Skógur á Miðnesheiði
Þegar flogið er inn til lendingar á flugvellinum okkar hér á heiðinni spyrja margir útlendingar: ,,Ósköp er þetta eyðilegt. Hvar eru trén"? Viðkvæðið hjá landanum hefur oftast verið að hér sé harðbýlt, trjáleysið sé þannig merki um veðurfar og aðstæður og þetta sé okkar sérstaða.
Þetta viðhorf rifjaðist upp þegar ég las fréttina Ótrúleg saga trés í síðasta tölublaði Víkurfrétta. Þar er mynd af Sveini Guðnasyni undir háu sitkagreni sem vex á víðavangi á Miðnesheiðinni. Upprunasaga trésins er ótrúleg, en hér er þó fyrst og fremst vakin athygli á því að tréð skuli yfirleitt vaxa á þessum stað. Og reyndar líka því að skammt frá sitkagreninu vex gullregn og þrífst einnig ágætlega á berangrinum.
Nokkru sunnar á heiðinni má sjá þyrpingar af sitkagreni þar sem áður var Rockville. Trén nutu reyndar einhvers skjóls lengi vel en þó ekki á seinni árum eftir að allar byggingar voru rifnar. Meðferð trjánna hefur verið til vansa og hafa Víkurfréttir meðal annars af og til bent á þá staðreynd. (Í Rockville gæti verið áhugavert að setja upp ,,Friðargarð" þar sem meðal annars sagan og áðurnefnd tré spiluð hlutverk, en það er annað mál). Fleiri dæmi af heiðinni má nefna; innan og utan flugvallargirðingar má sjá tré í góðum vexti og mikill árangur hefur einnig náðst við Rósaselsvötn eins og kunnugt er.
Það er kannski ekki von að ferðamenn í aðflugi eða akandi eftir Reykjanesbrautinni taki eftir þessum fáu trjám sem hér eru til umræðu, en íbúar á svæðinu ættu að vita af þeim -og draga af þeim eðlilega ályktun.
Ályktunin er sú að vel er hægt að rækta tré á Miðnesheiðinni. Veðurfar og illa farið land kemur ekki í veg fyrir það. Við getum sem sé ræktað skóg á margra ferkílómetra svæði á Miðnesheiðinni og breytt hinni eyðilegu ásýnd í frjósamt og skjólgott land. Þetta gæti ýmsum þótt ótrúlegt, en staðreynd er það engu að síður.
Sá sem þetta skrifar er garðyrkjumaður með allmikla reynslu af skógrækt í svokölluðu erfiðu landi, bæði við sjó og til fjalla. Ég fullyrði að hér væri með réttum aðferðum og litlu fjármagni hægt að rækta mannhæðarháan skóg á aðeins tíu árum um alla Miðnesheiðina. Þetta verkefni krefst reyndar mikils mannafla, sem er þó kostur við ríkjandi aðstæður, eins og kunnugt er.
Hin margvíslegu góðu áhrif sem skógurinn hefur, bæði á lífríkið og mannlífið eru vel kunn og óþarfi að rekja þau hér. Víðáttumiklir skógar á láglendi hér á landi ættu með réttu að vera hið eðlilega, sjálfsagða ástand. Auk annars skapar skógurinn bein störf í framtíðinni, bæði tengd útivist og ýmiskonar viðarvinnslu. Ávinningurinn af skógræktinni er atvinnuskapandi langtímamál. Það sem við gerum í dag á sviði skógræktarinnar mun koma okkur öllum til góða síðar meir, börnum okkar, barnabörnum osfrv.
Er okkur þá nokkuð að vanbúnaði að rækta skóg á Miðnesheiðinni?
Kristján Bjarnason