Skýr afstaða félagsmanna VSFK
Trúnaðarráð, samningarnefnd og stjórn VSFK greiddi atkvæði um uppsögn kjarasamninga á samningafundi, sem fram fór þann 27. febrúar sl.
Niðurstaða þeirrar kosningar var skýr. Félagsmenn töldu forsendur kjarasamninga brostnar og ekkert annað í stöðunni en að segja upp samningum. Það er á kristaltæru að verkalýðnum á Suðurnesjum er nóg boðið með sífelldar himinháar launahækkanir í fjármálageiranum, hjá alþingismönnum og núna síðast í Landsvirkjun svo eitthvað sé nefnd.
Guðbjörg Kristmundsdóttir, varaformaður félagsins, fór á formannafund ASÍ í morgun með atkvæði félagsins sem samþykkti uppsögn á kjarasamningi. Niðurstaðan varð hins vegar ekki sú sem við óskuðum. Kjarasamningurinn verður því gildur út samningstímabilið eða til 31. desember 2018 og ljóst að ekkert verður gefið eftir í þeirri samningsgerð. Þetta eru vissulega mikil vonbrigði en 21 greiddu með uppsögn, 28 á móti.
Það er því ljóst að mikil vinna er framundan og krafa félagsmanna er skýr. Það er ekki hægt að setja þá kröfu á eina stétt að hún haldi stöðugleika meðan aðrar virðast ekki bera nokkra ábyrgð á honum. Þegar launahækkarnir sem jafngilda mánaðarlaunum verkamanns eru raunveruleiki hjá ákveðnum stéttum hlýtur það að setja tóninn í komandi samningum.
Guðbjörg Kristmundsdóttir, varaformaður VSFK.