Síðbúin afmæliskveðja til Karls Steinars
Það eina sem ég hef mér til afbötunar fyrir að hafa misst af afmæli vinar míns er, að ég var í útlöndum. Kannski var hann í útlöndum líka. Ég var í Washington D.C. að þrátta við talsmenn ameríska heimsveldisins um, að þeir hefðu glutrað niður tækifærinu eftir hrun Sovétríkjanna til að rétta lýðræðissinnum í Rússlandi trausta hjálparhönd – með Marshall-aðstoð – við að byggja upp nýtt Rússland á rústunum. Ríki sem væri ekki hættulegt grannþjóðum sínum.
Þess vegna láðist mér að gá í dagbókina. Þar með fór það fram hjá mér að Kalli Steinar átti stórafmæli þann 27. maí sl. Ég skammast mín oní tær fyrir þetta en vil endilega reyna að bæta fyrir glöpin með fáeinum orðum.
Karl Steinar er nefnilega með merkari samtímamönnum mínum. Hann var lengi vel fremstur meðal jafningja í vöskum hópi verkalýðssinna og jafnaðarmanna á Suðurnesjum. Þetta var hörkulið, sem kvað að svo að eftir var tekið. Ef við hefðum átt fleiri menn eins og Karl Steinar, hefði Alþýðuflokkurinn náð sér aftur á strik eftir endurteknar klofningsiðju misviturra manna. Þá hefði Alþýðuflokkurinn náð því á nýjan leik að verða ráðandi afl í verkalýðshreyfingunni. Þá hefði Alþýðuflokkurinn aftur orðið ótvírætt forystuafl, eins og jafnaðarmannaflokkarnir á Norðurlöndum. Og þá væri íslenska velferðarríkið ekki í lamasessi, eins og nú er, heldur sverð og skjöldur allra þeirra sem þurfa á þjónustu þess að halda.
Karl Steinar var kennari að mennt en verkalýðsleiðtogi að köllun. Hann var formaður Verkalýðs- og sjómannafélags Keflavíkur í meira en tuttugu ár. Hann var bæjarfulltrúi Keflvíkinga í tólf ár. Hann var alþingismaður Suðurnesjamanna og Reyknesinga í fimmtán ár.
Hann var um skeið formaður Fjárlaganefndar Alþingis og kom þar miklu í verk. Eftir reynsluna af því samstarfi komst ég að því fullkeyptu, að það hefðu verið mistök að gera Karl Steinar ekki að félagsmálaráðherra í Viðeyjarstjórninni. Það hefði byggt brúna yfir til verkalýðshreyfingarinnar. Guðmundur Jaki og allt hans lið hefði þá stigið skrefið til fulls og gengið til liðs við jafnaðarmenn – arftaka Héðins, þar sem hann átti heima. Þetta voru mín mistök. Ein af mörgum.
Seinustu árin, þegar Karl Steinar var horfinn af hinum pólitíska vígvelli, sat hann á friðarstóli sem forstöðumaður Tryggingastofnunar ríkisins. Þar var hann réttur maður á réttum stað. Hann þekkti kerfið í þaula og reyndist vera tillögu- og úrræðagóður. En hann naut þá ekki þess pólitíska stuðnings sem til þurfti til að koma fram nauðsynlegum umbótum. Það var ekki honum að kenna.
Við fyrstu kynni gat maður freistast til að halda, að Karl Steinar væri bara það háttvísa prúðmenni, sem hann sýndist vera. En maðurinn er ekki allur þar sem hann er séður. Þegar á reyndi, að sækja og verja hagsmuni hans fólks, verkafólks og sjómanna á Suðurnesjum og Íslandi, reyndist hann vera harður nagli. Samningaþjarkur sem stóð seinastur manna upp frá borðum eftir andvökunætur og endalausa samningafundi. Hann reyndist alltaf vera gegnheill jafnaðarmaður, trúr og dyggur æskuhugsjón sinni. Og ekki spillti það fyrir að hafa kvenskörung eins og hana Þórdísi sér við hlið.
Við Bryndís sendum þeim báðum og allri stórfjölskyldunni, sem og Suðurnesjakrötum, hugheilar heillaóskir í tilefni af afmælinu.
Jón Baldvin og Bryndís