Karlakór Kef kertatónleikar
Karlakór Kef kertatónleikar

Aðsent

Skýr lög - óskýr ráðherra
Þriðjudagur 8. september 2009 kl. 13:59

Skýr lög - óskýr ráðherra


Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Í Fréttablaðinu í gær kemur fram að Katrín Júlíusdóttir, iðnaðarráðherra, hafi sent bæjarstjórn Reykjanesbæjar bréf þar sem hún greinir frá þeirri skoðun sinni að samningur bæjarins við HS orku um afnot af orkuauðlindum í eigu bæjarins gangi gegn anda laga um orkunýtingu sem sett voru á Alþingi í júní 2008. Hún lýsir enn fremur þeirri skoðun sinni að hún telji að leigutíminn, sem er 65 ár eins og heimilt er í umræddum lögum, sé of langur.

Það vill svo til að ráðherrann var formaður iðnaðarnefndar Alþingis þegar umrædd lagasetning átti sér stað og þekkir vel umræðuna sem átti sér stað. Ég átti þar einnig sæti og get á engan hátt tekið undir túlkun ráðherrans að þarna sé verið að ganga gegn anda laganna. Þvert á móti sýnist mér að Reykjanesbær sé nákvæmlega að fara eftir þeirri forskrift sem Alþingi setti með iðnaðarráðherra og formann iðnaðarnefndar Samfylkingarinnar í farabroddi.

Í greinagerð með frumvarpinu segir að engar sérstakar takmarkanir séu á því við hverja slíkir leigusamningar séu gerðir umfram það sem kann að leiða af alm. reglum. Í ákvæðinu er lagt til að hámarkslengd samninga um afnotarétt verði 65 ár. Nýting þeirra auðlinda sem frumvarpið nær til byggist á miklum fjárfestingum í mannvirkjum, sem hafa langan afskriftartíma. Fjárfestingin skilar sér því á löngum tíma. Hins vegar er nauðsynlegt að setja einhver efri mörk á lengd leigutímans og lagt til að sá tími verði allt að 65 ár í senn.

Með setningu laganna var verið að tryggja opinbert eignarhald á orkuauðlindum til allrar framtíðar. Um þetta voru skiptar skoðanir og var mikil vinna lögð í málið af hálfu iðnaðarnefndar til þess að leggja mat á ólíka þætti málsins. t.a.m. varðandi stjórnarskrárvarinn eignarrétt, rétt sveitarfélaga til sjálfsákvörðunar og hagfræðileg álitamál varðandi framsal nýtingarréttarins. Formaður nefndarinnar hafði öll tækifæri til að beita sér fyrir því að leigutíminn yrði styttur ef hún teldi 65 ár ganga of langt. Umrædd Katrín sagði í ræðu sinni við 2. umræðu að í vinnu nefndarinnar hefði komið fram að fjölmargir hafi viljað sjá þennan tíma lengdan. Niðurstaða nefndarinnar var hins vegar sú að meirihlutinn lagði til að þessum 65 árum verði ekki breytt. Skýrari verður andi laganna varla.

Meirihluti iðnaðarnefndar, undir forystu Katrínar, lagði hins vegar til aðra breytingu á frumvarpinu við 2. umræðu nefnilega þá að veita leigutakanum heimild til þess að eiga rétt á viðræðum um framlengingu á leigutímanum þegar helmingur afnotatímans er liðinn.
Ekkert var vikið að möguleika á uppsögn, ekkert var vikið að því að 65 ára samningstími eigi að vera undantekning - andi laganna algerlega skýr. Í Fréttablaðinu er haft eftir sömu Katrínu, nú ráðherra:
„[...]í lögunum sé vissulega rætt um að hámarkstími afnotaréttar sé 65 ár. Þar sé hins vegar gert ráð fyrir að þegar helmingur leigutímans sé liðinn fari fram viðræður á milli stjórnvalda og handhafa réttindanna. Niðurstaða þeirra viðræðna gæti verið framlenging samnings, en allt eins uppsögn. Þess vegna sé óeðlilegt að gefa sér þær forsendur í upphafi að leigutíminn verði 65 ár.“
Staðreyndin er sú að Reykjanesbær gerir samning eftir gildandi lögum og er nú vændur af ráðherranum um að fara gegn anda þeirra. Reyndar gekk Reykjanesbær lengra en lögin kveða á um með því að kaupa umrætt land af einkaaðila og leigja til HS orku - til þess að tryggja að auðlindin verði í opinberri eigu. Þessari fyrirætlan fagnaði Katrín í umræðunum á Alþingi.
Nú veit ég ekki hvað ráðherranum gengur til. Sama ráðherra og leggur mikla áherslu á að laða hingað til lands erlenda fjárfesta og boðar heildstæðar áætlanir í þeim efnum. Ef okkur á að takast það ætlunarverk okkar verðum við að tryggja að lög sem sett eru á Alþingi séu ekki vísvitandi rangtúlkuð með þessum hætti.

Ragnheiður Elín Árnadóttir

alþingismaður