Skýjaborgir og raunveruleiki!
Skúli Thoroddsen talar um skýjaborgir í grein sinni hér á vef Víkurfrétta og á vefsíðu sinni en kýs að líta framhjá raunveruleikanum. Í grein sinni vegur Skúli að Árna Sigfússyni bæjarstjóra en kýs að líta framhjá því að Árni hefur veitt okkur öfluga forystu og bæði haft dug og þor til að berjast fyrir aukinni atvinnu og vel launuðum störfum fyrir íbúa Reykjanesbæjar.
Skýjaborgir eru Skúla ofarlega í huga. Eftir lestur greinarinnar spyr ég mig að því hvort álverið, sem Skúli sagðist einhvern tíma vera að berjast fyrir, kísilver, gagnaver og einkasjúkrahús eru allt skýjaborgir?
Álverið í Helguvík er afar mikilvægt verkefni fyrir efnahagslíf Íslands. Hefur Skúli alveg misst af því að álverið í Helguvík hefur verið eitt af þeim málum sem aðilar vinnumarkaðarins og atvinnulífsins hafa lagt megináherslu á. Er Skúli búinn að gleyma því að álverið í Helguvík er hluti af stöðugleikasáttmálanum og engar hindranir áttu að vera fyrir verkefninu eftir 1. nóvember 2009.
Í grein er birtist á visi.is þann 3. september 2009 er vísað í pistil Skúla á vef starfsgreinasambandsins. Í pistlinum kemur fram að stöðugleikasáttmálinn eigi ekki að vera upp á „grín“ og er seinagangur ríkisstjórnarinnar gagnrýndur. Kannski eru þessi mikilvægu verkefni skýjaborgir og efni í pistla á heimasíður í huga Skúla en ekki alvöru verkefni sem ber að vinna að af fullum þunga!
Í umfjöllun um fjárhagsstöðu Reykjanesbæjar er tíska að tala annaðhvort ekkert um eignir bæjarins eða gera lítið úr þeim. Umfjöllun Skúla er engin undantekning og talar hann um „bókfærðar litlar eignir í félögum úti í bæ“. En hver eru þessi félög og hverjar eru eignirnar. Eigninar sem um ræðir eru HS Veitur hf, (gamla Hitaveitan okkar) félag sem er með 51% eiginfjárstöðu og er fjárhagsstaða fyrirtækisins því afar sterk, skuldabréf frá Magma, stórskipahöfn í Helguvík auk lands og auðlinda til orkusölu fyrir næstu kynslóðir.
Skúli talar einnig um „fjárfestingu í götusteinum og grjóti meðfram ströndinni. Íþrótta- og tónlistarhallir og akademíur teknar á langtímaleigu, eytt og spreðað og glansmyndin fægð.“ Þetta er skrýtin lýsing á bænum okkar og uppbyggingu er lýtur að: umhverfisbótum, skólabyggingum og fjárfestingu í atvinnutækifærum. Uppbyggingu sem hefur miðað að því að gera sveitarfélagið okkar betra og auka lífsgæði bæjarbúa. Íþróttahús, Hljómahöllin og efling menntunar eru allt verkefni sem efla og styðja bæjarfélagið okkar og íbúa þess. Við hljótum öll að vera sammála um mikilvægi íþrótta og menningar t.d. tónlistar þegar kemur að forvörnum og því að byggja upp sterka einstaklinga.
Eins og margir íbúar Reykjanesbæjar nýt ég þess að skokka og fara í góðar göngur um bæinn okkar. Strandleiðin er mín uppáhaldsleið og ég tel þessa framkvæmd við strandleiðina vera svo miklu, miklu meira en „götusteina og grjót.“ Ég er sannfærð um að þeir fjölmörgu sem nýta sér þessa skemmtilegu gönguleið eru mér sammála. Þá er gott að minnast á að grjótið sem myndar grjótgarðinn er prýðir strandlengjuna er tekið úr Helguvík og nýtt áfram í umhverfi okkar.
Uppbygging í ferðaþjónustu sem er ein af undirstöðu atvinnugreinum þjóðarinnar er mikilvægt verkefni sem Reykjanesbær hefur lagt áherslu á með uppbyggingu er snýr bæði að heilsu- og menningartengdri ferðaþjónustu. Víkingaheimar og Hljómahöllin eru verkefni innan menningartengdrar ferðaþjónustu sem styrkja samkeppnisstöðu Reykjanesbæjar á þessum markaði. Heilsutengd ferðaþjónustu er einn áhugaverðasti vaxtarsproti ferðaþjónustunnar þegar horft er til nánustu framtíðar og uppbygging einkasjúkrahúss annað lykilverkefni sem vert er að minnast á og mun skapa mikil sóknarfæri fyrir Reykjanesbæ.
Í greininni talar Skúli m.a. um stálpípuverksmiðju og saltverksmiðju sem draumsýnir bæjarstjórans. Þessi verkefni voru komin til áður en Árni hóf störf sem bæjarstjóri.
Í ljósi þess að þau atvinnuverkefni sem unnið hefur verið að og miða að því að auka tekjur íbúa og þá einnig útsvarstekjur Reykjanesbæjar hafa mætt ótrúlegum hindrunum og töfum verður sveitarfélagið að grípa til hagræðingaraðgerða. Annað væri ábyrgðarleysi. Fullyrðingar Skúla um 20% launalækkun starfsmanna Reykjanesbæjar eru ekki réttar. Hið rétta er að sveitarfélagið ræðst nú í hagræðingaraðgerðir á öllum sviðum. Hluti hagræðingar er minna starfshlutfall hjá starfsfólki bæjarins og er það mismunandi hvernig starfshlutfallið minnkar á meðal starfsfólks. Það er alltaf sárskaukafullt að minnka starfshlutfall starfsmanna. Með þessu móti tekst okkur þó að standa vörð um störfin en ráðst ekki uppsagnir eins og hinn almenni vinnumarkaður hefur reyndar verið tilneyddur til að fara í í kjölfar hrunsins. Skúli gagnrýnir launakjör bæjarstjórans og því er rétt að hér komi fram að Árni hefur sömu launakjör og forveri hans í starfi fyrir 9 árum síðan. Laun núverandi bæjarstjóra eru í raun lakari vegna 10% skerðingar á sl. ári og munu þau nú lækka enn frekar og nemur heildarskerðingin því 20 prósentum.
Rétt er að hafa í huga að við brotthvarf varnarliðsins misstu 1100 manns vinnu sína – það er 100% launalækkun og kjaraskerðing. Kannski telur Skúli Árna einnig vera ábyrgan fyrir brotthvarfi varnarliðsins?
Skúli nefnir að Sjálfstæðisflokkurinn hafi verið í ríkisstjórn þegar hrunið varð. Það er rétt. Samfylkingin var einnig við völd á tímum hrunsins. Samfylkingin er reyndar enn við völd. Því miður hefur ríkisstjórn Samfylkingar og Vinstri grænnna ekki unnið með okkur að því að koma þessum verkefnum af stað heldur beinlínis staðið í vegi fyrir þeim. Skúli gaf kost á sér í 1.-2. sæti í prófkjöri Samfylkingarinnar árið 2009. Ég velti fyrir mér hver baráttumál hans hefðu verið hefði hann náð þeim árangri er hann stefndi að. Samkvæmt grein Skúla hefði stuðningur við álver, kísilver, gagnaver og fleiri góð verkefni sennilega ekki verið á meðal baráttumála hans.
Sterkur leiðtogi
Eftir brotthvarf hersins hófst markviss vinna við að skapa ný og vellaunuð störf. Bæjarstjórinn okkar tókst á við þetta verkefni af dugnaði, þrautseigju og framsýni. Okkar mikilvægasta verkefni er að vinna að framgangi atvinnuverkefna. Því verkefni mun meirihluti sjálfstæðismanna í Reykjanesbæ halda áfram undir öflugri forystu Árna Sigfússonar. Á þeim tímum er nú ríkja er þörf fyrir sterka leiðtoga og forystu. Leiðtoga sem hlaupa ekki frá okkur við erfiðar aðstæður. Við íbúar Reykjanesbæjar eigum sterkan og góðan leiðtoga sem hefur það eina markmið að gera gott samfélag enn betra og halda áfram að vinna að því að hér verði til örugg og vel launuð störf fyrir íbúa Reykjanesbæjar!
Magnea Guðmundsdóttir
Greinarhöfundur er bæjarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins í Reykjanesbæ.