Sjálfstyrkingarnámskeið fyrir unglinga á HSS
Dagana 20.-24. júní var haldið sjálfsstyrkingarnámskeið á vegum Heilbrigðisstofnunar Suðurnesja. Leiðbeinendur voru Paola Cardenas og Steinunn Anna Sigurjónsdóttir sálfræðingar hjá HSS.
Námskeiðið var ætlað unglingum á aldrinum 12-16 ára og tóku 10 ungmenni þátt. Markmið námskeiðsins var að efla sjálfstraust og veita fræðslu um ýmiss atriði sem tengjast heilbrigðu sjálfsmati. Krakkarnir fengu fræðslu og unnu verkefni tengt kvíða, félagsfælni, þunglyndi, einelti, hugrænni atferlismeðferð, félagsfærni og sjálfsvirðingu.
Verkefnin byggðu á aðferðum listmeðferðar og hugrænni atferlismeðferð. Námskeiðsmat í lokin benti til þess að krakkarnir hefðu verið mjög ánægðir með námskeiðið og hefðu jafnvel viljað hafa það lengur. Námskeiðið þótti skemmtilegt, fróðlegt og þeim fannst þau hafa eignast nýja vini.
Meðal þess sem krakkarnir sögðu var að þau skildu betur suma hluti og öllum fannst fræðslan mjög gagnleg. Meðal þess sem þau upplifðu var að þau væru ekki ein um að líða stundum illa eða hafa lent í erfiðum atvikum í skóla.
Gosa teymi HSS er meðal annars forvarnar- og meðferðarteymi barna og teljum við námskeið af þessu tagi mikilvægan þátt í forvarnarstarfi með börnum og unglingum. Stefnt er að því að vinna áfram með slík námskeið á vegum HSS en áður hafa verið haldin sjálfsstyrkingarnámskeið fyrir barnshafandi og nýbakaðar mæður, sem hefst aftur í haust. Einnig stendur til að hefja regluleg námskeið fyrir fullorðna í hugrænni atferlismeðferð.