Karlakór Kef kertatónleikar
Karlakór Kef kertatónleikar

Aðsent

Þriðjudagur 6. apríl 2004 kl. 13:46

Sjónhverfingar í Reykjanesbæ

Bæjaryfirvöld í Reykjanesbæ hafa tekið þátt í að búa til hlutafélag sem heitir Eignarhaldsfélagið Fasteign h.f sem tók yfir eigur bæjarins svo sem grunnskólana,  leikskólana og hlutabréfin í Hitaveitu Suðurnesja. 

Ætla má að eigur bæjarins að verðmæti um 3,3 milljarðar hafi verið seldar á árinu 2003 til hlutafélagsins sem greiddi með erlendum lánum. Við þennan gjörning er eignarhlutur bæjarins í félaginu veðsettur eins og hver önnur íbúð sem er í eigu venjulegs borgara.
 
Af ofangreindri fjárhæð nýtti Reykjanesbær sér svo um 650 milljónir til að fjármagna hallarekstur bæjarsjóðs á síðasta ári. Í framtíðinni mun hlutafélagið að auki reisa nýbyggingar eftir þörfum bæjarins og leigja svo bænum þær til opinberra þarfa.

Það kom m.a. fram hjá Sigurði Val bæjarstjóra Sandgerðisbæjar í Víkurfréttum fyrir nokkru að þeir væru með til íhugunar að leika sama leikinn og grannar þeirra í Reykjanesbæ því jú þeir þyrftu að byggja ráðhús í Sandgerði og endurnýja gatnakerfið.

Við það að hafa hlutafélag sem á og sér um rekstur og framkvæmdir sem bæjaryfirvöld vilja leggja út í má  ætla að komist sé hjá því að þurfa að bjóða út verklegar framkvæmdir eins og opinberum aðilum ber að gera samkvæmt samningnum um evrópska efnahagssvæðið (EES),  en í staðinn er hætt við að framkvæmdum sé útdeilt án útboða til fámennisklíka hliðholla réttum stjórnmálaflokki. 
Við þessar aðstæður getur myndast spilling með opinbert fé. 

Engu líkara er en að með þessari yfirbreiðslupólitík sé einnig komist hjá athugasemdum eftirlitsnefndar sveitarfélaganna á vegum Félagsmálaráðuneytisins sem fer með eftirlit með fjárhagsstöðu sveitarfélaganna því þeirra valdsvið nær ekki inn á borð  hlutafélagsins. 
Ofanritað á líka við um kjörna  bæjarfulltrúa minnihlutans þegar þeir ætla að leita sér upplýsinga um stöðu mála hjá þessu hlutafélagi. Hér er átt við um ýtarlegri upplýsingar en fást með ársuppgjöri.

Við þessa fjármálastjórn sjálfstæðismanna í Reykjanesbæ er útlit fyrir að eignir bæjarins verði búnar á næstu fimm árum eða svo.
   
Sjálfstæðismenn hér í bæ hafa allt síðan stuttu fyrir síðustu sveitastjórnakosningar vorið 2002 hreykt sér af því að Stálpípuverksmiðja í Helguvík væri á næsta leiti ef tryggt væri að þeir hlytu brautargengi í kosningunum.  Sjálfstæðismenn fengu hreinan meirihluta og bættu við sig manni og telja margir að þetta loforð þeirra með Stálpípuverksmiðjuna hafi ráðið úrslitum að þeir náðu að gera þetta að kosningarloforði.

Helguvíkin er eins vel staðsett og völ er á frá náttúrunnar hendi, í miðju Atlantshafi með stórskipahöfn og alþjóðaflugvöll við lóðarmörkin, mitt á milli Evrópu og Norður Ameríku sem eru stærstu markaðssvæðin í heimi. Vegna þessa er mjög eðlilegt að margir iðnjöfrar hafi eða komi til með að líta til Helguvíkur um staðsetningu fyrir ýmiss konar iðnað í framtíðinni.  Að auki höfum við upp á ódýra orku að bjóða og gott vinnuafl.
Allir þessir möguleikar eru tilkomnir vegna náttúrulegra gæða og hafa ekkert með Sjálfstæðisflokkinn að gera nema ef væri þetta með Stálpípuverksmiðjuna að hún hafi verið sjónhverfing frá upphafi.
Gleðilega páska!     


Baldvin Nielsen     
Situr í kjördæmisfélagi Frjálslynda flokksins í Suðurkjördæmi

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024