Sjálfbær sjávarútvegur án ríkisstyrkja
Samfélag sem byggir á sterkum sjávarútvegi sem með sjálfbærum veiðum skapar þjóðarbúinu miklar gjaldeyristekjur, þiggur ekki ríkisstyrki og skapar örugga atvinnu fyrir fjölda fólks þykir víðast hvar um heiminn öfundsvert. Íslenska fiskveiðistjórnunarkerfið hefur ásamt því harðduglega fólki sem starfar í greininni, skapað slíkar aðstæður í íslensku samfélagi. Þrátt fyrir það hefur kerfið frá tilkomu þess verið umdeilt og hafa skoðanakannanir sýnt að meirihluti þjóðarinnar er á móti kerfinu enda keppast sumir stjórnmálamenn við að draga úr trúverðugleika þess. Staðreyndin er sú að þrátt fyrir að núverandi kerfi sé ekki gallalaust frekar en önnur mannanna verk er það besta fyrirkomulagið sem völ er á. Andstæðingar þess hafa ekki getað mótmælt þeirri staðreynd með fullnægjandi rökum enda hafa engar heildstæðar raunhæfar tillögur um annað betra kerfi litið dagsins ljós.
Háskaleg hugmyndafræði
Stefna ríkisstjórnarflokkanna um að hefja ríkisvæðingu aflaheimildanna 1. september nk. byggir á háskalegri hugmyndafræði sem ekki hefur verið hugsuð til enda. Viðbrögð sveitarstjórnarmanna, útgerðarmanna, sjómanna og annarra sem starfa í greininni hafa ekki látið á sér standa og hafa öll verið á einn veg. Sú vísbending um útfærslu fyrningarleiðarinnar sem birtist í skötuselsfrumvarpi sjávarútvegsráðherra sem nú er til umfjöllunar á Alþingi staðfestir þá skoðun. Leiðin virðist vera sú að auka aflaheimildir þvert á ráðleggingar vísindamanna og þar með er sjálfbærni kerfisins fórnað. Arðseminni verður miðað við umræðuna af hálfu vinstri manna einnig fórnað líkt og strandveiðarnar sanna. Auðlindin í hafinu er takmörkuð og sagan segir okkur að þegar takmörkuð verðmæti eru til skiptanna verða alltaf einhverjir sem telja sig ekki fá næg gæði í sinn hlut. Úthlutun takmarkaðra gæða verður alltaf umdeild, sama hvaða kerfi er notað. Réttlæti og sátt er því ekki í augsýn, sérstaklega ekki á þeim forsendum sem vinstri flokkarnir leggja fram.
Í hnotskurn
Íslenskur sjávarútvegur er burðarás í Íslensku atvinnulífi og ein sterkasta stoðin sem við þurfum nú sem aldrei fyrr á að halda til að styrkja íslenskan efnahag til framtíðar. Við eigum sjálfbæran sjávarútveg sem skilar arði án ríkisstyrkja. Ég er stolt af þeirri staðreynd og legg til að við leyfum okkur að njóta þess að vera ábyrg fiskveiðiþjóð sem er öðrum fyrirmynd á þessu sviði.
Unnur Brá Konráðsdóttir