Satt og logið um Helguvík
Ráðherrar í ríkisstjórn Jóhönnu Sigurðardóttur hafa á kjörtímabilinu staðfest tvo fjárfestingarsamninga vegna iðnaðarsvæðisins í Helguvík, vegna álvers og kísilvers. Reyndar tvo til, annan á Ásbrú um gagnaver sem þegar er komið til starfa og hinn um fiskvinnslu í Sandgerði.
Starfsemi iðjuveranna í Helguvík hefur því miður ekki enn farið af stað en stjórnvöld hafa staðið með Suðurnesjamönnum í baráttunni. Tafir á álverinu í Helguvík snúa t.d. að efndum á gerðum orkusölusamningum á milli HS orku og Norðuráls. Umgjörð sem fjárfestingarsamningarnir skapa fyrir rekstur fyrirtækjanna er mjög mikilvæg og tryggir stöðugleika sem léttir uppbyggingarferlið.
Ívilnanir vegna iðnaðarsvæðisins
Snemma ársins 2012 samþykkti ríkisstjórn tillögu mína sem fjármálaráðherra um að komið yrði á samstarfshóp ráðuneyta sem fjallaði um höfnina í Helguvík og legði mat á aðstæður og kostnað við nauðsynlegar framkvæmdir. Ég lagði fram þessa tillögu vegna þess að ljóst er að Reykjanesbær mun ekki án aðkomu ríkisins geta ráðist í hafnarframkvæmdir og gert iðnaðarsvæðið þannig úr garði að það geti mætt kröfum fyrirtækjanna.
Starfshópurinn skipaður fulltrúum iðnaðarráðuneytis, fjármálaráðuneytis og innanríkisráðuneytis fjallaði á sama veg um iðnaðarsvæðið á Bakka í Norðurþingi enda svipaðar aðstæður á báðum stöðum hvað hafnirnar varðar. Með samþykktinni var lagður grunnur að samstarfi ráðuneyta og sveitarfélaga á Suðurnesjum um markvissa uppbyggingu á iðnaðarsvæðinu í Helguvík. Það hefur nú skilað sér í mati og greiningu á þörfum fyrir hafnarframkvæmdir og kostnaði við þær, ásamt ákvörðun ríkisstjórnar um að fela fjármála- og efnahagsráðherra að hefja viðræður við Reykjanesbæ um aðkomu ríkisins að uppbyggingu í Helguvík. Þeirri vinnur miðar vel og mun brátt líta dagsins ljós í formi frumvarpa, en fyrst er að koma sér saman um forsendur og inntak ívilnana, sérstaklega er varða höfnina, en þar er um að ræða ívilnanir sem geta numið yfir milljarði króna.
Rangfærslur og ósannindi
Mitt inn í þá tímamótaákvörðun um að ganga til samninga um ívilnanir á iðnarðarsvæðinu í Helguvík kemur síðan mikil furðugrein eftir oddvita sjálfstæðismanna í Suðurkjördæmi. Þá ægir saman rangfærslum og misskilningi sem ekki er hægt að láta standa. Málflutningurinn er fullur af útúrsnúningum og ósannindum og á að leiða fram að ríkisstjórn Jóhönnu Sigurðardóttur hafi ekki stutt við uppbyggingu iðnaðarsvæðisins.
Ekkert er fjær sanni. Það staðfesta fjárfestingasamningarnir og sú vinna sem nú er verið að ljúka um ívilnanir vegna iðnaðarsvæðisins í Helguvík. Ívilnanir sem fyrri ríkisstjórnir Sjálfstæðsflokksins ljáðu aldrei máls á og settu ekki af stað. Ofan í kaupið breyttu þeir sjálfstæðismenn hafnarlögunum með þeim hætti árið 2006 að snúið er fyrir ríkið að koma að stuðningi við hafnir.
Sérstaklega er málflutningurinn kúnstugur þegar hann eru skoðaðar í því ljósi að þegar sjálfstæðismenn voru í ríkisstjórn og forsætiráðherra, fjármálaráðherra og samgönguráðherra allir sjálfstæðismenn kom enginn stuðningur við uppbyggingu svæðisins. Þá voru engir fjárfestingarsamningar undirritaðir eða stuðningur við hafnarframkvæmdir. Þvert á móti voru hafnarlögum breytt þannig að sérlög þyrftu að gilda um hverja höfn ef til stuðnings frá ríkinu ætti að koma.
Því sendi ég dylgjurnar heim í Valhöll. Lítið í eigin barm sjálfstæðismenn í stað þess að reyna með rangfærslum að snúa sannleikanum á haus. Dreifa ósannindum sem eiga sér hvergi stað nema í aðgerðarleysi þeirra sjálfra fyrr á tíð og allt kapp hefur nú lagt á atvinnuuppbyggingu á Suðurnesjum. Þó enn sé margt ógert tala tölurnar sínu máli. Þröngri stöðu eftir ár óstjórnar og brotthvarfs hersins höfum við snúið í sókn eins og bætt staða á atvinnumarkaði sýnir glögglega.
Oddný G. Harðardóttir,
skipar 1. sæti á framboðslista Samfylkingarinnar í Suðurkjördæmi