Skipulögð mistök
„If you fail to plan you are planning to fail“
Sem þjálfari þá nota ég mikið af mínum tíma til að skipuleggja æfingar og mót. Ég hef einnig starfað sem grunn- og framhaldsskólakennari og þar fá kennarar borgaðan tíma sem þeir eiga m.a. að nota til að undirbúa kennslustundir, próf og annað slíkt. Þetta er gífurlega mikilvægur þáttur í því að ná árangri og gefa iðkendum og nemendum verkefni við hæfi. Skipulögð áætlun kortleggur leiðina að markmiðinu og er þar af leiðandi leiðarvísir fyrir það ferðalag sem er fyrir höndum. Gerðar hafa verið rannsóknir á þjálfurum og kennurum og meðal þess sem kemur fram er að skipulagðir kennarar ná árangri mun fyrr.
Ef kennsluáætlun liggur fyrir, hvað skal kennt hvenær og undirbúningur í samræmi við það eru mun meiri líkur að iðkendur geti komist yfir það efni sem liggur fyrir og byggt svo ofan á það á rökréttan máta ef við gefum okkur það að áætlunin sé vel uppbyggð. Það eru svo margar leiðir hvernig þjálfarar/kennarar geta hagað sínu skipulagi. Rannsóknir hafa einnig sýnt að það er gífurlega mikill munur á milli einstaklinga hvernig þeir haga sínu skipulagi en geta samt náð góðum árangri. Helstu grunnreglur um skipulag fyrir þjálfun eru þó:
Markmiðatengt
Skipulagið er til að brjóta niður hvað þarf til að ná þeim árangri sem liðið eða íþróttamaðurinn sækist eftir.
Sérhæft
Algeng mistök sem þjálfarar gera er að eyða tíma sínum í eitthvað sem hugsanlega er ekki að hjálpa íþróttamanninum að ná markmiðinu sínu, oft vegna skorts á reynslu, kunnáttu eða gagnrýninni hugsun.
Álagsstjórnun
Til að bæta árangur umfram núverandi getu þarf álagið að aukast á réttum tímum. Álagsaukningin er mikilvæg til að aðlögun geti átt sér stað en þarf að vera gerð á réttan hátt, annars er hætta á meiðslum og minni afköstum.
Einstaklingsmunur
Hver og einn bregst mismunandi við álagi þrátt fyrir að allir bregðist eitthvað við. Skipulagið þarf að gera ráð fyrir því að hægt sé að aðlaga æfingar og álag fyrir viðkomandi einstaklinga vegna getu, aldurs, kyns, meiðslum eða öðrum þáttum.
Fjölbreytni
Einhæft álag mun bæði auka líkur á meiðslum og skapa tregðuástand í líkamanum þar sem iðkandinn hættir að bæta sig vegna skorts á álagsbreytingum. Einnig er fjölbreytnin mikilvæg til að halda áhuga hjá iðkandanum.
Hvíld og endurheimt
Í hvíldinni gerist öll aðlögun íþróttamannsins. Ef hvíldin er rétt skipulögð með álagspunktunum eru mestar líkur á bætingu og minni líkur á meiðslum.
Skráning
Skipulagið þarf að vera skrifað niður, eða skráð á einhvern hátt. Þannig getur þjálfarinn lært af skipulaginu, aðlagað það, sýnt iðkendum eða öðrum þjálfurum o.s.frv.
Sveigjanlegt og breytilegt
Ekkert skipulag verður 100% rétt m.v. það sem var gert í byrjun. Skipulagið þarf að geta breyst hvar og hvenær sem er. Stundum þarf þjálfari að bregða algjörlega frá skipulaginu án nokkurs fyrirvara og það þarf að gera ráð fyrir því og aðlaga skipulagið sem samsvarar því.
Tímatakmarkanir
Skipulagið er til að ná einhverjum ákveðnum árangri á einhverjum ákveðnum tíma. Það þarf að vera skýrt til að hámarka árangurinn. Algengt er að gera ársskipulag, mánaðaskipulag, vikuskipulag og svo skipulag fyrir hverja æfingu fyrir sig.
Endurmat og aðlögun
Eftir viðkomandi skipulag þarf að endurmeta hvernig gekk að framfylgja því. Náðu iðkendur fullnægjandi árangri eða þarf að aðlaga skipulagið?
Langtíma- og skammtímaárangur
Skipulagið er til að ná langtíma árangri t.d. að vinna ákveðið mót, komast í landslið eða ná svörtu belti. Til þess að það sé mögulegt þarf að brjóta það niður og skipuleggja hvernig hægt er að ná smærri áföngum og vinna markvisst að því. Skipulagið þarf að segja hvert næsta skref er m.v. núverandi ástand.
Ég hef þjálfað bardagaíþróttir í um 13 ár. Eftir að hafa lært aðferðir við að skipuleggja æfingar og undirbúa iðkendur betur hafa mínir iðkendur náð miklu meiri árangri. Ég trúi því að í dag sé enginn bardagaíþróttaþjálfari á landinu sem leggi jafn mikið upp úr skipulagningu eins og ég. Ég sé þetta þannig að það er hluti af mínu starfi sem þjálfari að mæta undirbúinn til að þjálfa og á mót, annars ætti fólk ekki að borga mér fyrir að þjálfa sig, þetta er mín ábyrgð. Ég þekki þó allt of marga þjálfara sem telja sig vera yfir það hafna að undirbúa sig, eða hreinlega nenna því ekki. Það viðhorf er lítilsvirðing á orku iðkenda þeirra og eru „skipulögð mistök“ ef orðatiltækið hér að ofan er lauslega þýtt.
Ég lærði íþróttafræði í Háskólanum í Reykjavík og lærði þar grunninn í skipulagningu fyrir íþróttir sem hefur nýst mér vel. Það ásamt því að eiga ótal samræður við þjálfara úr öðrum greinum, lestur á bókum og greinum, fyrirlestrum, námskeiðum, reynsla af skipulagningu fyrir fólk á öllum aldri og getustigum og hjálp frá góðum vinum hefur kennt mér fullt af hlutum sem ég tel virka vel í minni skipulagningu. Einn mikilvægasti þátturinn að mínu mati er endurmat áætlana, því ef það er gert vel þá mun þjálfarinn læra af öllu ferlinu og geta gert það betur næst. Mitt ráð til þjálfara er að byrja strax að æfa sig í markmiðatengdri áætlanagerð og sjá hvort það muni ekki skila betri árangri til lengri tíma.
Helgi Rafn Guðmundsson
Yfirþjálfari taekwondodeildar Keflavíkur
Íþróttafræðingur