Skemmdarverk í ferðaþjónustunni
Ferðaþjónustan er viðkvæm atvinnugrein sem segja má að búin sé að slíta barnsskónum. Eftir áralanga uppbyggingu hefur tekist að gera Ísland að einu eftirsóttasta áfangastað ferðamanna í heiminum í dag. Þennan árangur ber að þakka frumkvöðlastarfi fjölda manna og kvenna síðustu árin þar sem umhyggja fyrir ferðamanninum, gestum okkar, hefur verið leiðarljósið. Þessi umhyggja felst m.a. í því að taka á móti ferðamanninum með bros á vör og gera honum heimsóknina sem eftirminnilegasta og vernda náttúruna. Byggð hefur verið upp aðstaða fyrir ferðamennina víða þó mikið skorti enn á.
Tekjur til uppbyggingar
Allt kostar þetta peninga sem ekki hafa verið miklir og frumkvöðlar þurft að vinna fyrir lítið. En þetta er að breytast og það mjög hratt því nú er svo komið að tekjur af ferðamönnum er slíkar að þær skipta sköpum um afkomu þjóðarbúsins. Þessa staða er ný fyrir okkur og jákvæð en veltir strax upp þeirri spurningu, getur þetta haldið svona áfram, erum við komin að þolmörkum? Ég tel mig þekkja nokkuð vel til á Reykjanesi þar sem ferðamannastraumurinn er mikill. Að mínu áliti eru helstu ferðamannastaðirnir eins og Reykjanesfólkvangur með Krýsuvík komin að þolmörkum. Þar er mikið álag og þá allt árið um kring þar og varnarbaráttan er ekki lengur undir náttúrunni komin. Þar er unnið mikið starf í dag fyrir mjög litla peninga. Sama má segja um Reykjanesið með Reykjanesvita, Gunnuhver og Valahnjúk, þar sem flekaskilin koma úr sjó. Við Gunnuhver hefur uppbygging göngubrúa og stíga bjargað miklu en við Valahnjúk liggur landið undir skemmdum. Þar þarf að halda áfram uppbygginu göngustíga og vinna að eðlilegri landvernd.
Reykjanes jarðvangur (geopark)
Ein af þeim leiðum sem Ferðamálasamtök Suðurnesja sáu, til að halda utan um þetta svæði og vernda, var að fá það viðurkennt alþjóðlega sem jarðminjagarður (geopark). Slík viðurkenning tryggir betur alla faglega umræðu um svæðið og setur mönnum ákveðnar skyldur á herðar til að standa undir upplýsingum um svæðið og vernda einstaka náttúru þess. Reykjanesbær tók vel í þessa hugmynd en ekki gekk jafn vel að fá Grindavíkurbæ með nema þá með því skilyrði að þeir stýrðu verkefninu. Á það var fallist og FSS með sveitarfélögunum vann að stofnun Reykjanes jarðminjagarðs 2012. Á sama tíma var FSS og Markaðsstofa Suðurnesja að vinna að uppbyggingu þjónustuhúss við Valahnjúk og alþjóðlegri ráðstefnu um jarðminjagarða með erlendum sérfræðingum á þessu sviði. Var forseti Ísland Ólafur Ragnar Grímsson búin að samþykkja að vera verndari ráðstefnunnar og flytja ávarp og erlendir fyrirlesarar eins og Ross Dowling búin að boða þátttöku sína. Ráðstefnan var sett á seinni hluta sumars 2013 en þá ætluðu fulltrúar Europian Geoparks að taka út Reykjanesið með tilliti til þess að það fengi viðurkenningu 1. desember 2013.
Alþjóðleg ráðstefna slegin af og geopark á frest
Ráðstefnan átti að upplýsa fulltrúa Europian geoparks og heimamenn um gildi Reykjanessins inn í hóp geoparka í heiminum og voru helstu forustumenn landsins boðaðir til að hitta erlenda fulltrúa sem um þessi mál fjalla. En fljótt skiptast veður í lofti. Í stuttu máli þá ákvað ný stjórn Markaðsstofu Suðurnesja og SSS að aflýsa ráðstefnunni að ósk stjórnar Reykjanes jarðvangs. Þessi ákvörðum kom undirrituðum afskaplega mikið á óvart enda undirbúningur komin langt á veg. Þurfti að biðja forseta Ísland afsökunar og þá sem boðað höfðu þátttöku. Úttektaraðilar frá European Geoparks komu svo hér í heimsókn síðla síðastliðið sumar eins og áætlað var til að taka Reykjanesið út sem fullgildan aðila að samtökunum. Í stuttu máli varð niðurstaðan sú að svæðið fékk neikvæða umsögn. Erlenda sendinefndin fékk ekki að hitta neina ráðandi aðila á landinu og litlar upplýsingar um það sem stæði til og hvernig ráðandi aðilar á Suðurnesjunum ætluðu að vinna saman. Reykjanesið má reyna aftur eftir tvö ár! Þessi niðurstaða er auðvita dæmalaus og vonbrigði og litlu öðru um að kenna en ráðgjöf sem getur vart talist annað en skemmdarverk.
Risa gróðurhús við Gunnuhver
Það verður einnig að segjast að bæjarstjórn Grindavíkur sýnir ekki að hugur fylgi máli þegar kemur að því að standa vörð um jarðminjagarð af því tagi sem hugsaður er á Reykjanesi. Ákvörðum um að leyfa bygginu 15 hektara gróðurhúss rétt hjá Gunnuhver, hjarta Reykjanes geopark er forkastanleg. Ljósmengun frá slíku risa gróðurhúsi, því stærsta á Íslandi, og úrgangur er gríðarlega spillandi fyrir ferðaþjónustuna. Ímynd svæðisins mun bera óbætanlega skaða af slíkri ákvörðun. Bara þessi eina ákvörðun gæti slökkt endanlega á öllum vonum um viðurkenningu alþjóðlegra samtaka.
Einstakleiki Reykjanessins á heimsvísu
Auðvitað er ekki útilokað að alþjóðlega verði samþykkt að Reykjanes jarðminjagarður fái viðurkenningu Unesco en til að það takist verður að draga ákvörðun um risa gróðurhús í hjarta jarðminjagarðsins til baka og friðlýsa svæðið yst á Reykjanesi. Eins verður núverandi stjórn Reykjanes jarðminjagarðs að breyta stjórnunarstíl sínum og vinna með hagsmuni Suðurnesjanna að leiðarljósi, á það hefur skort.
Það jákvæða út úr þessari heimsókn erlendu sendinefndarinnar var að þeir viðurkenna einstakleika Reykjanessins á heimsvísu. Þar er þó einvörðungu um að ræða svæðið yst á Reykjanesi við Valahnjúk, Gunnuhver og brú milli heimsálfa þar sem plötuskilin milli Ameríku og Evrópu sjást koma úr sjó. Það sést hvergi annarsstaðar í heiminum.
Kristján Pálsson
Höfundur situr í stjórn Reykjanesfólkvangs.