Sex ár á Íslandi og sex ár í Reykjanesbæ
Á þessu ári, 26. maí 2021, á fullu tungli og á pólska mæðradaginn, fagna ég sex ára afmæli mínu búandi í Reykjanesbæ, Íslandi. Það er svo auðvelt að týna sjálfum sér þegar maður skiptir um land. Það er svo auðvelt að fylgja því sem aðrir segja um menninguna, kerfið, annað fólk, atvinnumöguleika o.s.frv. En það er ekki eina leiðin, sérstaklega ef þú ert meistari í að „passa ekki inn í“. Að fara út fyrir þægindarammann gerir jafnvel það óþægilega erfitt.
Eftir COVID-reynsluna þekkjum við það öll. Okkur var hrint út úr þægindarammanum og það eina sem lét okkur finna öryggi var traust ... Traust er svo mikilvægt í lífinu. Traust til að hlusta á eigið hjarta, traust til alls sem er að gerast í kringum okkur, traust til fullkomnunar heimsins, traust og þakklæti …
Ég kom ólétt til Íslands, ég tók fæðingarorlof snemma í vinnunni, kláraði námið mitt, flutti tryggingarnar mínar frá Póllandi, tók sex ára gamlan son minn og ég mætti. Ég ætlaði aðeins að vera í stuttan tíma, fá reynslu á landið, upplifa menninguna hérna og vegna annarra ástæðna sem ég mun ekki deila hér.
Ég hafði ekki hugsað mér að búa hér, ég var aðeins opin fyrir því að nota fæðingarorlofið mitt. Vinnan mín, íbúðin, fjölskylda og vinir, allt var í heimalandinu.
Sonur minn spilaði fótbolta í Póllandi, þannig að fyrsta skrefið var að finna lið hér og hann fékk yndislegan þjálfara á sumarnámskeiði. Ég hitti frábæra kennara og foreldra í skóla sem hjálpuðu mér að skilja menntakerfið, heimavinnu, mentor, frístundir utan skóla o.s.frv.
Ég fékk einkatíma þar sem ég lærði að lesa á íslensku því ég vissi að börn þyrftu að lesa upphátt daglega og mig langaði að aðstoða son minn við heimanámið. Það var jafnvel ekki nauðsynlegt fyrir mig að skilja hvað ég væri að lesa, ég vildi bara vita hvort hann væri að lesa vel. Hann kunni að lesa á pólsku áður en við komum til Íslands.
Seinna lékum við okkur mikið með orðabók til að skilja meira og meira. Ég spurði kennarana mína og vini hvernig ætti að segja þetta og hitt svo að mér liði vel þegar vinir sonar míns kæmu í heimsókn, eða til að hjálpa honum að tjá sig í skólanum. Ég var með minnisblöð heima til að spyrja vini hans hvort þær væru svangir o.s.frv.
Ég fór með litla barnið hangandi í sling-trefli framan á mér í afmælisveislur svo sonur minn gæti farið þangað, hann var ekki með mikið sjálfstraust vegna tungumálahindrana þannig að honum leið vel með að hafa mig með.
Þegar við ákváðum að setjast hér að fann ég mér 50% starf, ég var ráðinn út af fæðingardeginum mínum – og það skil ég vel því ég er stjörnuspekingur. Ég sagði upp vinnunni í fyrirtækinu sem ég vann hjá í Póllandi og við keyptum lítið, töfrandi og yndislegt hús sem ég er að selja núna.
Ég var sjálfstætt starfandi þá, hélt námskeið fyrir VMST (ég hannaði og þróaði námskeið í starfsþróun fyrir VMST og var líka í samstarfi með MSS og útvegaði námskeið um gæði, samstarf og samskipti innan fjölþjóðlegra hópa), ég var einnig í samstarfi með Reykjanesbæ.
Ég gekk í gegnum skilnað hérna og fékk gríðarmikinn stuðning frá vinum og fjölskyldu og ég kunni mjög vel að meta hvernig þetta er á Íslandi, að einstæð móðir með tvö börn með sitthvorn föðurinn væri ekki dæmd eða stimpluð, ég var ennþá ég.
Ég byrjaði í fullri vinnu hjá MSS sem verkefnastjóri. Ég er að skipuleggja námskeið og einnig að kenna. Starfsþróun, Þróun hugmyndar að viðskiptatækifæri á pólsku og ensku, Stökkpallur á pólsku, WordPress námskeið á pólsku og ensku, Námskeið í samfélagsmiðlahæfni, Móttaka og miðlun á pólsku og ensku, íslenskunámskeið og námskeið fyrir fyrirtæki. Ég er einnig að hjálpa fólki sem markþjálfi, á þessu ári kláraði ég ACC ICF markþjálfararéttindi. Ég er einnig í stjórn FKA New Icelanders, við ætlum að styðja þróun erlendra kvenna í nýsköpun.
Þannig að ég treysti – en af hverju? Því ég treysti sjálfri mér. Þegar ég kom hingað og þegar hugmyndin kom um að dvelja hér, þá vissi ég ekki hvað kæmi næst. Ég var að skoða sjálfa mig hérna – ég vildi læra meira um sjálfa mig og um umhverfið, fólk, menningu og erfiðleika sem koma upp hérna vegna tungumála- og menningarmuns.
Ég tók DISC D3 prófið og eftir að hafa lesið niðurstöðurnar og fengið endurgjöf lærði ég meira um sjálfa mig, hvaða hæfileika og styrkleika ég ætti að nota og hvernig ég ætti að vaxa. Næsta skref var að verða viðurkenndur ráðgjafi, líka að skilja fólk betur, ég lærði stjörnuspeki af sömu ástæðu, mig langaði að fá dýpri skilning á sjálfri mér og veröldinni í kring, tengingum, orkuheimi, áhrif o.s.frv. Ég er einnig að innleiða DISC D3 persónuleikapróf og styrktarmat fyrir íslenskan markað, prófið er nú þegar á íslensku, ég er viðurkenndur ráðgjafi og viðskiptafélagi Effectiveness Group.
Mig langaði að halda mig við eitthvað sem væri ekki þægilegt fyrir mig. Mig langaði að vera eins og ég væri. En hver er ég? Ég er bara ég og það er nóg.
Ég stofnaði mitt eigið fyrirtæki hér, með ást er það rólega að þróast, ég flyt inn kakó frá fimm löndum. Ég býð einnig upp á andlega þjálfun, heilun, orkuhreinsun, kakó seremóníur, meðferð í róttækri fyrirgefningu ‘Radical Forgiveness’ og fleira (psychomagic).
Ég bjó líka til yndislegt verkefni sem heitir „Lærðu með“ en ég hef ekki enn nægt fjármagn til að halda áfram með það.
Ég er að læra Talent Management (meistaranám), er í jógakennaranámi og ég vinn með Barnavernd við að styrkja erlendar fjölskyldur í erfiðum aðstæðum.
Og ég er greind með einhverfu.
Ég mun bráðum yfirgefa Reykjanesbæ. Ég er að selja húsið mitt og flyt á Álftanes, og bý til yndislega patchwork-fjölskyldu með tilvonandi eiginmanni mínum. Vonandi verðum við fyrsta giftingarathöfnin í lífsskoðunarfélaginu Sólardýrkendur sem ég er að koma á fót hér á Íslandi. Það er andlega tengt því sem býr í sannleikanum, algyðistrú, að greina guð í náttúrlega heiminum. Þetta er kerfi af trú sem byggir á „þekkingu“ en ekki „trú“. Þar verður rými til að styðja meðvitað og hugmyndaríkt fólk við að fylgja ástríðu sinni, áhugamálum, draumum, sköpun, andlegri viðleitni sem og faglegum þáttum í lífinu.
Ég mun áfram vinna í Keflavík og halda seremóníurnar mínar í frábæra Om setrinu.
Mig langar að færa ykkur skilaboð – fólkinu sem les þetta: „Verið þið sjálf hvar sem þið eruð og treystið. Þetta er það besta sem þið getið gert, sjáið mynstrin í lífi ykkar, upplifið ykkur sjálf á mismunandi hátt, prófið, sleppið því sem hentar ykkur ekki, elskið ykkur sjálf. Verið ánægð í líkama ykkar, því að lífið er að gerast á þessu augnabliki og verið þakklát fyrir það.“
Ást og kærleikur,
Monika