Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Aðsent

Skýrasta dæmið um árangur
Fimmtudagur 21. nóvember 2013 kl. 10:01

Skýrasta dæmið um árangur

Árið 2001 var tíð ölvun ungmenna á götum úti um helgar í Reykjanesbæ umfjöllunarefni fjölmiðla. Daglegar reykingar elstu nemenda í grunnskólum og ölvunardrykkja voru hátt yfir landsmeðaltali í könnunum. Þessu fylgdu fréttir um afar slakan námsárangur grunnskólanema.

Með samstilltu átaki hefur þessu verið umbylt á aðeins 12 árum. Daglegar reykingar og ölvunardrykkja sama aldurshóps eru nú með því lægsta sem gerist á landinu. Þær hafa farið úr 24% um síðustu aldamót niður í 1%, ölvunardrykkja hefur farið úr 40% í 5% - Mældar eru stöðugar framfarir allt frá aldamótum. Þá er ekki síður ánægjulegt að í stað þess að skrapa botninn í námsárangri hafa grunnskólar Reykjanesæjar stigið föstum skrefum fram og náð eftirtektarverðum árangri. Þessi  góði árangur er vegna þess að við settum skýra sýn á forvarnir og menntun, settum upp aðgerðarhópa og fylgdum verkefnum eftir með markvissum hætti.

Sýnidæmi um að skipulegar forvarnir geta skilað einstaklingum hamingjusamari, heilbrigðari og betur menntuðum til að takast á við lífið. Fjölmargir íbúar, skólar, lögregla, félög og samtök hafa komið með okkur í þá miklu vinnu sem hefur skilað svo skýrum árangri. Hér skulu nefnd fáein dæmi um foreldrastarf, ókeypis uppeldisnámskeið, Samtaka hópinn, holla hreyfingu um allan bæ, íþróttastarf og fyrirmyndardeildir, tónlist, Keflavíkurkirkju, ungmennaráð, nemendaráð FS, virkjun samfélagsmiðla, samninga við skemmtistaði ofl. ofl.

Allt samfélagið hefur verið virkjað
Forvarnir byrja snemma, hjá foreldrum. Foreldrastarfið í leikskólum og grunnskólum  er til fyrirmyndar. Lögð hefur verið mikil áhersla á að bjóða ókeypis uppeldisnámskeið. Skólavogin sýnir að foreldrar grunnskólabarna í Reykjanesbæ vinna mest heima með börnum sínum. „Samtaka“ nefnist þverfaglegur forvarnarðagerðahópur, sem stofnaður var 2006, þar sem saman starfa varðstjóri forvarna hjá lögreglunni, fulltrúi barnaverndarnefndar, verkefnisstjóri foreldrafélaga grunnskóla (FFGÍR), forvarnarfulltrúi Fjölbrautaskólans, fulltrúi fræðsluskrifstofu, forvarnarfulltrúi Reykjanesbæjar, fulltrúi frá heilbrigðisstofnun og námsráðgjafar grunnskólanna. Þessi mikilvægi hópur miðlar upplýsingum sín á milli og beinir ábendingum til annarra um leiðir sem þarf að fara.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Sundiðkun grunnskólanemenda hefur stóraukist eftir að gefið var frítt í sund árið 2006. Gerð var góð hreyfiaðstaða við grunnskóla, stórbætt íþróttaaðstaða fyrir fjölbreyttar íþróttir íþróttafélaganna, bætt aðstaða til göngu með göngustígum meðfram ströndinni og um allan bæ. Nú síðast með sérstökum hreyfigörðum þar sem útiæfingatæki eru í boði fyrir alla íbúa.

Ungmennaráð samanstendur af fjölda unglinga sem eru tilnefndir m.a. frá Fjölbrautaskólanum, skátum, björgunarsveitinni, íþróttabandalaginu og tónlistarskólanum. Ráðið hefur m.a. lagt áherslu á bættar almenningssamgöngur og sérstaka aðstöðu unglinga við 88 ungmennahúsið við Hafnargötu. Á þau hefur verið hlustað:  Ókeypis almenningssamgöngur hafa verið stórbættar og ný aðstaða við 88 húsið er að líta dagsins ljós, hreyfing, félagsstarf og heilbrigð skemmtun. Stjórn nemendafélags FS hefur þar nú aðstöðu.

Skemmtilegt dæmi um forvarnaraðgerð var athyglisvert framtak nemendaráðs FS þegar þau settu upp „edrúpott“.  Þar gátu allir nemendur sem héldu sér frá áfengi og fíkniefnum á dansleikjum FS átt  möguleika á að vinna Ipad. Auðvitað var Reykjanesbær tilbúinn að styrkja slíkt. Íþróttahreyfingin hér var með þeim fyrstu sem vann sér til viðurkenninga innan ÍSÍ að verða svonefnd „fyrirmyndarfélög“ og /eða „fyrirmyndardeild“. Gott forvarnarstarf á þar ríkan þátt.

Virkjun samfélagsmiðlanna hefur einnig sín áhrif. Ég bendi á góða Fésbókarsíðu: Íþróttir, tómstundir og forvarnir í Reykjanesbæ. Tónlistarnám reynist vera gríðarlega sterk forvörn gegn fíkniefnum ekki síður en góð hreyfing. Við getum verið stolt af því að eiga einn stærsta tónlistarskóla landsins, þar sem allir fyrstu tveir árgangar  grunnskóla stunda gjaldfrjáls tónlistarnám.Mikilvægur áfangi náðist einnig þegar við lögðum til að undirritað yrði samkomulag eigenda skemmtistaða, lögreglu og Reykjanesbæjar með það markmið að draga úr og helst útiloka að ungmenni undir lögaldri stundi vínveitingastaði.  

Höldum skýrri sýn
Fleiri aðila er vert að nefna, þó einungis sem lítið brot af því góða starfi sem svo margir vinna í forvörnum:  Mikilvægt samstarf lögreglu og Fjölskyldu- og félagsþjónustu,  Forvarnadagur ungra ökumanna og markviss eyðing svonefndra „svartbletta“ í umferðinni,  Fjölmenningarhópur,  Unglingadeild Björgunarsveitar Suðurnesja með öflugt starf, Útideildin, Keflavíkurkirkja með öflugt forvarnastarf, Leikfélagið með öflugt unglingastarf, Fjölsmiðjan, Fjölskylduhjálpin, Velferðarsjóður, MSS Landnámsdýragarður, Flott án fíknar í Akurskóla, foreldramorgnar í Virkjun, innileikjagarður  og þannig má áfram telja. Okkur á einnig að vera ljóst að það er ekki af tilviljun sem hefur tekist einstaklega vel um forvarnir á Ljósanótt, einni stærstu fjölskylduhátíð landsins, þar sem 20-30 þúsund manns skemmta sér yfir helgi. Þar eru unglingarnir okkar til fyrirmyndar.

Við getum öll verið stolt af þessum árangri. Við skulum þó alltaf vera minnug þess að einungis með því að vinna vel, hafa skýra sýn á hvað við viljum, hafa markmiðin á hreinu og kunna að framkvæma eftir markmiðunum, náum við áfram árangri.

Árni Sigfússon, bæjarstjóri.

Þessi grein birtist einnig í heild sinni í nýjasta tölublaði Víkurfrétta.