Skólafólk í Sandgerði á leið til Danmerkur
Nú er loksins komið að því ! Þann 24. maí nk. leggjum við í 9. bekk Grunnskóla Sandgerðis land undir fót og skellum okkur í skólaheimsókn til Danmerkur sem mun standa til 2. júní. Hópurinn samanstendur af 19 nemendum og 4 fararstjórum.Hópurinn mun heimsækja tvo samstarfsskóla í Odense og einn samstarfsskóla í Humlebæk. Við höfum staðið að undirbúningi ferðar frá haustdögum, bæði safnað og sótt um styrki. Í apríl sl. komu til okkar danskir nemendur frá Odense, Tarup Skole, en við höfum skrifast á í vetur og er það hluti af náminu. Við heimsókn dönsku nemendanna lögðu margir hönd á plóginn og fengu nemendur styrk frá aðilum utan skólans til þess að gera heimsóknina sem ánægjulegasta má í þessu sambandi t.d. nefna Sigurjónsbakarí og Sparkaup í Sandgerði. Allir nemendur 9. bekkjar og dönsku jafnaldrar þeirra komu saman í skólanum og unnu að ýmsum verkefnum s.s. avintýragerð í anda H. C. Andersen sem þau settu svo upp og léku saman. Nemendur stóðu sig hreint frábærlega og var til þess tekið hversu ófeimin þau voru að reyna að nýta sér dönskuna til samskipta, þau voru alveg frábær. Á hausti komanda munu svo nemendur frá öðrum samstarfsskólanna í Odense, Korup Skole, koma í heimsókn til okkar. Samkvæmt Aðalnámskrá Grunnskóla eiga nemendur að læra dönsku sér til gagns og ánægju í 7. – 10. bekk. Dönskunámið í grunnskólanum hefur því hlutverki að gegna skv. 42. grein grunnskólalaga að veita okkur aðgang að norrænu málsamfélagi og innsýn í norræna menningu. Viðfangsefnin þurfa að vera þess eðlis að þau opni nemendum sýn á menningu, siði og lifnaðarhætti í Danmörku. Í því skyni að nemendur kynnist menningu, siðum og þjóðfélagsháttum í Danmörku ber að stuðla að persónulegum samskiptum nemenda og Dana, t.d. með bréfa- og tölvusamskiptum, nemendaheimsóknum og kennaraskiptum. Á öllum stigum námsins ber að stuðla að því að nemendur fái sem oftast tækifæri til að upplifa dönskuna eins og hún er notuð í daglegu lífi af þeim sem hafa hana að móðurmáli. Það námsefni sem við vinnum með heitir “Go´ dag Danmark” og fjallar um nemendaheimsóknir til Íslands og til Danmerkur þannig að orðaforðinn og söguskoðun þjálfast og hjálpar nemendum þegar þeir fara í ferðina að vori. Danska hefur átt undir högg að sækja í samanburði við enskuna og hefur skólinn því reynt að leita allra leiða til þess að glæða áhuga nemenda á málinu og sýna þeim fram á mikilvægi þess að læra norræn mál. Þetta er fjórða árið í röð sem slík námsferð er farin og má segja að hefð hafi skapast á slík nemendaskipti sem skólinn vill reyna að viðhalda af fremsta megni. En að fara í slíkar ferðir er mjög kostnaðarsamt og því hafa nemendur haft allar klær úti til þess að safna og sækjast eftir styrkjum. Opinberir aðilar hafa fyrst og fremst sýnt slíku verkefni skilning og stutt við bakið á ferðalöngum en þó fengu nemendur góðan stuðning frá Keflavíkurverktökum og ber að þakka þeim sérstaklega. Sandgerðisbær hefur öll árin styrkt nemendur t.d. varðandi tryggingar og sýnt þannig í verki að þeir vilji styðja við slíkar námsferðir sem eðlilegan hluta af dönskunáminu. Norræna ráðherranefndin veitti nemendum og fararstjórum mjög mikinn stuðning í ár en það er markmið nefndarinnar að stuðla að slíkum nemendaskiptum til eflingar tungumálanámsins.
Við viljum gjarnan koma á framfæri þakklæti okkar til Norrænu ráðherranefndarinnar – Nord Plus mini en þeir veittu okkur veglegan styrk til ferðarinnar, að auki viljum við þakka Sandgerðisbæ og Keflavíkurverktökum fyrir stuðning þeirra.
Fyrir hönd nemenda 9. bekkjar og fararstjórnar.
Ragnhildur L. Guðmundsdóttir, kennari og fararstjóri.
Við viljum gjarnan koma á framfæri þakklæti okkar til Norrænu ráðherranefndarinnar – Nord Plus mini en þeir veittu okkur veglegan styrk til ferðarinnar, að auki viljum við þakka Sandgerðisbæ og Keflavíkurverktökum fyrir stuðning þeirra.
Fyrir hönd nemenda 9. bekkjar og fararstjórnar.
Ragnhildur L. Guðmundsdóttir, kennari og fararstjóri.