Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Aðsent

  • Skýr framtíðarsýn skilar árangri
  • Skýr framtíðarsýn skilar árangri
Miðvikudagur 14. maí 2014 kl. 10:40

Skýr framtíðarsýn skilar árangri

Allt frá árinu 1994 hefur Sjálfstæðisflokkurinn lagt áherslu á að móta og setja fram skýra framtíðarsýn fyrir Reykjanesbæ til næstu 4 ára hið minnsta. Við mótun framtíðarsýnar er lagður grunnur að því hvernig samfélagi við viljum búa í. Lögð er áhersla á þá málaflokka sem talið er mikilvægt að sinna og þau verkefni sem munu hafa jákvæð áhrif á uppbyggingu samfélagsins. Hvernig við viljum sjá samfélagið þróast og breytast á næstu fjórum árum.

Þessa framtíðarsýn hafa svo sjálfstæðismenn í Reykjanesbæ lagt fram sem tillögur að framtíðarsýn Reykjanesbæjar undanfarin ár í öllum málaflokkum sem unnið er markvisst eftir. Í því sambandi má nefna að bæjarstjóri heldur vikulega fundi með framkvæmdastjórum bæjarins þar sem fylgt er markvisst eftir framtíðarsýn bæjarins.

Framtíðarsýn sjálfstæðismanna til ársins 2018 hefur orðið til með samtölum við fjölda íbúa á síðustu mánuðum og á íbúaþingi sem haldið var með bæjarbúum í upphafi aprílmánaðar. Ennfremur með ábendingum bæjarbúa sem fram komu á íbúafundum með bæjarstjóra sem haldnir voru nýlega. Megintilgangur fundanna er að fara yfir stöðuna og taka við ábendingum um það sem betur má fara.

Með skýrri framtíðarsýn, markvissum vinnubrögðum og stöðugri eftirfylgni hefur náðst góður árangur á mörgum sviðum í gegnum tíðina. Þar má t.d. nefna frábæran árangur í skólamálum sem var áherslumál okkar í framtíðarsýn 2010, nýja þjónustumiðju og hjúkrunarheimili fyrir aldraða á Nesvöllum sem sett var fram í framtíðarsýn 2006, í tónlistastarfi og með nýrri Hljómahöll sem var áherslumál sjálfstæðismanna í framtíðarsýn 2010, í ferðaþjónustu og umhverfisbótum og nú góðum atvinnutækifærum sem alltaf hefur verið í forgrunni í okkar framtíðarsýn. Má þar sérstaklega nefna Ásbrú – stærsta frumkvöðlasetur landsins, Stolt seafarm á Reykjanesi, nýtt gagnaver og fleira. Þessi árangur hefur náðst með markvissum vinnubrögðum og skýrri framtíðarsýn.

Við sjálfstæðismenn hvetjum bæjarbúa til að kynna sér vel stefnuskrá okkar og framtíðarsýn til ársins 2018 sem dreift var í öll hús í Reykjanesbæ í gær.

Hildur Gunnarsdóttir
lögfræðingur og frambjóðandi D-lista sjálfstæðismanna

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024