Karlakór Kef kertatónleikar
Karlakór Kef kertatónleikar

Aðsent

Satt að segja
Laugardagur 21. apríl 2007 kl. 12:18

Satt að segja

Í þarsíðasta tölublaði Víkurfrétta var málflutningur Júlíusar Jónssonar, forstjóra HS, leiðréttur og bent á að mannleg mistök á glæru Ástu Þorleifsdóttur væru á engan hátt til þess fallin að rýra hugmyndafræði Landverndar um eldfjallagarð. Umræðan um glæruna er til þess fallin að beina athygli fólks frá aðalatriði málsins sem er um möguleika til landnotkunar á geysilega verðmætu landssvæði. Skilaboðin virðast ekki hafa verið nógu skýr því tæpum sólarhring eftir að Víkurfréttir voru bornar í hús réðist Júlíus aftur gegn Landvernd með skrifum á vef Víkurfrétta. Hér er því reynt að varpa betra ljósi á málið.

Það er að mörgu að huga þegar meta á tekjur og arðsemi framkvæmda og fjárfestinga. Landvernd hefur, eins og Júlíus bendir á, sagt í frétt á heimasíðu sinni að eldfjallagarður muni skapa milljarða í tekjur og hundruðir starfa. Að upplýsa þannig um stærðargráðu tekna og starfa sem garðurinn myndi skapa í samfélaginu er ekki það sama og að að leggja fram tölur um áætlaðan efnahagslegan ávinning. Tekjur samfélagsins af eldfjallagarði er ekki það sama og tekjur eldfjallagarðsins sjálfs, rétt eins og „tekjur Ásbyrgis“ er ekki það sama og „tekjur samfélagsins af Ásbyrgi“. Júlíus virðist blanda þessu tvennu saman. Til þess að rökstyðja að tekjur af garðinum yrðu af þessari stærðargráðu hafa samtökin vísað í gögn Kaupþings. Þar kemur fram að 50.000 ferðamenn skila tekjum sem nema 5 milljörðum. Einnig má líta til áætlana um Vatnajökulsþjóðgarð en talið er að árlegar tekjur vegna hans verði taldar í milljörðum. Það er því eftir nokkru að slægjast með stofnun þjóðgarða, fólkvanga eða eldfjallagarða, sé rétt að málum staðið og ástæðulaust að hártoga það frekar. Einn af kostunum við eldfjallagarð er að uppbygging hans getur átt sér stað eftir því sem hagkerfið, atvinnulífið og samfélagið kallar á hverju sinni án stórkostlegra þenslu- og ruðningsáhrifa.

Umhverfiskostnaður er eitt af því sem huga þarf að þegar lagt er mat á arðsemi framkvæmda og fjárfestinga. Efnahags- og framfarastofnun Evrópu (OECD) hefur ítrekað gert athugasemdir við að það skuli ekki gert við stórframkvæmdir hér á Íslandi. Sem dæmi um hugsanlegan umhverfiskostnað vegna virkjana við Seltún, Sandfell og Trölladyngju, má horfa til reynslunnar á Reykjanesi. Virkjanirnar á Krýsuvíkursvæðinu kynnu að hafa sömu áhrif á hverasvæðið við Seltún og virkjunin á Reykjanesi hefur haft á Gunnuhver, einn vinsælasta viðkomustað ferðamanna á svæðinu. Ef sú yrði raunin, hversu hár væri þá sá fórnarkostnaður? Einn af kostunum við eldfjallagarð er að honum fylgir mun minni umhverfiskostnaður en hugsanlegu álveri, nokkrum jarðvarmavirkjunum og umfangsmiklu háspennulínuneti um dýrmætt svæði. Fróðlegt væri að vita hvort HS vinni nú skv. ábendingum OECD og grundvölli aðrsemisútreikninga sína vel.

Júlíus kýs að nota orðalagið „ ... á Sóla/Landverndarfundinum ... “ þegar hann fjallar um fund sem Sólirnar þrjár  kenndar við Straum, Suðurnes og Suðurland stóðu fyrir í Hafnarfirði stuttu fyrir kosningar um stækkun álversins í Straumvsík. Af þessu tilefni er rétt að benda á að ýmsir aðilar á Suðurnesum og víðar hafa leitað eftir fyrirlesurum hjá Landvernd. Þar má nefna orkurfyrirtæki, menntastofnanir, samtök, félög, stjórnmálaflokka og sveitarstjórnir. Meginreglan er að Landvernd talar fyrir þá sem á vilja hlusta og vonandi verða þeir fleiri eftir sem líður á.

Bergur Sigurðsson,
framkvæmdastjóri Landverndar.
Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024