Skuldir Reykjanesbæjar - frjálsleg túlkun bæjarstjórans
Það er hreint með ólíkindum hvernig bæjarstjóri Reykjanesbæjar, Árni Sigfússon, túlkar fjárhagsstöðu bæjarsjóðs í innsendri grein á VF.IS á miðvikudag.
Þar segir hann „Í okkar tilviki getum við losað nánast allar skuldir bæjarsjóðs við banka og fjármálastofnanir á þessu ári, um 5-6 milljarða kr.“
Enn á ný tekur bæjarstjórinn sér skáldaleyfi og túlkar fjárhagsstöðu bæjarsjóðs með sínum hætti.
Hið rétta er að bæjarsjóður skuldar, einn og sér, um síðustu áramót tæpa 33 milljarða króna. Að borga 5-6 milljarða og losna við allar skuldir eru reikningskúnstir sem enginn skilur nema kannski bæjarstjórinn. ( Og auðvitað er þetta allt núverandi ríkistjórn að kenna).
Rétt skal vera rétt. Á síðasta ári tókst að koma í veg fyrir taprekstur bæjarsjóðs með því að selja eignir fyrir um 1.milljarð króna. Rekstur Reykjanesbæjar stendur ekki undir skuldum sem stendur en vonandi tekst að losa um eignir til að minnka skuldabyrði bæjarsjóðs.
Þetta kemur allt fram í ársreikningi bæjarsjóðs 2011 ef lesið er með réttum gleraugum.
Friðjón Einarsson, bæjarfulltrúi Samfylkingarinnar.