Sérdeildin Ösp við Njarðvíkurskóla
- Aðsend grein frá deildarstjóra Aspar og skólastjóra Njarðvíkurskóla
Við Njarðvíkurskóla er starfrækt sérdeildin Ösp sem stofnuð var árið 2002 þegar skólaúrræði vantaði fyrir nemendur sem gátu ekki nýtt sér almenna bekkjarkennslu. Deildin er hugsuð fyrir nemendur í 1. til 10. bekk í grunnskólum Reykjanesbæjar sem þurfa á slíku skólaúrræði að halda og sinnir meðal annars nemendum með þroskaskerðingu, Down´s heilkenni, Rubenstein heilkenni, hreyfihömlun, einhverfu sem og langveika nemendur. Í dag eru 13 nemendur í Öspinni en mest hafa 16 nemendur verið skráðir í deildina.
Aðstaða bætt vegna mismunandi þarfa
Það voru þær Gyða Arnmundsdóttir, sem þá var sérkennari við Njarðvíkurskóla og er nú sérkennslufulltrúi hjá Reykjanesbæ og Anna Dóra Antonsdóttir, þáverandi sérkennslufulltrúi Reykjanesbæjar, sem stóðu að stofnun deildarinnar. Öspin er í sér húsnæði á lóð Njarðvíkurskóla en upphaflega fylgdi það húsnæði leikvelli bæjarins. Haustið 2012 var ný og glæsileg viðbygging tekin í notkun við Öspina. Hún kom til vegna fjölgunar nemenda og nauðsyn þess að bæta aðstöðuna til að koma betur til móts við mismunandi þarfir nemenda. Deildin er vel mönnuð fagfólki en þar starfa kennarar, þroskaþjálfar og félagsliðar ásamt stuðningsfulltrúum. Nemendur tilheyra allir ákveðnum umsjónarbekk og sækja tíma með bekkjarfélögum í Njarðvíkurskóla eins og kostur er.
Starfsemi deildarinnar tekur mið af þeim nemendahópi sem er þar hverju sinni. Markmið sérdeildarinnar eru:
Að nemendur á grunnskólaaldri og foreldrar/forráðamenn þeirra eigi völ á sérhæfðu skólatilboði.
Að nemendur fái einstaklingsþjálfun og kennslu sem miðar að því að búa þá undir líf og starf í nútíma samfélagi.
Að skapa nemendum jákvæða sjálfsmynd.
Að auki sinnir deildin eftirskólaúrræði fyrir sína nemendur en einnig hafa nemendur í öðrum grunnskólum bæjarins og frá öðrum sveitarfélögum sótt það úrræði.
Skynörvunarherbergi útbúið
Á undanförnum árum hafa þeir sem starfa í Öspinni fundið fyrir mikilvægi þess að hafa vel útbúið skynörvunarherbergi til að koma til móts við ólíkar þarfir nemenda deildarinnar. Starfsmenn fóru í nokkrar skólaheimsóknir í aðra sérskóla og kynntu sér mjög vel útbúin skynörvunarherbergi. Á síðasta ári fékk deildin síðan sinn fyrsta styrk og var þá hafist handa við að útbúa slíkt herbergi. Að hafa skynörvunarherbergi sem þátt í kennslu og þjálfun fyrir nemendur Asparinnar þýðir að hægt er meðal annars að vinna með og þjálfa grunnsvið skynjunar, það er; líkamsskynjun, snertiskynjun, sjónskynjun og heyrnarskynjun. Einnig fer þar fram félagsfærniþjálfun og markviss slökun með viðunandi kennslubúnaði. Skynörvunarherbergi Asparinnar kemur líka til með að nýtast öllum nemendum í almennum bekkjum í Njarðvíkurskóla, en nemendur á yngsta stigi koma markvisst yfir í Öspina til þess að nota aðstöðuna.
Við finnum að horft er til starfsemi Asparinnar frá öðrum fagaðilum vegna þess faglega starfs sem þar fer fram. Það er töluverð ásókn í deildina og fær starfið mikið hrós frá utanaðkomandi fagaðilum. Þá hefur deildin notið mikils velvilja grenndarsamfélagsins sem hefur styrkt starfsemi deildarinnar og kunnum við þeim aðilum bestu þakkir fyrir þeirra framlag. Deildin vinnur í nánu samstarfi við sérkennslufulltrúa fræðsluskrifstofu Reykjanesbæjar en deildarstjóri er Kristín Blöndal.
Ásgerður Þorgeirsdóttir, skólastjóri Njarðvíkurskóla
Kristín Blöndal, deildarstjóri sérdeildarinnar Aspar