Seint verður sagt að Þorsteinn og félagar fari vel með almannafé
Í síðasta tölublaði Víkurfrétta fór Þorsteinn Erlingsson, að reyna að slá ryki í augu bæjarbúa og verja gjörðir Sjálfstæðismanna hér í bæ.
Fulltrúar A-listans hafa viljað standa vörð um Hitaveitu Suðurnesja með því að halda henni í meirhlutaeign Reykjanesbæjar og almennings. Hafa bæjarfulltrúar minnihlutans ekki gleymt að Hitaveita Suðurnesja var stofnuð fyrst og fremst til að lækka orkukostnað fyrir íbúa svæðisins. Halda Þorsteinn og félagar að þeir Geysir Green menn hafi verið að kaupa hlut í Hitaveitu Suðurnesja til að tryggja áframhaldandi lágt orkuverð fyrir almenning á Suðurnesjum.
Nú er það orðið staðreynd sem frambjóðendur A-listans héldu fram í síðustu bæjarstjórnarkostningum, að Sjálfstæðismenn mundu selja hlut bæjarins í Hitaveitunni til að rétta við skuldarstöðu bæjarins, þrátt fyrir yfirlýsingar þeirra frambjóðenda um að sala Hitaveitunnar væri ekki á dagskrá og frekar myndu þeir stefna að auknum hlut bæjarins.
En nú spyr ég Þorstein, ef þið viljið endilega selja hluta bæjarins í Hitaveitunni, af hverju ekki að selja þau á almennum markaði og þá hæstbjóðanda. Mætti þá nota þá peninga sem af því kæmu til að borga niður til dæmis halla síðasta árs upp á 480 milljónir (Þorsteinn og félagar gerðu áætlun upp á 10 milljóna króna rekstarafgang) eða skuldir Reykjaneshafnar sem eru orðnar yfir 3000 milljónir undir stjórn Þorsteins.
Er kannski verið hegla einhverjum flokksgæðingum Sjálfstæðismanna eins og Þorsteinn Erlingsson gerði þegar hann seldi sjálfum sér og fleirum hlutabréf Hitaveitu Suðurnesja í Sparisjóðnum, sitjandi beggja megin við borðið og allt um kring. Þá var ekki spáð í hag almennings, við sölu bréfanna á almennum markaði.
Ólafur Thordersen
Bæjarfulltrúi A-listans