Skapandi skóli fyrir nútíð og framtíð - ný hugsun, nýjar leiðir
- Aðsend grein frá aðstoðarskólastjóra Heiðarskóla
Bróðurparturinn af starfsmannahópi Heiðarskóla sótti saman endurmenntun til Edinborgar í Skotlandi, dagana 19. til 21. október. Þar tók á móti okkur Frank Crawford, menntaráðgjafi, sem skipulagt hafði fyrirlestra og vinnusmiðjur. Fyrirlestrarnir fjölluðu um mat á árangri þegar umfangsmiklar breytingar eiga sér stað á skólastarfi, um leiðir til þess að hrinda breytingum í framkvæmd og fylgja þeirri vinnu eftir og hagnýt ráð þegar sýna þarf frumkvæði og hugrekki til að takast á við breytingar. Vinnustofurnar byggðust annars vegar á efni fyrirlestranna og hins vegar á leikrænni tjáningu og hópefli.
Fjórir skólar voru heimsóttir, tveir barnaskólar og tveir unglingaskólar, annars vegar í Stirling og hins vegar í Peebles Town. Í þeim öllum fengum við kynningu á starfi skólanna, áherslum þeirra og markmiðum og almennar upplýsingar um það hvernig breytingar á menntakerfi Skotlands birtast í starfi þeirra. Eru þær áþekkar þeim sem nú eiga sér stað hér á landi eftir útgáfu nýrrar aðalnámskrár grunnskóla (2011/2013).
Skemmst er frá því að segja að fyrirlestrar og vinnustofur Franks voru afar gagnlegar. Umfjöllunarefnið rímaði vel við þá krefjandi vinnu sem unnin hefur verið við undirbúning og innleiðingu aðalnámskrárinnar undanfarin ár og ekki síður við þá vinnu sem framundan er. Tilburðir hópsins í æfingum sem reyndu á skapandi hugsun og leikræna tjáningu í leiklistarsmiðjunni kitluðu hláturtaugarnar og reyndu á skemmtilegan hátt á samtakamátt hópsins. Í skólunum fjórum voru móttökurnar frábærar og þaðan var farið með ógrynni hugmynda í farteskinu.
Forritunartækið Heiðar Óli í Heiðarskóla sem nemendur í forritunarvali hafa nýtt og hugmyndin er að nýta enn frekar í skólastarfinu.
Markmið endurmenntunarinnar var að hún myndi nýtast öllu starfsfólki skólans í þeirri viðamiklu vinnu sem fer fram í skólanum við að breyta skólastarfi í takt við nýja aðalnámskrá. Inntaki hennar er ætlað að mæta kröfum nútímasamfélags og þess samfélags sem framtíðin geymir. Hún kallar á nýja hugsun og nýjar leiðir í skólastarfi. Við slíka innleiðingarvinnu er að ótal mörgu að hyggja. Eitt af því sem nýta má í slíkri vinnu eru möguleikar tækninnar. Í Heiðarskóla hefur notkun spjaldtölvu nýst einkar vel. Þetta er annað skólaárið sem allir nemendur á unglingastigi nota þær í námi sínu en innleiðingin hófst fyrir fjórum árum síðan. Notkun tölvanna hefur einnig gefið góða raun í sérkennslu og sérstaklega vel í námi einhverfra nemenda. Rannsókn sem þær Þóra Guðrún Einarsdóttir og Íris Ástþórsdóttir, kennarar við skólann og mastersnemar, framkvæmdu gaf þær niðurstöður að mikill meirihluti nemenda á unglingastigi er ánægður með notkun spjaldtölva og telur þær nýtast sér vel í námi. Spennandi leiðir í forritunarkennslu hafa einnig verið kannaðar og verður gaman að sjá hvað kemur út úr þeirri vinnu og hvernig hún mun nýtast nemendum okkar.
Tæknin er þó aðeins einn angi af mörgum sem greinist út frá þeim kjarna sem skólastarf í nútímasamfélagi á að snúast um; menntun sem byggir á gæða kennslu, hvetjandi námsumhverfi og góðum samskiptum. Eftir sem áður mun starfsfólk Heiðarskóla leita leiða til að þróa og efla það starf sem í skólanum er unnið með hag og líðan nemenda að leiðarljósi.
Bryndís Jóna Magnúsdóttir, aðstoðarskólastjóri Heiðarskóla