óásættanlegt er . Sem verður til þess að skerða verður nánast alla þjónustu bæjarins næstu ár. Við stöndum á krossgötum og verðum nú að finna leiðir til að vinna okkur út úr þeim vandamálum er við blasa. Það gerum við best sameinuð.
Sumir myndu segja að nú væri freistandi að kafa ofan í þær tölur um niðurskurð og skerðingar sem boðuð var í fjárhagsáætlun þeirra sjálfstæðismanna. Hvernig þær munu á næstu árum hafa áhrif á nánast hverja einustu fjölskyldu í bænum. Það ætla ég ekki að gera, heldur ræða framtíðina með tilliti til fortíðarinnar nú þegar ljóst er að forystumenn meirihlutans eru að lenda sínum bleiku skýjum á ímynduðum sólblómaökrum Miðnesheiðar .
Fátt er mikilvægara þegar saman er staðið á krossgötum og ný leið er valin, en að gera sér góða grein fyrir aðstæðum. Horfast í augu við raunveruleikann og leita sér aðstoðar sé það unnt. Ná samstöðu um hvert skuli haldið, svo ekki falli allt í sama farið á ný. Til að möguleiki eigi að vera á að slikt heppnist þarf breytt vinnubrögð og sameiginlega vissu fyrir því hvað framundan er.
Samfylkingin í Reykjanesbæ hefur lagt fram tillögur um hvernig unnt mætti vera að skapa samstöðu um úrlausn þeirra vandamála sem fyrir liggja. Þar hefur verið lagt til að óháð nefnd fari yfir stöðu bæjarins og þau verk sem unnin hafa verið á undanförnum árum. Það hefur verið gert svo óumdeilanlegt sé að allir hafi sömu sýn á málið. Ekki í leit að sökudólgum, heldur fyrst og fremst í leit að lausnum . Með slíka úttekt í höndum gætum við lagt af það pólitíska þras sem nú viðgengst og sameiginlega unnið okkur út úr vandamálinu. Þeirri leið hafa forystumenn sjálfstæðismanna hafnað, einhverra hluta vegna.
Við stöndum á krossgötum. Við viðurkennum nú öll að ástandið er slæmt. Það er fyrsta skrefið. Nú verðum við að líta hæfilega bjartsýn til framtíðar, láta ekki tækifærin fram hjá okkur fara sökum ótta við hið liðna. Það verðum við að hreinsa út, svo bæjarbúar allir geti litið til þeirrar björtu framtíðar sem við öll viljum bænum okkar. Við gætum breytt umræðuhefð stjórnmálanna og orðið að fyrirmyndar samfélagi hvað þann hlut varðar.
Vilji og hugrekki er allt sem þarf.
Með nýárskveðju
Hannes Friðriksson