Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Aðsent

  • Skólastefnan í Garðinum – samvinna er lykillinn að árangri
  • Skólastefnan í Garðinum – samvinna er lykillinn að árangri
Sunnudagur 18. maí 2014 kl. 10:54

Skólastefnan í Garðinum – samvinna er lykillinn að árangri

Unnið hefur verið að nýrri skólastefnu í Garði sem nær til leik -, grunn-, tónlistarskóla og íþrótta- og æskulýðsstarfs. Byggir hún á hugmyndum allra sem koma að skólastarfinu, nemenda, kennara, foreldra, stjórnenda, starfsfólks skólanna, bæjarfulltrúa og íbúa. Sjálf tók ég þátt í þeirri vinnu sem foreldri og sat í stýrihóp  sem mótaði stefnuna enn frekar.

Til að skólastefnan nái fram að ganga þarf allt skólasamfélagið að líta á hana sem sameiginlegt verkefni. Skólarnir í Garði gegna einu mikilvægasta hlutverki fyrir íbúa byggðarlagsins. Þeir eru einu stofnanir samfélagsins sem tryggja öllum börnum óháð stétt og stöðu tækifæri til búa sig undir virka þátttöku í samfélaginu.

Þegar unnið var í skólastefnunni var margt í hugmyndum nemenda, foreldra og kennara sameiginlegt. Fjölbreytni í kennsluháttum, námsgreinum, íþrótta – og tómstundastarfi var mikið nefnd. Einnig margt um bættan aðbúnað og mikil áhersla á list, sköpun og verkgreinar.  Þá nefndu margir góð samskipti, gleði, virðingu og hrós væri mikilvægt í skólunum.  Þessar hugmyndir gengu þvert á alla skólana, íþrótta – og æskulýðsstarfið í Garðinum.

Hugmyndirnar og tillögurnar samræmast  mjög vel við nýja aðalnámskrá sem er jákvætt, því aðalnámskrá á að endurspegla þarfir samfélagsins í dag og þróun þess til framtíðar.
Tímasett aðgerðaráætlun fylgir stefnunni sem er lykilatriði svo hún nái fram að ganga. Í henni fá skólarnir tækifæri til að útfæra markmið stefnunnar nánar, sem er rökrétt því  þar starfar fagfólk alla daga.

Miklar samfélagsbreytingar gera auknar kröfur til skólanna og þeir þurfa stuðning og jákvætt aðhald frá foreldrum og bæjarfélaginu.  Allir þurfa að vera meðvitaðir um hlutverk sitt og ábyrgð. Þannig gerum við góða skóla betri. Ég vil hvetja alla sem koma að skólasamfélaginu að kynna sér skólastefnuna vel þegar hún verður gefin út.

Mér er umhugað um skólasamfélagið í Garðinum. Ég á börn í leik- og grunnskóla sem nýta sér íþrótta- og æskulýðsstarfið. Ég er menntaður kennari,  náms- og starfsráðgjafi og tel þekkingu mína á þessu sviði nýtast sveitarfélaginu í þeim störfum sem það sinnir í skólasamfélaginu. Ég mun leggja mitt af mörkum við innleiðingu skólastefnunnar í samvinnu við hlutaðeigandi fái ég umboð til þess frá kjósendum.

Með góðri kveðju til allra Garðbúa

Jónína Magnúsdóttir
Skipar 2. sæti á lista Sjálfstæðismanna og óháðra í Garði.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024