Skógræktarátak í Sandgerði
Nú er í gangi heilmikið skógræktarátak á vegum Sandgerðisbæjar. Verkefnið er unnið í samstarfi við Garðinn, Reykjanesbæ og Voga. Alls staðar er unnið á opnum svæðum sem hingað til hafa verið talin dauðadæmd til ræktunar og fyrir valinu hér varð svæðið fyrir ofan grjótnámuna, en hún er á heiðinni fyrir ofan bæinn. 8 krakkar úr vinnuskóla Sandgerðisbæjar voru settir í gróðursetninguna og þau verk sem henni fylgja. Ætlunin er að gróðursetja 1.500 plöntur þetta sumarið.
Erla Jóna Hilmarsdóttir sem er verkstjóri yfir verkinu segir að þau gróðursetji svokallaða klasa. Hver klasi inniheldur 25 plöntur og samanstendur af einu reynitré, fjórum víðisplöntum og 20 birkitrjám. Þetta er mikil nákvæmnisvinna - allt er mælt með skífumáli, hæðin mæld með tommustokki þetta sett í tölvu... Nú þegar er búið að planta helmingnum, eða u.þ.b. 750 plöntum og gengur verkið feiknavel enda hefur Erla sjaldan séð meiri vinnuforka en þessa krakka sem hún hefur til að vinna verkið og á varla orð yfir hvað krakkarnir eru hörkuduglegir í vinnu.
Í gryfjunni (grjótnámunni) á að byggja upp útivistarsvæði í framtíðinni, enda býður landslagið upp á mikla möguleika á því sviði. Með þessari gróðursetningu er verið að gera gróðurbelti fyrir þá nýbyggð sem er að byrja að byggjast upp í næsta nágrenni við þetta svæði. Gróðurbeltið veitir þeirri byggð gott skjól og þegar gróðursetningunni er lokið verður farið í að sá í opin sár sem eru á svæðinu. Við það er notað blandað efni; grasfræ og áburður blandað í réttum hlutföllum. „Við stefnum á að þessi vinnuhópur ljúki verkefninu um miðjan júlí og þá verða krakkarnir settir í önnur störf,“ segir Erla. „Við notum þurrkaðan svínaskít og moltu til að bæta jarðveginn og blöndum þessu saman við mold og ýmsa áburði. Það eru u.þ.b. sex tegundir af bætiefni sem við notum til að bæta jarðveginn. Það er mikil kúnst að búa til hvern klasa, mikil nákvæmisvinna og mjög vandað til verksins. Þær plöntur sem gróðursettar voru í fyrra hafa flestar hækkað um 30-50 sm þannig að þetta verkefni lofar mjög góðu,“ segir Erla Jóna Hilmarsdóttir, verkstjóri í vinnuskóla Sandgerðisbæjar að lokum. HV
Af vef Sandgerðisbæjar