Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Aðsent

Skrifstofustjóri þingflokks framsóknar segir útfærslu eigin þingmanns á Helguvíkurál-frestun óheppilega
Föstudagur 5. október 2007 kl. 23:00

Skrifstofustjóri þingflokks framsóknar segir útfærslu eigin þingmanns á Helguvíkurál-frestun óheppilega

Helga Sigrún Harðardóttir, skrifstofustjóri þingflokks Framsóknarflokksins og varaþingmaður í Suðurkjördæmi skrifar grein á bloggsvæði sitt þar sem hún fjallar um ummæli þingmanns flokksins um að fresta ætti álveri í Helguvík um ótilgreindan tíma. Hún segir útfærslu þingmannsins óheppilega. Bloggfærslan er eftirfarandi:

Suðurnesjamenn hafa eflaust undrast ummæli þingmanns Framsóknar í Norðausturkjördæmi, á miðvikudaginn var, þegar hann sagði að þingflokkur framsóknarmanna væri áfram um að forgangsraða framkvæmdum við stóriðjuver þannig að eðlilegast væri að horfa til þeirra svæða þar sem þenslu í efnahagslífinu gætir ekki eins og við Bakka á Húsavík. Þingmaðurinn hefur ýmislegt til síns máls þegar kemur að því að skoða efnahagslíf landsins sem eina heild og það er öllum ljóst að nú þarf að forgangsraða framkvæmdum til að auka ekki enn á vandann sem mikil þensla hefur skapað. Er Suðvesturhornið oftast nefnt þar og í sömu andrá talað um allt Faxaflóasvæðið. Framsóknarmenn hafa jú einmitt gjarnan talað fyrir því að varlega beri að stíga til jarðar þegar hjól efnahagslífsins snúast hratt og nú sé mikilvægt að rasa ekki um ráð fram. Um það snúast ummæli þingmannsins og um það eru þingmenn Framsóknarflokksins sammála. Brýnasta verkefnið í efnahagsstjórninni hér á landi er að ná jafnvægi í þjóðarbúskapnum og að því þarf að róa öllum árum. Þetta er hagsmunamál allra. Verðbólga er vond. Hún fer illa með efnahag heimila sem skulda mikið í verðtryggðum lánum og veldur usla í atvinnurekstri.

Á hinn bóginn var útfærsla þingmannsins óheppileg,  þar sem hann gerir því skóna að álveri í Helguvík megi af þessum orsökum fresta um ótilgreindan tíma. Auðvitað er uppbygging sem þessi að mestu í höndum fyrirtækjanna sjálfra og sveitarfélaga eins og raunin er í Helguvík. Og það má jafnframt velta því fyrir sér hvort Suðurnesin eru svo mikið þenslusvæði að hægt sé að flokka þau með höfuðborgarsvæðinu. T.d. er gert ráð fyrir miklum og fjárfrekum framkvæmdum á höfuðborgarsvæðinu á komandi árum og hefði kannski verið nær að höggva í þann knérunn án þess að ég geri tillögu að slíku höggi.

Á Suðurnesjum mælist nú hæsta atvinnuleysi á landinu. Það er ekki mikið, en samt meira en annars staðar. Það segir sína sögu. Þar misstu hundruð manna vinnuna á einu bretti þegar Varnarliðið hvarf af landi brott á síðasta ári. Sem betur fer hafa flestir fundið sér annan starfsvettvang en ljóst er að laun margra lækkuðu í kjölfarið. Tölur um atvinnuleysi endurspegla því ekki það alvarlega ástand í kjölfar tekjutaps sem skapaðist hjá mörgum fjölskyldum við brotthvarf Varnarliðsins. Þá eru enn ókomin fram áhrif af niðurskurði aflaheimilda. Ljóst er að margir Suðurnesjamenn horfa vonaraugum til álvers þar sem bent hefur verið á að menntunarstig aukist á svæðinu með tilkomu þess og 1200 ný störf skapist. Framsóknarmenn vilja styðja við atvinnuuppbyggingu á svæðinu, það þarf engum að dyljast og þar hefur engin stefnubreyting orðið á, hvað svo sem mönnum almennt kann að þykja um álver..
Sjálf er ég fædd og uppalin á Suðurnesjum og á þar fjölskyldu og vini. Sitt sýnist hverjum um uppbyggingu atvinnustarfsemi af þessu tagi og er það sjálfsagður réttur manna. Stjórnvöld hafa sett skýran ramma utan um slíka uppbyggingu og þurfa fyrirtæki eins og Norðurál að uppfylla fjölmörg skilyrði og strangar leyfisveitingar til þess að geta farið í slíkar framkvæmdir. Nú get ég bara talað fyrir sjálfa mig þegar ég segi að orð þingmannsins séu ekki í takt við þá framtíðarsýn sem ég hef af svæðinu. Ég hef ekki stórar áhyggjur af ofþenslu í því samhengi þar sem framkvæmdatíminn er langur. Varanleg fjölgun starfa er hins vegar á annað þúsund og verðmætasköpun í tengslum við það óumdeild. Þannig er tekjuaukning sveitarfélaga og hafnasjóðs auk skatttekna ríkissjóðs mæld á annan milljarð króna og hlýtur að muna um minna.

Við Suðurnesjamenn þurfum þó að gera okkur grein fyrir því að enn eru mál varðandi orkuöflun og -flutning óleyst og munu komandi mánuðir skera úr um hvort af þessari uppbyggingu verður. Það er þó í eðlilegum farvegi, eins og lög og reglur segja til um. Einstakir þingmenn geta hins vegar haft skoðun á því hvernig þeir telja málum best farið og er það viðtekin venja í stjórnmálum  að menn horfi sérstaklega til heimahéraðanna. Stjórnmálin snúast jú um það og sagan full af dæmum um slíkt.  En oftast hafa þeir látið öðrum eftir að meta ástandið heima í héraði.
Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024