Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Aðsent

Þriðjudagur 19. mars 2002 kl. 13:05

„Smölun hjá Jóni og fylgisveinum“

Sitjandi oddviti Vatnsleysustrandarhrepps, Þóra Bragadóttir, tapaði í prófkjöri H-lista, óháðra borgra, fyrir Jóni Gunnarssyni fyrrverandi Oddvita. Jón átti sæti í hreppsnefnd í tólf ár og var oddviti í átta, frá 1990 til 1998. Jón fékk 186 atkvæði í fyrsta sætið í prófkjörinu eða rétt 61% atkvæða en Þóra fékk 106 atkvæði eða 35%. Félagsmönnum í Bæjarmálafélagi H-listans fjölgaði gífurlega mikið fyrir prófkjörið, fyrir voru félagarnir 84 en á prófkjörsdag voru þeir orðnir 322 svo félögunum fjölgaði næstum fjórfalt. Blaðamaður hafði samband við Þóru og spurði hvernig henni litist á úrslitin.„Ég varð fyrir miklum vonbrigðum með úrslitin, ég ætla ekkert að neita því, vegna þess að það er búinn að vera mikill uppgangur í sveitafélaginu á kjörtímabilinu. Ég lagði verk mín með góðri samvisku í dóm kjósenda. Það má nefna sem dæmi í því sambandi að eitt af mínum síðustu embættisverkum var að fá Sparisjóðinn í Keflavík til þess að opna hér útibú, en það hefur verið margra ára baráttumál að fá bankastofnun hingað.
Ljóst er að störf kvenna eru ekki alltaf metin að verðleikum. Ég hef ekki getað merkt það sem Jón segir í viðtali við Morgunblaðið, að ég hafi reytt fylgi af listanum á kjörtímabilinu. Ég veit ekki til þess að skoðanakönnun hafi verið gerð meðal félagsmanna. Auk þess get ég ekki séð að ég hafi tekið fylgi af H-listanum vegna þess að fyrir prófkjör voru 84 í Bæjarmálafélaginu en ég fékk 106 atkvæði. Það er svolítið annað uppi á borðinu þegar maður skoðar þá gífurlegu smölun sem Jón og fylgisveinar hans viðhöfðu. Þeir höfnuðu hins vegar tillögu minni um opið prófkjör og það fylgi sem kom með þeim inn í prófkjörið er að langstærstum hluta úr hópi andstæðinga H-listans þ.e. T-lista. Hér er verið að afskræma lýðræðið, því er það stór spurning hvort það fylgi haldi þegar til kosninga kemur. Að lokum vil ég koma á framfæri innilegu þakklæti til allra stuðningsmanna minna, þeir unnu mikið og gott starf. Ég bind miklar vonir við að Birgir Þórarinsson sem bar öruggan sigur í 2 sætið nái að sameina H-listann nú að loknu prófkjöri".

Aðspurð segist Þóra ekki vera á leiðinni í sérframboð og segist vilja hópnum alls hins besta, þó hún sé ósátt við framgöngu Jóns Gunnarssonar.„Öllum er frjálst að gefa kost á sér í prófkjöri en miðað við aðstæður og þann góða uppgang sem ég hef staðið fyrir í sveitarfélaginu kom ákvörðun Jóns um framboð verulega á óvart", sagði Þóra að lokum. Hún vill ekkert gefa upp um það hvort hún sé hætt afskiptum af stjórnmálum, hún segist hafa nóg að gera við rekstur eigin fyrirtækis og ekki vera bangin.
Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024