Sérstakar aðgerðir strax í atvinnumálum fyrir Suðurnesin
Aðgerðapakki ríkisstjórnarinnar í efnahagsmálum vegna kórónuveirunnar var samþykktur á Alþingi í aukafjárlögum sl. mánudagskvöld. Ég tel að aðgerðirnar séu góðar svo langt sem þær ná en gangi ekki nógu langt í því að lágmarka það tjón sem við stöndum frammi fyrir í þeim fordæmalausu aðstæðum sem nú ríkja um allan heim.
Formaður fjárlaganefndar viðurkenndi að þetta dygði ekki til en boðaði frekari aðgerðir. Miðflokkurinn studdi tillögur ríkisstjórnarinnar en lagði jafnframt fram breytingartillögur ásamt stjórnarandstöðuflokkunum um víðtækari aðgerðir til að örva efnahagslífið. Tillögurnar eru hrein viðbót og hljóða upp á 30 milljarða króna til hinna ýmsu verkefna, má þar nefna Reykjanesbrautina, Hjúkrunarheimilis við Nesvelli, auk þess til Keilis og Miðstöðvar símenntunar á Suðurnesjum, til að mæta brýnum aðstæðum vegna mikils atvinnuleysis á svæðinu.
Breytingartillögur minnihluta felldar sem fyrr
Ríkisstjórnarflokkarnir felldu allar tillögurnar og eru það mikil vonbrigði. Sérstaklega þar sem Suðurnesin komu afar illa út úr efnahagsþrengingunum. Ríkisstjórnin lagði til 200 milljónir til framkvæmda við Heilbrigðisstofnun Suðurnesja til að bæta aðkomu sjúkrabifreiða og aukið hlutafé til Isavia til framkvæmda. Í hafnarframkvæmdum er gert ráð fyrir dýpkun við Sandgerðishöfn og grjótverkefni í Keflavík og Njarðvík. Ljóst er að þessi verkefni duga engan veginn til að vinna á móti atvinnuleysinu, sem er það mesta á landinu og er spáð að verði allt að 20%. Ríkisstjórnin verður að koma strax með sérstakan aðgerðarpakka fyrir Suðurnesin.
Þingmenn svæðisins verða að standa saman
Nú reynir á sem aldrei fyrr að þingmenn kjördæmisins standi saman í því að mæta þeim mikla vanda sem Suðurnesin standa frammi fyrir í atvinnumálum. Þá þýðir ekki fyrir þingmenn stjórnarflokkana að kalla eftir samstarfi á erfiðum tímum en fella svo allar tillögur minnihlutans um aðgerðir fyrir Suðurnesin.