Karlakór Kef kertatónleikar
Karlakór Kef kertatónleikar

Aðsent

Sigmar J. Eðvarðsson Grindavík í 4-5. sæti í Suðurkjördæmi
Þriðjudagur 24. febrúar 2009 kl. 14:58

Sigmar J. Eðvarðsson Grindavík í 4-5. sæti í Suðurkjördæmi

- Málefni sveitastjórnanna þurfa sterka rödd á Alþingi

Sigmar Júlíus Eðvarðsson, vélvirkjameistari/framkvæmdastjóri, 47 ára gamall Grindvíkingur, hefur ákveðið að taka þeim fjölda áskorana sem hann hefur fengið og gefur kost á sér í 4-5. sæti í prófkjöri sjálfstæðismanna 14. mars nk. í Suðurkjördæmi vegna alþingiskosninganna 25. apríl.

Sigmar hefur verið oddviti sjálfstæðismanna í bæjarstjórn Grindavíkur undanfarin tvö kjörtímabil og hefur því öðlast mikla reynslu af sveitarstjórnarmálum í kringum það starf. Lengst af hefur Sigmar starfað sem formaður bæjarráðs og tekið þátt í samstarfi sveitarfélaganna á Suðurnesjum svo sem með sæti í stjórn Hitaveitu Suðurnesja. Auk þess hefur Sigmar starfað að félagsmálum í bænum eins og stjórn Sjálfstæðisfélagsins og nefndarstörfum áður en hann bauð sig formlega fram til setu í bæjarstjórninni. Þá tók hann þátt í starfi Björgunarsveitarinnar Þorbjörns frá unglingsárum en formaður var hann í 8 ár, frá 1987 til 1994, við gott orðspor enda var mikil uppbygging og framþróun í störfum björgunarsveita að gerjast á þessum tíma sem hann tók þátt í að móta.

Á sínum unglingsárum nam Sigmar vélvirkjun og lauk meistaraprófi árið 1985 í greininni og starfaði við fagið í mörg ár. Árið 1990 tók Sigmar við starfi útibússtjóra Olíuverslunar Íslands, Olís, í Grindavík og starfaði þar í 16 ár eða þar til hann færði sig yfir í fyrirtæki fjölskyldu sinnar, Hópsnes hf, og hefur gengt þar stöðu framkvæmdastjóra síðan 2006.

Árið 2000 til 2003 stundaði Sigmar nám við Endurmenntunardeild Háskóla Íslands í markaðs- og útflutningsfræðum og bætti síðan við námi í rekstrar- og viðskiptafræði sem hann lauk einnig með diplóma frá deildinni.

Sigmar er kvæntur Lindu Oddsdóttur, listamanni, og eiga þau 3 uppkomin börn, Otta Rafn 23 ára, Elvu Rut 22 ára og Lilju Ósk 18 ára.

Sigmar hefur alla tíð aðhyllst stefnu Sjálfstæðisflokksins og er hvergi smeykur við að taka þátt í því mikla uppbyggingarstarfi sem framundan er í þjóðfélaginu eftir bankahrunið í haust og svara þeirri áskorun sem hann hefur fengið með því að gefa kost á sér til þeirra starfa. Hann telur að gömlu góðu gildin í íslensku samfélagi sem nú þarf að endurreisa, endurspeglist í að styrkja sveitarfélögin í landinu, því aðeins með þeim hætti tekst best að verja fjölskyldurnar og fyrirtækin fyrir þeim áföllum sem þau standa frammi fyrir á hverjum stað.

„Það er sorglegt að horfa upp á hvernig Samfylkingin hefur enn og aftur aðeins hugsað um eigin hag til að koma ár sinni best fyrir borð á pólitíska taflborðinu og tafið brýnustu málin sem þurft hefur að leysa, á meðan þjóðfélagið hefur flotið að feigðarósi. Á sama tíma og sjávarútvegsfyrirtækin í Suðurkjördæmi sjá á eftir dýrasta tíma loðnuvertíðar fara í súginn er sjávarútvegsráðherra í tómu bulli á nornaveiðum í Seðlabanka og víða,“ segir Sigmar og áréttar einnig að það bakslag sem komið hefur í uppbyggingu atvinnuveganna með aðkomu VG að þeim með þekktum niðurrifsaðferðum undir grímu umhverfisverndunar, verður að létta af íslenskri þjóð ef ekki á verr að fara en orðið er.

Í tilefni af framboðinu hefur Sigmar opnað heimasíðu á slóðinni: sigmar.is.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024