Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Aðsent

Sjálfstæðismenn í Reykjanesbæ missa tökin í Hitaveitu Suðurnesja
Fimmtudagur 4. október 2007 kl. 12:21

Sjálfstæðismenn í Reykjanesbæ missa tökin í Hitaveitu Suðurnesja

Nú er ljóst að viðvaranir og varnarorð forystumanna A-listans í Reykjanesbæ um með hvaða hætti farið er með eignarhluti í Hitaveitu Suðurnesja reyndust eiga fullan rétt ár sér og í raun gott betur. 

Hvað munu veitukerfin kosta íbúanna, hvernig verða þau verðlögð, hver ræður ferðinni ?
Ljóst er að nú er illt í efni fyrir okkur Suðurnesjamenn. Mörgum spurningum er ósvarað hvað varðar almannahagsmuni íbúa á svæðinu. Við höfum misst stjórn og sitjum ekki lengur í bílstjórasætinu, við erum í raun komin upp á náð og miskun peningamanna sem vilja ávaxta sitt pund með ofsahraða eins og dæmin sanna. Ljóst er að bæjarstjórar Reykjanesbæjar, Voga, Grindavíkur, Sandgerðis og Garðs verða að vera tilbúnir að kaupa veitukerfin aftur af Hitaveitu Suðurnesja, þeir skulu passa vel það fé sem þeir fengu fyrir sölu á hlut sínum í Hitaveitu Suðurnesja, hve mikið þeir þurfa að greiða fyrir veitukerfin er ekki lengur í þeirra höndum. Hvaða afleiðingar þetta mun hafa á kjör íbúanna á Suðurnesjum á eftir að koma í ljóst. „Við skulum vona það besta !” er líklega það eina sem þeir geta óskað sér.

Hvaða afleiðingar mun þetta hafa á uppbyggingu álvers í Helguvík ?
Mörgum spurningum er ósvarað eins og ég hef rakið hér og í fyrri ummælum og greinum. Eins og t.d. eignarhald á auðlindum og nýtingarréttur. Ein ný spurning/vangavelta vaknar þó óhjákvæmilega við þessi tíðindi, en hún er sú hvaða augum munu hinir nýju herrar líta á uppbyggingu álvers í Helguvík og sölu á orku til Norðuráls í Helguvík, lykillinn að því verkefni er “ORKA” og hefur forystuhlutverk okkar í Hitaveitu Suðurnesja skipt sköpum við framþróun þess máls. Alger samstaða hefur verið í bæjarráði um þetta verkefni og hafa bæjarfulltrúar A-listans í bæjarráði lagt sitt á vogaskálarnar til að tryggja verkefninu framgang. Nú þegar Sjálfstæðismenn í Reykjanesbæ hafa látið “PLATA” sig erum við ekki lengur í bílstjórasætinu og í raun nýrra eiganda Hitaveitu Suðurnesja að ákveða hvort álver í Helguvík fái næga orku eða ekki. Þetta er með öllu óásættanlegt fyrir okkur á Suðurnesjum.

Mikilvægt að standa saman að uppbyggingu álvers í Helguvík
Mikilvægi álvers í Helguvík fyrir svæðið skiptir miklu og mun hafa mikil áhrif á lífskjör og lífsgæði fólks á svæðinu. Þetta er óumdeilt, og verðum við öll að standa saman til að tryggja verkefninu framgang. Ábyrgð okkar er mikil og verða allir að leggjast á eitt. Við í A-listanum erum tilbúin til þess og stöndum heilir á bakvið áform um uppbyggingu álvers í Helguvík.

Eysteinn Jónsson
Bæjarfulltrúi A-listans í Reykjanesbæ
Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024