Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Aðsent

Sjávarútvegsmál - Ekki skuli hreyfa við notkunarrétti þeirra sem verslað hafa sér aflaheimildir
Sunnudagur 25. september 2005 kl. 03:47

Sjávarútvegsmál - Ekki skuli hreyfa við notkunarrétti þeirra sem verslað hafa sér aflaheimildir

Á umliðnum árum hefur íslenskur sjávarútvegur tekið örum breytingum. Framsal aflaheimilda tók gildi fyrir 1 & ½ áratug og er svo komið að megin þorri aflaheimilda hefur verið seldur og auðvitað keyptur. Ég er einn fjölmargra sem gagnrýndu hið frjálsa framsal aflaheimilda. Í dag er ég kominn á þá skoðun að ekki skuli hreyfa við notkunarrétti þeirra sem verslað hafa sér aflaheimildir. Nógu þungur í drætti er hinn almenni rekstur sjávarútvegsfyrirtækja, að ekki verði viðbætandi að verslaður notendaréttur útgerða verði numinn hinum sömu á brott. Samkeppnin er mikil, krónan er fyrirtækjunum þung í skauti og útlitið síður en svo bjart eins og sakir standa.

Stjórnmálamenn verða engu að síður að vera gagnrýnir á eigin verk og annarra. Eins og sakir standa er því eðlilegt að leitað sé leiða sem bætt geta stöðu íslensks sjávarútvegs bæði til skamms og lengri tíma. Er nú mikil þörf á.

Í fyrsta lagi tel ég koma til greina að aflamark á þorski verði endurskoðað. Samhliða slíkri endurskoðun tel ég brýnt að loðnuveiðar verði háðar þeim takmörkunum að sumarveiðar leggist alfarið af. Jafnframt tel ég mikilvægt að flottrollsveiðar á loðnu verði takmarkaðar að stóru ef ekki öllu leyti. Með breytingum á veiðimunstri loðnuskipaflotans tel ég mikilvægt að aflahlutfall í þorski af heildarstofni verði aukið um 5% frá því sem nú er. M.ö.o. að þorskvótinn verði aukinn um tæp 50.000 tonn.

Í öðru lagi tel ég brýnt að byggðarkvótar verði alfarið lagðir af enda að mínu viti ekki skynsamlegt að einu byggðarlagi sé bættur skaði á kostnað annars. Byggðarkvótakerfið er ölmusukerfi og ekki stoltum Íslendingum bjóðandi, kerfið kallar á erjur og slæmt andrúmsloft innan greinarinnar en samhliða afnámi byggðarkvóta tel ég brýnt að markaðurinn fái þá virkni sem vera skyldi. Með virkni markaðarins á ég m.a. við fiskmarkaðina. Að mínu viti felst skynsemi í því binda ákveðið hlutfall afla frá hverri útgerð / skipi við sölu í gegnum rafvætt uppboðskerfi fiskmarkaðanna. Með breytingu af þessu tagi opnast frekari möguleikar fyrir kvótaminni byggðir að afla sér hráefnis til vinnslu með kaupum á auknu hráefni á uppboðum fiskmarkaða. Með virkni markaðar hér heima fyrir er einnig afar mikilvægt að afli íslenskra skipa sem selja skal á erlendum mörkuðum sem óunnið hráefni, fái fyrst að koma fyrir sjónir íslenskra fiskkaupmanna. M.ö.o. að íslensk fiskvinnsla fái einnig, jafnfætis þeim erlendu, að bjóða í hráefnið áður en það er flutt úr landi. Með afnámi byggðarkvóta og þeim áherslubreytingum sem tíundaðar eru hér að ofan getur mikið áunnist. Fyrir það fyrsta munu samkeppnisskilyrði braggast til muna fyrir fiskvinnslur sem starfa án útgerða. Í annan stað treystum við á heilbrigðan máta, bæði rétt og öryggi byggðanna, fyrir framleiðsluréttinum. Í þriðja lagi mun nýliðun í íslenskan sjávarútveg eflast til muna með breytingum af þessu tagi.

Í þriðja lagi verða koma til breytingar á hlutverki Hafrannsóknarstofnunnar Íslands (Hafró). Það getur ekki talist vísindum til framdráttar að ein stofnun og fáir vísindamenn ráði í einu og öllu um framþróun hafrannsókna hér við land. Frjáls samkeppni hugmynda á vísindasviði hlýtur að standa jafnfætis því mikilvægi að frjálsræði ríki almennt í verslun og þjónustu.
Gunnar Örn Örlygsson,
alþingismaður.
Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024