Skyndihjálparapp Rauða krossins sjálfsagður búnaður
Skyndihjálparapp Rauða krossins hefur fengið frábærar viðtökur um allt land síðan það fór í loftið fyrir rúmlega tveimur árum. Hafa nú ríflega 31.000 manns sótt forritið sem þegar hefur sannað gildi sitt því dæmi eru um að appið hafi hjálpað fólki að bregðast rétt við neyð.
Appið er ókeypis og ólíkt flestum smáforritum er því ætlað að gera notendur hæfari til að bjarga mannslífum. Þetta er gert með einföldum leiðbeiningum um hvernig fólk eigi að bregðast við og beita skyndihjálp ef fólk veikist eða slys ber að höndum. Í appinu geta notendur skoðað myndbönd, prófað þekkingu sína, og ef um neyðarástand er að ræða náð beinu sambandi við Neyðarlínuna. Upplagt er að nýta annars dauðan tíma meðan beðið er í röð í búðum, setið í strætó, eða nota kaffitímann og frímínútur til að kíkja á appið og rifja upp skyndihjálpina.
Rauði krossinn hvetur alla landsmenn sem eiga snjallsíma og spjaldtölvu til að nýta sér þessa tækni til að auka þekkingu sína og færni í skyndihjálp. Hægt er að nálgast appið á vefsíðu Rauða krossins skyndihjalp.is.
Þó tæknin sé góð kemur skyndihjálparappið þó ekki í alfarið í stað námskeiða. Deildir Rauða krossins víða um land bjóða uppá fjölbreytt námskeið í skyndihjálp og er fólki bent á að hafa samband við Rauða kross deildina í sinni heimabyggð eða kynna sér hvaða námskeið eru í boði á heimasíðu félagsins.