Snorrastaðatjarnir – náttúrufórn á slóð eyðileggingar
– Ellert Grétarsson skrifar
Snorrastaðatjarnir og Háibjalli sunnan við Voga er náttúruparadís sem margir Suðurnesjamenn þekkja vel. Þarna er skjólsæl vin í skóginum undir klettahamrinum þar sem Suðurnesjamenn hafa löngum sótt næringu fyrir sálina í faðmi fallegrar náttúru. Þarna átti maður margar góðar stundir á æskuárunum þegar við strákarnir fengum stundum að fara þangað á sumrin í helgarútilegu með tjald og viðlegubúnað. Skógurinn varð þá vettvangur leikja þar sem indjánar og kúrekar börðust um yfirráð og oft var gusugangurinn mikill þegar þeir hugdjörfustu stukku fram af klettinum út í tjörnina þar sem dýpið var nægt. Þarna var frelsið og gleðin ein ríkjandi. Margir eiga góðar minningar frá þessum yndisreit, svo sem mörg ungmennin sem þar dvöldu á vegum skátanna í skála sem þeir reistu en er í dag því miður gjörónýtur og þyrfti að fjarlæga. En það er önnur saga.
Samstaðan rofin
Landsnet undirbýr nú lagningu nýrrar háspennulínu, Suðurnesjalínu 2, eftir endilöngum Reykjanesskaganum. Upphaflega var samstaða um það meðal íbúa í Vogum, bæjaryfirvalda þar og landeigenda á Vatnsleysuströnd að línan færi í jörð. Forsvarsmenn Landsnets voru aldeilis ekki á sama máli og vildu ekki hlusta á nein sjónarmið í þá átt. Linntu þeir ekki látum fyrr en þeir höfðu rofið þessa samstöðu með svo lúalegum vinnubrögðum að þau vekja upp spurningar um siðferði þeirra sem stjórna þessu fyrirtæki. Iðnaðarráðherra tók síðan þátt í yfirganginum og ofstopanum með því að heimila eignarnám á löndum Vatnsleysubænda og lagði til grundvallar rök sem voru „kópí-peist“ úr gögnum Landsnets.
Náttúruperlum og útvistarsvæðum fórnað
Suðurnesjalína 2 verður í tvöfaldri og á kafla þrefaldri staurastæðu á 30 metra háum stálgrindarmöstrum. Ljóst er að hún mun hafa í för með sér rask og eyðileggingu á þeim svæðum sem hún fer yfir, sum þeirra eru jafnvel friðlýst náttúruvætti eins og Litluborgir ofan Hafnarfjarðar. Sama er að segja um Snorrastaðatjarnir og Háabjalla sem eru á náttúruminjaskrá. Þar vex fjölbreyttur gróður og tjarnirnar eru mikilvægur áningarstaður farfugla.
Í umhverfismatsskýrslu vegna Suðurnesjalínu 2 segir m.a:
„Suðurnesjalína 2 og Kolviðarhólslína 2 munu hafa talsverð neikvæð sjónræn áhrif fyrir útivistarfólk þar sem þær liggja næst Háabjalla og útivistarsvæðinu þar í nágrenninu.
Þá er talið að Suðurnesjalína 2 og Kolviðarhólslína 2 frá Hvassahrauni að Njarðvíkurheiði muni hafa fremur neikvæð áhrif á ferðaþjónustu og útivist á því svæði, einkum í nágrenni Háabjalla og Seltjarnar".
Takið eftir því að þarna er einnig talað um hið vinsæla útivistarsvæði við Seltjörn, ekki eingöngu Háabjalla. Slík svæði eru greinilega ekki merkileg í augum þess sveitarstjórnarfólks sem samþykkir að Reykjanesskaginn, inngangurinn í landið, beri til framtíðar ásýnd 19. aldar iðnvæðingar.
Rétt er að halda því til haga að mér vitanlega var enginn á móti línunni. Ágreiningurinn stóð um það hvort hún ætti að vera jarðstrengur eða loftlína.
Neikvæð áhrif á ferðaþjónustu
Þá er rétt að vekja sérstaka athygli á því að í matsskýrslunni er tekið fram að framkvæmdin muni hafa „fremur neikvæð áhrif á ferðaþjónustu“. Það hefur vonandi ekki farið fram hjá sveitarstjórnarfólki hér á Suðurnesjum að ferðaþjónustan er stærsta útflutningsgrein landsins sem hefur skapað langflest ný störf í atvinnulífi landsmanna á undanförnum árum. Vel yfir 80 prósent erlendra ferðamanna koma hingað í þeim tilgangi að upplifa ósnortna náttúru. Sú staðreynd ætti auðvitað að auka vægi náttúruverndar á Suðurnesjum en því fer víðsfjarri. Þá er spurningin sú hvað við ætlum að bjóða upp á hér á svæðinu í þeim efnum þegar inngangurinn í landið hefur verið „skreyttur“ með risavöxnum háspennulínum og allt virkjað sem hægt er að virkja með tilheyrandi stöðvarhúsum, tengivirkjum, gufulögnum, línuvegum og meðfylgjandi öðrum mannvirkjum þvers og kruss um allan Reykjanesskagann?
Á vefsíðunni Visit Norway má sjá að Osló leggur mikla áherslu á nálægð við náttúruna í sínu markaðs- og kynningarstarfi. Þar má sjá slagorð eins og „Oslo has a special combination of city life and easy access to the great outdoors“. Einnig má sjá setningar eins og „Oslo's location gives visitors an opportunity for a unique city break. Hike in the forest, swim in the fjord and go to a concert all in the same day“ og jafnframt „You are always close to nature in Oslo, so opportunities for outdoor recreation are never far away“.
Ég er hræddur um að fari fram sem horfir verði ekki hægt að nota slík slagorð hér um slóðir. Nema þar muni kveða við falskan tón.
Ellert Grétarson,
varaformaður NSVE.
Meðfylgjandi ljósmyndir eru eftir höfund.
Við Snorrastaðatjarnir. Horblaðkan lifir góðu lífi á tjörnunum. Þær eru mikilvægur áningarstaður farfugla.
Á kyrrlátu og fögru haustkvöldi við Snorrastaðatjarnir.
Við Snorrastaðatjanir og Háabjalla vex afar fjölbreyttir gróður. Það er ekki algengt að rekast á villt jarðarber í íslenskri náttúru. Til hægri er svo engjarós. Þetta svæði er sannkölluð náttúruparadís sem ætti að njóta sérstakrar verndar. En því fer fjarri, því miður.
Horft yfir hluta skógarins sem þarna hefur þrifist vel í skjóli við klettahamarinn. Ofan á hann kemur tröllvaxin háspennulína sem gnæfa mun yfir þessa vin í náttúrunni.