Sjávarútvegur og byggðarþróun
Mér barst nýlega bréf frá nýstofnuðu Sambandi Sjávarútvegssveitarfélaga (sem faðir minn skannaði inn og sendi mér til Kína:)). Í meginatriðum þá voru skilaboð bréfsins sú að hagræðing í sjávarútvegi hefur yfirleitt skilað sér í nettó hagnaði fyrir allt þjóðfélagið, en sá hagnaður hefur ekki verið jafnt dreifður, minni sjávarpláss hafa yfirleitt komið verr út fyrir vikið.
Auðvitað skapast við það ákveðin samfélagslegur vandi sem þarf að takast á við. Þessi samtök vilja að sjávarpláss fái hlut í veiðigjaldinu sem lagt var á nýlega. Mér finnst það ekki slæm hugmynd... upp að ákveðnu marki. Það þarf auðvitað fjármagn til að takast á við þann vanda sem blasir við um leið, en spurningin er hvert sé besta fyrirkomulagið til framtíðar.
Sum sveitarfélög henta ákaflega vel fyrir sjávarútveg, og það gæti verið kostnaðarsamt að láta pólitískar ákvarðanir núna rústa byggð einhverstaðar þar sem ætti að vera augljóst að verður alltaf hagkvæmt að róa frá (stutt á mið, góðar hafnaraðstæður og svo framvegis).
Önnur sveitafélög eru í aðstöðu til að geta skipt um ham. Ég er Sandgerðingur og allur kvóti hvarf frá Sandgerði á tíunda áratuginum. Sandgerði var hins vega í ágætis aðstöðu til að gera ýmislegt annað: Höfnin liggur vel við og þjónustar báta allstaðar af landinu, mikið af fiskvinnslu er á svæðinu sem kaupir af bátum allstaðar af landinu, nálægðin við flugvöllinn hefur búið til nýja atvinnugrein sem er fiskvinnsla til að setja ferskan fisk beint í flug. Ásamt þessu er mikið af öðrum atvinnutækifærum, mikið er af iðnaðarstarfsemi sem þjónustar önnur sveitarfélög á Suðurnesjum eða Reykjavík, en þéttleiki byggðar á Reykjanesi er kostur. Greiðar samgöngur (5-10 mínútur á milli byggðafélaga) hefur líka gert allt svæðið að einu atvinnusvæði. Auðvitað glímir Sandgerði við allskyns gríðarstór vandamál en fyrir svona Sveitarfélög ætti að vera fullt af tækifærum til framtíðar, sérstaklega ef ríkið tekur þátt í því að auðvelda breytinguna.
Aftur á móti eru til þriðja tegundin af sveitarfélögum; þau sveitarfélög þar sem allar forsendur til byggðar eru brostnar. Þéttbýlismyndun á Íslandi er afskaplega ungt fyrirbrigði. Flest sveitarfélög hafa aðeins verið til í nokkur ár (u.þ.b. eina eða tvær kynslóðir) af þeim þúsund sem byggð hefur verið í landinu. Við erum fædd á miklum breytingartímum og það ætti að vera ljóst að sumu leyti hefur byggðarmunstrið á 20. öld verið munstur umbreytinga. Þegar afi minn flutti til hins glænýja sveitarfélags Sandgerðis og byggði þar hús þá yfirgaf hann heimabæ sinn fyrir Norðan. Kálfshamarsvík á Ströndum. Ef maður kemur þar í dag blasir við tóftirnar af talsverðrir þyrpingu sveitabæja. Þarna var góð höfn og hafði myndast talsvert þéttbýli á þess tíma mælikvarða. Þarna ólst afi minn upp en um það leiti sem hann flutti til Sandgerðis þá var allt orðið tómt. Foreldrar hans fluttu á Akranes (annað nýtt sjávarpláss í uppsveiflu) og fljótlega voru engir eftir. Vissulega er sorglegt þegar heil byggð leggst í eyði. Þar fer forgörðum sögur og menning sem við munum ekki sjá aftur.
Á hinn bóginn, ef litið er á sögu Kálfshamarsvíkur sjáum við að byggðin þar var allsekki gömul. Byggð var að þéttast um það leiti sem afi var að fæðast og þarna var blómlegt mannlíf í u.þ.b. hálfan mannsaldur. Í stóra samhenginu hlýtur sú spurning að vakna hvort það hefði verið æskilegt að halda lífinu í þessari byggð. Halda henni á floti með styrkjum, einhverskonar Frankenstein byggð. Hefði það verið gott fyrir mig að alast upp þar frekar en í Sandgerði? Er ekki í góðu lagi stundum að bera virðingu fyrir því sem tilheyrir fortíðinni, þykja vænt um það og varðveita það í minningunni en jafnframt leyfa framþróun og breytingum að eiga sér sinn gang? Þetta er allt hluti af þroskaferli þjóðfélags okkar.
Halldór Berg Harðarson
Starfsnemi í sendiráði Íslands í Kína
Höfundur situr í öðru sæti Pírata í Suðurkjördæmi