Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Aðsent

Sjónmælingar og linsur
Sunnudagur 19. febrúar 2012 kl. 14:02

Sjónmælingar og linsur

Í þessari grein langar mig að upplýsa ykkur, kæru lesendur, um starf sjóntækjafræðinga og stikla á stóru varðandi augnheilsu almennt.

Bakgrunnur minn er nám í sjóntækjafræði (Optometry, BSc) við Høgskolen i Buskerud í Noregi. Við tók sérnám í snertilinsufræðum og síðar master-nám í klíniskri sjónfræði. Master-námið var mjög krefjandi og skemmtilegt og gekk aðallega út á það að læra að þekkja augnsjúkdóma enn betur. Einnig starfaði ég sem sjóntækjafræðingur í gleraugnaverslun í Noregi í þrjú ár.

Fyrir nokkrum árum var lögum breytt þannig að sjóntækjafræðingar öðluðust réttindi hér á landi. Sjóntækjafræðingar fengu viðurkenningu á störfum sínum en þó með miklum takmörkunum. Til dæmis er starf mitt hér á landi ólíkt sambærilegu starfi í Noregi. Í Noregi skima sjóntækjafræðingar eftir augnsjúkdómum. Þeir greina og meðhöndla þá þó ekki. Þeir læra að skoða augnbotnana og þekkja mikið af tilfellum sem herja á fólkið í landinu. Hér heima er vinnuumhverfið annað. Sjóntækjafræðingum er ekki leyft að skima eftir augnsjúkdómum. Er því mikilvægt að fara reglulega í augnbotna-eftirlit hjá augnlækni en sjónmælingin sem slík er góð og gild hjá sjóntækjafræðingi.

Augað er eitt aðalskynfæri líkamans og breytist lögun þess á ævi mannsins. Það sem margir á miðjum aldri hafa tekið eftir er að erfiðleikar byrja og þá aðallega tengt tölvunotkun og lestri. Þetta birtist m.a. í þreytu, minnkuðu úthaldi við nærvinnu eða eins og margir vilja meina að „handleggirnir séu ekki nægilega langir“. Það sem gerist er að linsan í auganu er orðin það stíf um miðjan aldur að einföldustu hlutir eins og kíkja á símann sinn verður erfitt án hjálpartækja. Ekkert stöðvar breytingarnar á linsunni og við upplifum verri og verri fókus á tímabili sem eru að jafnaði 10-15 ár. Þetta kallar á sífellt sterkari lestrargleraugu.

Snertilinsur hafa verið við lýði í fjöldamörg ár en með þróuninni hafa þær breyst úr hörðu skúringafötuplasti yfir í mjúkar sílikon linsur. Árslinsur hafa þróast yfir í dagslinsur. Ákveðin skilyrði eru þó við vel heppnaðri linsunotkun og eru hófleg notkun og hreinlæti þar fremst í fyrirrúmi. Í dag er mikið úrval snertilinsa en flóknir styrkleikar með háum sjónskekkjum eru þar einhverjar takmarkanir fyrir suma notendur.

Engin fyrirstaða er fyrir því að börn upp úr 10 ára aldri geti notað snertilinsur. Þvert á móti eru þau móttækileg og fara vel eftir settum reglum sem gilda fyrir snertilinsunotkun, oft duglegri heldur en fullorðnir einstaklingar. Með tilliti til ofnotkunar á snertilinsum, þá ættu svo ungir einstaklingar einungis að nota linsur við íþróttaiðkun.

Að sama skapi eru þeir sem þurfa tvískipt gleraugu hópur fólks sem velta fyrir sér hvort linsur geti mögulega verið kostur fyrir þá. Ef rétta á fjarlægðarsjónina, hvernig fer þá fyrir lessjóninni? Og svo öfugt, ef rétta þarf lessjónina? Þeir sem eru með þetta vandamál hafa tekið eftir því að ekki er gagnlegt að keyra með lesgleraugu. En til eru lausnir fyrir þennan hóp fólks: tvískiptar linsur og svokallað „monovision“. Þetta er líka stundum notað samansett: monovision með tvískiptum linsum. Þetta verður hver og einn að prufa og mikilvægt er að sjónmælingin sé ný þegar kostir og gallar þessara aðferða eru metnir.

Í Noregi starfaði ég mikið með snertilinsukúnna á öllum aldri. Kerfið er þannig í mörgum löndum, að viðkomandi sem óskar eftir að nota snertilinsur, þarf að gangast undir eftirlit á 6-12 mánaða fresti til þess eins að geta keypt sér fleiri linsur. Á þeim tíma sem ég starfaði í Noregi voru sólarhringslinsur að ryðja sér til rúms í Skandinavíu og voru Norðmenn þar í broddi fylkingar. Hef ég þess vegna talsverða reynslu af slíkum snertilinsum. Við Íslendingar búum við þá sérstæðu að hver sem er getur verslað linsur án þess að sýna fram á að viðkomandi hafi fengið kennslu eða sé undir eftirliti sérfræðinga. En þeir einstaklingar sem óska eftir að nota sólarhringslinsur þurfa hins vegar að ráðfæra sig við sjóntækjafræðing því notkun þeirra er háð eftirliti. Þarf því að koma til eftirlits tvisvar á ári til að sjá til þess að fremri partur augans sé heill og áframhaldandi sólarhringsnotkun sé óhætt. Helsta ástæðan fyrir þessu mikla eftirliti er sýkingarhætta. Sýkingar eru talsvert algengari í þessum tilfellum en þegar um er að ræða notkun á hefðbundnum snertilinsum.

Hvað er það sem hentar þér...

Jóna Birna Ragnarsdóttir
sjóntækjafræðingur í Optical Studio Keflavík

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024