Sjálfboðaliða vantar á Vogastapa
Brýnt verkefni á Vogastapa er að hindra að gamla Stapagatan týnist í lúpínu. Mæting við N1 í Vogum kl. 19, eða upp á Vogastapa eftir það. Þar eru Sjálfboðaliðasamtök um náttúruvernd að verki í samvinnu við heimafólk og er þetta þriðja árið sem þau taka þarna til hendi. Unnið verður til kl. 22 með góðri pásu, en boðið verður upp á heitt kakó og huggulegar samræður úti í guðsgrænni náttúrunni. Í björtu veðri er frábært útsýni af Vogastapa. Mætið vel klædd eftir veðri og með vinnuvettlinga.
Eins og sjá má þegar ekið er eftir Reykjanesbraut klæðir lúpínan drjúgan hluta af Vogastapa. Hún hefur breiðst þar ótrúlaga ört út á 30 árum. Hún er þar að græða upp hálfgróið land sem er hið besta mál. Hún er frábær landgræðsluplanta og þarf ekki að kosta til neinum áburði. Gallinn er hins vegar sá að hún veður yfir allt, jafnt moldir sem berjalyng, og stefnir nú að Stapagötunni, gömlu þjóðleiðinni milli Voga og Njarðvíkur sem gengin var um aldir og skýrt markar fyrir.
Lúpínan hefur nú þegar lokað Stapagötunni á kafla utan við Grímshól en ætlunin er að verja götuna austan Grímshóls.
Gamlar þjóðleiðir eru friðaðar samkvæmt lögum og auk þess eru ákvæði í Aðalskipulagi Sveitarfélagsins Voga um að verja nyrsta hluta Vogastapa fyrir ágengum framandi plöntum.
Hverfisfriðunarákvæðin í aðalskipulaginu eru svo hljóðandi:
H-2: Vogastapi að Vogavík
Vogastapi er mikilvægt útivistarsvæði og hluti útsýnis frá Vogum. Hann hefur álíka gildi fyrir íbúa Sveitarfélagsins Voga og Esjan fyrir Reykvíkinga. Hann er að vísu lægri en Esjan en hefur það
framyfir að ganga í sjó fram. Þetta friðaða belti nær yfir hábungu Vogastapa frá Vogavík að mörkum Reykjanesbæjar. Innan þess er Stapagatan, gamla þjóðleiðin milli Voga og Njarðvíkur en gamli akvegurinn til Keflavíkur, sem lagður var snemma á 20. öld lendir rétt sunnan þess.
Skilmálar hverfisverndar H-2
• Engar byggingar verða leyfðar á þeim hluta Vogastapa sem sést úr Vogum, né heldur undir hlíð hans í Vogavík.
• Svæðið verði friðað gegn raski og framandlegum áberandi plöntum, t.d. lúpínu.
• Stapagatan verði merkt og notuð í óbreyttri mynd sem gönguleið.
Á myndinni er ung lúpínuplanta að nema land í lyngmóa. Ef að líkum lætur verður lúpínan búin að vaxa berjalynginu yfir höfuð eftir ca. 3 ár og drepa það með því að taka frá því birtuna.
Gengið í slóð forfeðranna í Stapagötunni
Hér er gatan horfin í lúpínu – og ófær gangandi fólki.
Það er gaman að vinna saman að náttúruvernd. Sjáumst!
Þorvaldur Örn Árnason, félagi í Sjálfboðaliðasamtökum um náttúruvernd.