SKB selur jólakort myndskreytt af Braga Einars
Ein stærsta fjáröflun Styrktarfélags krabbameinssjúkra barna (SKB) á hverju ári er sala jólakorta. Allar stærðir og gerðir af fyrirtækjum auk einstaklinga og félagasamtaka hafa keypt jólakort af félaginu í gegnum árin og er þessi stuðningur stór liður í því að hjálpa félaginu að sinna sínu hlutverki sem öflugur stuðningsaðili krabbameinssjúkra barna og fjölskyldna þeirra.
Nú býður félagið upp á tvær gerðir af jólakortum. Annars vegar er um að ræða kort úr seríu sem teiknuð er af Braga Einarssyni og er nú komið að fjórða kortinu sem er með mynd af jólasveininum Þvörusleiki. Bragi hefur í mörg ár teiknað jólakort fyrir SKB og hafa kortin hans vakið verðskuldaða athygli. Hinsvegar selur félagið nú einnig kort með mynd sem máluð var sérstaklega fyrir félagið af listakonunni Mæju.
Jólakortin frá SKB eru tvöföld og fylgir hvítt umslag með hverju kortin. Stærð kortanna er 115x165mm en það er passleg stærð til að setja ljósmyndir inn í.
Kortin verða afgreidd í stykkjatali og kostar hvert kort kr. 100.- Mögulegt er að fá nafn og/eða merki (lógó) fyrirtækis prentað í lit inn í kortin og kostar það kr. 18.900.- + 4 kr. hvert kort. Svart/hvít innáprentun kostar kr. 6.000.- + 3 kr. hvert kort. Athugið að verðin fyrir innáprentun eru án vsk.
Hægt er að panta jólakortin í gegnum heimasíðu SKB (www.skb.is) en á forsíðunni er tengill inn á sérstakt pöntunarform. Jólakortin eru einnig seld á skrifstofu félagsins í Hlíðasmára 14 í Kópavogi og í síma 588-7555, opnunartíminn er frá kl 8-16 alla virka daga.